„Fögur fyrirheit“ um þjónustu við aldraða

Fyrri umræðu um þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um mótun stefnu fyrir aðgerðaáætlun í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030 lauk á Alþingi á mánudagskvöld og er nú gengin til velferðarnefndar þingsins til frekari úrvinnslu. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í lok umræðunnar að hún hefði sýnt hve mikilvægt þetta mál væri. Hann tók undir það sem fram hefði komið í umræðunni, að í tillögunni væru gefin „fögur fyrirheit“ um framtíðarheilbrigðisþjónustu við aldraða hér á landi. En þau fögru fyrirheit væru líka „óhjákvæmileg“.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra

„Ef okkur á að takast að bæta ekki bara stöðuna í heilbrigðiskerfinu og þjónusta fólkið í landinu heldur á öllum málefnasviðum sem snúa að þjónustu við fólk (…), að þá verðum við að forgangsraða. Nú er það þannig – því hér hefur verið komið inn á það hvernig við ætlum að fjármagna þennan pakka, þegar við getum verðlagt hann í aðgerðaáætluninni sem á eftir fylgir – að þá er það þannig að við viljum búa í velferðarþjóðfélagi: Sex af hverjum tíu krónum ríkisútgjalda fara í velferðarmál,“ sagði heilbrigðisráðherra. „Ég get alveg tekið undir hvert orð sem hér hefur verið sagt um það að við stöndum alltaf frammi fyrir því sem erum í stjórnmálum að þurfa að forgangsraða fjármunum. Það blasir við okkur. Þetta mál er mjög mikilvægt og ég fagna því þegar við ræðum um það hvernig við fjármögnum okkar þjónustu,“ bætti ráðherrann við.

Willum lýsti því að í framhaldinu yrði skipaður sameiginlegur vinnuhópur ráðuneyta heilbrigðis- og félagsmála, sem yrði falið að vinna samkvæmt stefnunni sem mörkuð er í þingsályktunartillögunni sem hér um ræðir. Í þessum vinnuhópi, sem mun hafa það hlutverk að semja aðgerðaáætlun á grunni stefnunnar um heilbrigðisþjónustu við aldraða fram til ársins 2030, muni fulltrúar Landssambands eldri borgara og margra annarra hagaðila eiga sæti.

Nýsköpun í heilbrigðistækni

Margir þingmenn tóku þátt í umræðunni og vöktu t.a.m. athygli á þætti nýsköpunar á sviði heilbrigðistækni, sem mikilvægt væri að væri tekin með í reikninginn við slíka stefnumótun, enda þyrftu nýjar hugmyndir að koma til ef brúa á þann fyrirsjáanlega mönnunarvanda í umönnunarþjónustu við aldraða sem við blasir að óbreyttu.

Að lokum tók ráðherra undir það sem einnig hafði skýrt komið fram í umræðunni um mikilvægi þess að búið væri vel að kjörum og starfsaðstæðum heilbrigðisstarfsfólks.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn mars 22, 2022 15:42