When I am sixty four

„Ég fékk grænt ljós hjá lækninum að halda áfram í kvöld, en hann telur þó vissara að koma og fylgjast með mér“, sagði Halldór Gunnarsson og hlær í símann, þegar Lifðu núna hafði samband við hann. Halldór spilar með hljómsveitinni Þokkabót á balli sem verður haldið í Iðnó í kvöld undir heitinu When I am sixty four.  Sjálfur  verður hann 64ra ára í næstu viku.

Lagið When I am sixty four var mjög vinsælt á sínum tíma og unga fólkinu þótti textinn mjög  fyndinn.  Það sem var líka sérstakt er að Paul MacCartney var einungis sextán ára gamall þegar hann samdi lagið og textann.  Halldór segir hann hafa gert það með foreldra sína í huga og þess vegna væri lagið í gamaldags stíl.  Hann hefði horft á þau bara nokkuð glöð með lífið.

Stærra en fimmtugs- og sextugsamælin

Halldór segir að hann og félgi hans í Þokkabót, Gylfi Gunnarsson og kona  Gylfa, Sólborg Sumarliðadóttir, hefðu rætt um það fyrir mörgum árum að 64 ára afmælisdagurinn yrði þeirra stórafmæli, stærra en fimmtugs- og sextugsafmælið, enda þótti þeim það fyndin tilhugsun að þau yrðu einhvern tíma 64 ára.  Þau tóku þá ákvörðun að halda sameiginlega uppá daginn þegar þar að kæmi.  Þeim fannst hugmyndin ennþá góð þegar að þessu kom og þegar þau ræddu hana við vini og félaga, fannst þeim sem héldu 68 böllin hér áður fyrr, að það væri ástæða til að gera meira úr þessu og slá upp balli og sumarskemmtun í Iðnó fyrir alla af kynslóðinni.   „Maður treystir engum nema gamalli menningarstofnun til að halda utanum svona“, segir Halldór.

Nú er hann að verða 64 ára og elskar konan hann enn? „Já, það er ekki annað á henni að finna“, segir hann, og að þetta sé bara nokkuð líkt því sem stendur í textanum.  Þar er líka rætt um stúss í garðinum og það er, segir Halldór „Alveg eins og helgin var síðast hjá okkur hjónunum“.   Þannig hefur líf þeirra gengið nokkuð eftir því sem segir í laginu enda  „Who could ask for more? eins og þar segir. „ Lífið er alltaf yndislegt og augnablikið eilíft“ ,segir Halldór.

 

Ritstjórn júní 13, 2014 14:34