Er hann ekki svolítið líkur afa sínum?

Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri á Hvolsvelli og kona hans Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir eiga fjögur barnabörn og það fimmta er á leiðinni. Sjálf eiga þau fjögur uppkomin börn. Ísólfur Gylfi segir að menn fái alveg nýja sýn þegar þeir eignist börn, svo ekki sé talað um barnabörnin. „Ég er mikill barnakarl og það eru alger forréttindi að eignast barnabörn“, segir hann. „Það sem er svo skemmtilegt er, að barnabörnin eru miklu stoltari af afa og ömmu en börnin okkar af foreldrum sínum. Þetta þekkja örugglega margir. Við erum sífellt að velta fyrir okkur hverjum þau líkjast og hvaðan þau sækja hitt og þetta“.

Henni Þórunni Mettu finnst ekki leiðinlegt þegar afi kaupir handa henni ís

Henni Þórunni Mettu finnst ekki leiðinlegt þegar afi kaupir handa henni ís.

Lína langsokkur vinsælasta lagið

Af barnabörnunum fjórum búa tvær litlar stúlkur á Hvolsvelli og Ísólfur Gylfi segir frábært að hafa þær svona nálægt. „Afi kemur stundum í það sem þær kalla ör-heimsóknir, bara til að fá eitt knús og er svo farinn,“ segir hann. „Þær koma líka og gista, en þá er afi hrakinn úr rúmi svo þær geti kúrt uppí hjá ömmu. Eitt af því sem ég geri með þeim er að spila og syngja. Við spilum þá saman á gítar og fleiri hljóðfæri. Ég hef sagt að ég spili bara fyrir lítil börn og gamalmenni sem geti ekki flúið! En þetta er mikið fjör. Vinsælasta lagið núna er Lína langsokkur“, segir Ísólfur Gylfi ánægður með afastelpurnar.

Mynd af Ísólfi Gylfa til vinstri. Afastrákurinn Sturla er til hægri.

Mynd af Ísólfi Gylfa til vinstri. Afastrákurinn Sturla er til hægri.

Líkur afa sínum?

Hin barnabörnin tvö, búa á höfuðborgarsvæðinu og eini drengurinn í hópnum býr núna um stundarsakir í Kaliforníu, þar sem móðir hans og tengdadóttir Ísólfs Gylfa er í flugnámi, en fjölskyldan er væntanleg heim um mitt ár. Sá stutti sem heitir Sturla er eini strákurinn í barnabarnahópnum þykir ekki ósvipaður Ísólfi Gylfa þegar hann var lítill. „Það segja að minnsta kosti allir nema mamma hans“, segir hann og hlær. Ísólfur Gylfi og Steinunn eiga litla jörð þar sem þau rækta skóg og ala landnámshænur. Staðurinn er paradís fyrir barnabörnin.

„Bara smá áramóta brengja“

Ísólfur Gylfi segir að það sé svolítið öðruvísi að vera afi en pabbi. Þá sé ábyrgðin foreldranna og afi geti tæst svolítið í krökkunum og látið þau svo í hendur foreldranna. „Ég get endalaust dáðst að barnabörnunum mínum, hvað þau gera og hvað þau segja. Lítil þriggja ára afastelpa sem Þórunn Metta heitir sat á stól núna rétt um áramótin, lyfti upp annari rasskinnini sagði: „Bara smá áramóta-brengja“. Er þetta ekki dásamlegur húmor og hvert sækir blessað barnið þetta? Það er kannski hluti af ástinni þegar maður sér eitthvað í barnabörnunum sem minnir á mann sjálfan“.

 

Ritstjórn mars 4, 2016 09:56