La Bohemé í uppsetningu Sviðslistahópsins Óðs er áhrifamikil og falleg sýning. Þau nýta rýmið á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu á einstaklega hugvitsamlegan hátt og þessi nánd við áhorfendur og hin einfalda umgjörð undirstrika söguna og þannig að hún hittir beint í hjartastað. Ég þori að fullyrða að ekki var þurrt auga í salnum í lokaatriðinu.
Auðvitað munar miklu að textinn hefur verið þýddur og þótt ég hafi séð óperuna áður á stóru sviði með glæsilegum leiktjöldum, búningum og stórri hljómsveit í gryfju náði hún ekki að snerta mig á sama hátt. Hluti af því var auðvitað að þá var textinn á ítölsku. Nú skilar sér fyndnin og léttleikinn í fyrrihlutanum og dramatíkin í þeim seinni.
Listamennirnir sem mynda Óð eru líka einstaklega færir. Þeim tekst á undraverðan hátt að ná kjarnanum úr þeim óperuverkum sem þau kjósa að taka fyrir og færa þau áhorfendum á nýstárlegan og sérlega aðgengilegan hátt. Þau hafa líka margsýnt hversu leikin þau eru í að skila kímni og gamansemi til að mynda í Rakaranum í Sevilla og Don Pasquale. Í þessu verki ná þau að nýta alla breidd hæfileika sinna og skila glimrandi flottri sýningu.
Sólveig Sigurðardóttir er frábær í hlutverki Mímíar. Rödd hennar er sérlega blæbrigðarík og falleg og hún nær að túlka saumakonuna ungu á áhrifaríkan hátt. Hið sama má segja um Þórhall Auð Helgason en hann syngur Rudolfo. Áslákur Ingvarsson er Marcello og hann hefur einstaka sviðsnærveru. Það er þýðing á enska orðasambandinu „stage presence“ en sviðsnærvera sýnir sig í því að fólk hefur einhverja útgeislun sem dregur augu allra áhorfenda að þeim þegar þeir birtast á leiksviðinu. Áslákur er lipur í hreyfingum og hefur einhverja tilfinningu fyrir hvernig á að hreyfa sig á sviði þannig að það nái að heilla áhorfendur. Gunnlaugur Bjarnason í hlutverki Schaunards á þetta sameiginlegt með Ásláki og sýnir frábæra kómíska takta.
Bryndís Guðjónsdóttir er fyrirtaks Musetta og hefur mjög fallega rödd og það hefur Ragnar Pétur Jóhannsson líka. Hún er svo hljómmikil og áhrifarík að þegar hann syngur leggja allir við hlustir. Níels Thibaud Girerd og Karl Friðrik Hjaltason leysa einnig ákaflega vel af hendi sín verkefni í sýningunni og skapa létta stemningu.
Sævar Helgi Jóhannsson er tónlistarstjóri og honum og félögum hans í hljómsveitinni tekst að koma tónlist Puccinis vel til skila. Þótt venjulega séu útsetningar flóknari og sveitirnar stærri sem leika undir verður það hluti af nándinni og þessari einlægu dýpt sem þessi sýning hefur að hafa færri hljóðafæraleikara í mikilli nálægð við áhorfendur. Leikmyndin er einföld en Helga I. Stefánsdóttir sækir innblástur til Parísar og leikmyndahönnuðarins Adolf Hohenstein sem hannaði leikmyndina þegar La Bohemé var frumsýnd í fyrsta sinn. Hér er rýmið nýtt til hins ýtrasta og á mjög skemmtilegan hátt. Leikstjórinn Tómas Helgi Baldursson hefur greinilega góða rýmisskynjun og Bjartey Elín Hauksdóttir ljær honum ómetanlegt lið í að skapa hreyfingar og dansa sem stækka litla sviðið um mörg númer.
Í heild er þetta heillandi sýning og yndisleg upplifun og Sviðslistahópurinn Óður á miklar þakkir skildar fyrir færa okkur óperur á þennan einstaka og skemmtilega hátt sem þeim er einum lagið.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







