Blaðið U.S.News í Bandaríkjunum skrifar heilmikið um eftirlaunamál og þó allt sem þar birtist eigi ekki endilega við á Íslandi, er fróðlegt að lesa sumt af því. Blaðið birti til að mynda þessi boðorð fyrir eftirlaunafólk sem hér birtast þýdd og örlítið staðfærð. Höfundurinn er Tom Sightings en hann er höfundur bókar sem heitir „You Only Retire Once“, eða Þú ferð bara einu sinni á eftirlaun.
-
Sparaðu til elliáranna
Flest okkar hafa eftirlaun frá hinu opinbera til að lifa af í ellinni og sumir eiga peninga í lífeyrissjóðum. En ekkert er tryggt í veröldinni og það er hægt að breyta ellilífeyri og skerða lífeyrissjóði. Ef menn vilja áhyggjulaust ævikvöld eiga þeir að byrja að leggja fyrir snemma á lífsleiðinni. Annað hvort með því að borga í séreignasparnað eða eigin varasjóð. Mönnum er eindregið ráðlagt að standast þá freistingu að taka þessa peninga í húsakaup eða í að borga nýjan bíl.
-
Fjárfestu fyrir peningana
Bandarískir sérfræðingar ráðleggja þarlendum að safna þannig að þeir eigi tíu sinnum árslaunin sín, þegar þeir hætta á vinnumarkaði. Þeir segja að það sé ekki hægt einvörðungu með því að leggja fyrir, það þurfi líka að fjárfesta til að ávaxta peningana. En hér á Íslandi er það vissulega höfuðverkur, hvernig best er að ávaxta fé til langs tíma og ástæða til að fá aðstoð við að skoða það vel.
-
Ekki fara á eftirlaun of snemma
Það er misjafnt hversu snemma menn geta byrjað að taka lífeyrinn sem þeir hafa borgað í lífeyrissjóð á starfsævinni. Eins og staðan er núna hér á Íslandi geta margir byrjað að taka eftirlaun 65 ára, en eftirlaunaaldurinn er almennt miðaður við 67 ára. Ef menn fara á eftirlaun of snemma fá þeir lægri lífeyrisgreiðslur, en þeir myndu fá ef þeir seinka töku lífeyris. Ef menn eiga ekki varasjóð, er ástæða til að hugsa þetta mál mjög vel.
-
Minnkaðu við þig
Menn þurfa ekki lengur stórt hús yfir sig og fjölskylduna þegar komið er á eftirlaunaaldur. Menn þurfa yfirleitt ekki heldur tvo bíla á heimilið. Skoðaðu hvernig þú getur minnkað heimilisreksturinn og losað eignir, sérstaklega ef þú hefur ekki lifað eftir boðorðunum þremur hér á undan.
-
Borðaðu rétt
Þegar þú ert kominn á eftirlaun hefurðu meiri tíma til að hugsa um sjálfan þig, þannig að þú skalt gefa þér tíma til að elda hollan mat og tryggja að þú fáir góða næringu. Nokkuð sem þú vanræktir kannski á meðan þú varst á fullu við að vinna og koma upp börnunum.
-
Hreyfðu þig
Mátulega mikil hreyfing og létt, lengir lífið. Þannig getur þú lifað nógu lengi til að njóta góðs af eftirlaununum sem þú lagðir drög að á meðan þú varst á vinnumarkaðinum. Hreyfingin eykur líka vellíðan, bætir meltinguna, dregur úr verkjum og eykur orku.
-
Vertu í góðu sambandi við fjölskylduna
Börnin þín eru farin að heiman, en það þýðir ekki að þau séu horfin úr lífi þínu. Einmanaleiki er einn fylgifiskur þess að fara á eftirlaun, þannig að þú skalt passa uppá að vera í góðu sambandi við fjölskyldu og vini. Fólkið í fjölskyldunni er þínir elstu vinir og barnabörnin tengingin við framtíðina.
-
Reyndu að eignast nýja vini
Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að eldast að gamlir vinir falla frá eða flytja, og kannski flytur þú líka. Hvar sem þú býrð, reyndu að eignast nýja vini. Gott félagslegt net bætir bæði andlega og líkamlega heilsu þegar þú eldist.
-
Gerðu það sem þér þykir skemmtilegt
Margir verða einmana þegar þeir eru komnir á eftirlaun og sumum leiðist. Þegar þú ferð á eftirlaun er mikilvægt að taka upp þráðinn í áhugamálum sem þú hefur lítið getað sinnt á meðan þú varst að vinna. Ef þú átt ekki slík áhugamál, skaltu reyna að koma þér upp einhverju skemmtilegu til að gera. Það er hægt að taka þátt í félagsstarfi, fara í hlutastarf eða vinna sjálfboðastarf í þágu þeirra sem standa höllum fæti. Gerðu eitthvað sem fær þig til að hlakka til að fara á fætur á morgnana.
-
Þú skalt ekki girnast hlutskipti nágranna þíns
Það er brugðið upp myndum af hamingjusömu eftirlaunafólki í tímaritum, sjónvarpi eða á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Facebook. En hafðu í huga að þessar greinar eru sérstaklega valdar, myndirnar pússaðar til og á Facebook sýnir fólk sínar bestu hliðar. Eftirlaunaaldurinn hefur,eins og allur aldur, í för með sér bæði erfiðleika og vonbrigði íbland við ný tækifæri og skemmtilegar stundir. Aðrir hafa það ekki endilega betra en þú, sérstaklega ekki ef þú hefur náð að koma þér upp lífsstíl sem hentar þínum aðstæðum.