Skref í rétta átt að hækka eftirlaun þeirra sem eru einir í 300 þúsund

Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir helgina að leggja til að lágmarks“bætur“, einstæðra eldri borgara verði 300 þúsund krónur á mánuði frá 1.janúar 2018.  Það er háð því að þeir hafi ekki aðrar tekjur sem hafa áhrif á fjárhæð „bótanna“. Um næstu áramót eiga „bæturnar“ að hækka strax í 280 þúsund.  Fjölmiðlar greindu frá þessu fyrir og um helgina.  Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra að hann vonist til að tillögurnar fái „góðan hljómgrunn í þinginu“ og hægt verði að afgreiða þær á skömmum tíma. (Tekið skal fram að gæsalappirnar í þessari klausu eru komnar frá ritstjórn Lifðu núna)

Barátta FEB og Gráa hersins að skila sér

Það hefur verið baráttumál Félags eldri borgara í Reykjavík og Gráa hersins að lægstu eftirlaun fylgi lágmarkslaunum í landinu, en þau munu ná 300 þúsund krónum 1.maí 2018.  Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður FEB sagðist í dag fagna því að barátta félagsins hefði borið þennan árangur. „Það sýnir sig að barátta Félags eldri borgara í Reykjavík og Gráa hersins er að skila sér með auknu fjárframlagi til málaflokksins“, sagði hún en bætti við að enn væru ákveðin vandamál varðandi  samspil atvinnutekna og annarra tekna eldri borgara í frumvarpinu. Frítekjumarkið sem er núna rúmlega 100 þúsund krónur á mánuði verður samkvæmt nýju tillögunum, 25 þúsund krónur.

Ekki ljóst hvernig þetta kemur út fyrir fólk

Þórunn segir að ríkisstjórnin sé að leggja meira fé til málaflokksins, en hún sé einnig að spara með því að leggja til að því verði flýtt að eftirlaunaaldur hækki úr 67 árum í 70 ár.  „En það er vissulega hægt að líta á þetta sem skref í rétta átt að hækka lægstu eftirlaun í 300 þúsund krónur á mánuði  fyrir einhleypt fólk. En baráttunni lýkur aldrei og það er ekki hægt að leggja blessun sína yfir þetta frumvarp, nema viðbótarupplýsingar fáist um hvernig þetta kemur út fyrir fólk, en þær upplýsingar liggja ekki fyrir“.

Ritstjórn október 10, 2016 14:37