Ferðaskrifstofan Bændaferðir býður ekki upp á fjölskylduferðir á sólarströnd, heldur sérhæfðari ferðir um allan heim fyrir fólk sem er fimmtugt og eldra. Ferðirnar eru byggðar upp á hópferðum í rútum og fararstjóri er ævinlega íslenskur. Mikið er lagt upp úr samheldni hópsins og skemmtilegri stemmningu. Þetta segir Áslaug María Magnúsdóttir deildarstjóri hjá Bændaferðum. Ferðirnar eru í dag ekki hugsaðar sérstaklega fyrir bændur frekar en aðra, en nafnið má rekja til þess tíma þegar ferðaskrifstofan var stofnuð fyrir um 50 árum.
Óhagstætt að ferðast einn
„Við erum venjuleg ferðaskrifstofa í dag“, segir Áslaug María „og stór hluti af okkar kúnnahópi er fólk á aldrinum 60 -70 ára. Það er mikið innifalið í ferðunum og við erum alltaf með íslenskan fararstjóra sem þýðir allt á íslensku fyrir farþegana auk þess að segja frá því sem fyrir augu ber“. Hún segir að oftast séu það hjón sem ferðist saman, en einnig vinir, vinkonur eða systkini. Það er kostnaðarsamara að ferðast einn, þar sem það er dýrara að vera einn í herbergi en að deila því með öðrum. Margir fara þó hiklaust einir í bændaferð ef ferðafélagi finnst ekki og sjá ekki eftir því. „Hópurinn heldur saman og við leggjum áherslu á að enginn er einn í bændaferð“.
Siglt á Dóná á nóttunni
Hin dæmigerða Bændaferð er 7-10 daga ferð, þar sem flogið er til meginlands Evrópu og ekið um í rútu. Gist er á einu hóteli eða fleirum og farið í áhugaverðar skoðunarferðir. Áslaug María segir að ferðir þar sem boðið er upp á rútu í bland við fljótasiglingar á ám í Evrópu hafi verið sérstaklega vinsælar síðast liðin ár. Fólki finnst þetta þægilegar ferðir, það hefur sína eigin káetu og þjónustan um borð er fyrsta flokks. „Það er siglt á nóttunni en á daginn er skroppið í styttri skoðunarferðir“, segir hún. Hún segir að Bændaferðir skipuleggi líka ferðir fyrir sérhópa. „Sem dæmi um það hvað eldri borgarar eru orðnir vel tæknivæddir má nefna að í fyrra skipulögðum við ferð fyrir sérhóp með siglingu eftir Dóná. Við spurðum hvort þetta fólk sem allt var orðið áttrætt, vildi fá ferðagögn í venjulegum pósti eða netpósti og bjuggumst við að menn vildu frekar fá þetta í almenna póstinum, en það völdu allir að fá upplýsingarnar sendar í netpósti“, segir Áslaug María.
Haustið mesti annatíminn
Aðal annatíminn hjá Bændaferðum eru september og október. „Það er vinsælt að lengja sumarið og á þessum árstíma er ekki of heitt ytra og ekki eins mikil ös á vinsælum ferðamannastöðum eins og á aðal sumarleyfistímanum“, segir Áslaug María. Bændaferðir bjóða einnig upp á sérferðir á framandi slóðir eins og t.d. Suður-Afríku, Perú, Rússland, Kína og fleiri áhugaverða staði.