Viltu baka hamingjuböku í sumar?

Kristín Linda – sálfræðingur hjá Huglind fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

 

Nú er íslenska sumarið hafið með sól og regni, roki og logni, kuldastrekkingi og hlýjum sólríkum dögum. Í umræðum samfélagsins og fjölmiðla lætur hátt í þeim sem búast við, eða næstum ætlast til, að við förum í einhverskonar sumarfrí. Njótum þess að ferðast, fara saman á bæjarhátíðir, í göngur og grillveislur, gera og upplifa. Vissurlega munu margir gera einmitt það en svo sannarlega ekki allir, í það minnsta ekki á sama hátt.

Sumarið, sumarleyfið, frídagar, reynast þeim sem eru einir á báti, hafa ef til vill misst eða ekki fundið þann félagsskap sem þeir óska, sérstaklega erfiður tími. Það er krefjandi að ferðast einn, upplifa einn, geta ekki undirbúið daginn með neinum, deilt upplifun sinni af nýjum stað, fuglasöng, mögnuðu safni eða útsýni af háum hól með neinum. Vissulega eru þeir sem hafa mikinn lífskraft og framtak færir um að skapa sér gefandi daga einir, bara frábært. En þeir eru líka fjölmargir sem upplifa sig aldrei í eins fátæklegri félagslegri stöðu, einmanna, dapra og auðnulausa eins og þegar flestir landsmenn eru að gleðjast með sínum í bústað, á ferð um landið eða í grillveislu. Hvað er þá til ráða? Hvernig geta þeir sem eru slíkum aðstæðum bætt líðan sína og lífsgæði á komandi sumardögum? Hér koma hagnýt hamingjuráð úr ríkulegum sjóði sálfræðinnar.

Greining og gagnasöfnun: Rannsakaðu eigið líf, kortleggðu það sem gefur þér gleði, bæði það smáa og stóra. Líttu um öxl og skoðaðu markvisst ánægustundirnar þínar gegnum daga, vikur og mánuði. Virkilega pældu í því hvenær og hvers vegna það var/er gaman hjá þér. Þannig verður til sjálfsþekking og vissa um hver eru hin dýrmætu innihaldsefni hamingjunnar í þínu tilviki. Þessi þekking skapar alvöru og rétt gögn til að þú getir aukið eigin hamingjuhegðun og bætt líðan þína og lífsgæði, strax í sumar.

Stefnumótun: Skrifaðu niður sumarlistann þinn. Uppskrift sem inniheldur það sem þig langar til að upplifa eða gera í sumar. Hvort sem það er að skoða fimm fossa eða sundlaugar, taka fimmtíu blómamyndir, ganga þrjátíu sinnum um í náttúrunni eða lesa bækur Jane Austen. Skrifaðu niður, ekki bara hugsa, ótal rannsóknir sýna að það skiptir máli að skrá, svart á hvítu. Svo verður gaman, gefandi og valdeflandi að krossa við.

Stígðu fram: Hefur þú í þér kjark og kraft núna, í þessari viku, til að hrista af þér feimni og framtaksleysi og hafa samband við kunningja? Já, kunninga, sem sagt út fyrir fjölskylduna og vinahópinn, hugsaðu vítt! Ekki leggja árar í bát þó þú vitir að þér bjóðist ekki, einhverra hluta vegna, samvera við fjölskyldu eða gömlu vinina. Hafa samband við einhverja sem þú veist af og eru í svipaðri stöðu á líflínunni og þú, með það í huga að búa til einhvers konar samveru eða klúbb. Það er sannarlega hægt að koma á hittingi, tveir eða fleiri og ákveða að stunda saman gefandi viðfangsefni og láta verða úr því. Vissulega það þarf kjark og framtak til að koma því á en ekki hika gerðu það bara!

Mættu: Nýttu þér þau fjölmörgu tilboð sem eru í gangi þar sem fólk kemur saman og er velkomið, nákvæmlega eins og það er, eitt án fylgdar. Það er bara gamaldags að halda að við séum öll í pörum eða með einhvers konar fylgdarmann eða lagskonu. Ekki hika við að skella þér í ferðalög hérlendis eða erlendis, mæta á viðburði og taka þátt þótt þú haldir ein/einn af stað. Að vera einn/ein skapar ákveðin aðgengileika til að mynda ný kynni og njóta félagsskapar við ókunnuga. Rannsóknir sýna einmitt að jákvæð samskipti við ókunnuga geta sannarlega skapað okkur nærandi örstundir af ást. Skráðu þig og af stað, mættu bara!

Fyrsta mikilvæga skrefið er að virkilega vita hvað það er sem gleður þig og lyftir líðan og lund. Næsta að móta á þeim grunni eigin stefnu varðandi iðju, ánægjustundir og upplifanir, já endilega skráðu þína uppskrift hjá þér svart á hvítu. Galdurinn er svo koma innihaldefnum uppskriftarinnar á dagskrá í stærri og smærri skefum, byrjaðu strax! Við getum öll á einhvern hátt unnið í því að baka eigin hamingju svo hún lyfti sér og fylli sálina nýrri orku og gleði. Já, þú getur líka bakað eigin hamingjuböku sumarið 2024.

Gangi þér vel.

Kristín Linda Jónsdóttir júní 7, 2024 13:43