Yfirgnæfandi meirihluti sextugra og eldri bólusettur

Um 109.000 manns voru í lok gærdagsins búnir að fá a.m.k. fyrri sprautuna af bóluefni gegn COVID-19 sem er um 37,5% af þeim hópi sem áætlað er að bólusetja hér á landi.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Þessi árangur uppfyllir markmið afléttingaráætlunar stjórnvalda og gott betur, þar sem gert er ráð fyrir að fyrri hluta maímánaðar verði hægt að taka skref til afléttingar ef a.m.k. 35% bólusetningarhópsins hefur fengið fyrri bólusetningarsprautuna. Heilbrigðisráðherra kynnti framvindu bólusetninga við COVID-19 á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Heilbrigðisráðherra kynnti tillögu stjórnvalda um afléttingu innanlandstakmarkana í áföngum 27. apríl síðastliðinn og er hún nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Áætlunin er í fjórum skrefum og tekur mið af framgangi bólusetningar en er jafnframt birt með fyrirvara um mat sóttvarnalæknis á aðstæðum og stöðu faraldursins á hverjum tíma.

Núgildandi reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar gildir til og með 5. maí nk. Sóttvarnalæknir hyggst senda tillögur sínar um framhald sóttvarnaaðgerða til heilbrigðisráðherra á næstu dögum með hliðsjón af framvindu faraldursins.

Búið er að bólusetja yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem eru 60 ára og eldri og hluta fólks með undirliggjandi sjúkdóma. Rétt er að taka fram að það getur tekið um tvær vikur fyrir bóluefnið að ná fullri virkni og sú vernd sem fyrri skammtur gefur fólki er því ekki að fullu komin fram hjá öllum þessum hópi.

Áætlað er að bólusett verði með 20.000 til 30.000 skömmtum í næstu viku, þ.e. 3.-7. maí næstkomandi.

Ritstjórn apríl 30, 2021 14:50