Veruleg kjarabót fyrir aldraða

 

Nokkrir þingmenn viku að kjörum eldri borgara í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi. Lifðu núna tók saman það sem þingmenn höfðu um málið að segja.

Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði:

Á síðasta ári náðist ágæt samstaða hér á Alþingi um verulega bætt kjör aldraðra. Bætur almannatrygginga hafa hækkað mikið á yfirstandandi ári og um næstu áramót munu greiðslur til ellilífeyrisþega frá Tryggingastofnun ná 300.000 kr. á mánuði. Ef við lítum aðeins til baka sjáum við að á árinu 2015 var þessi sama greiðsla 225.000 kr. Á föstu verðlagi er þetta 25% hækkun á einungis þremur árum.

Þetta er að sjálfsögðu veruleg kjarabót á skömmum tíma og hún byggir á árangri í efnahagsmálum en við vitum á sama tíma að enn er verk að vinna. Það sem ríkisstjórnin hefur sett í forgang nú er að lyfta skerðingarþakinu vegna atvinnutekna á þessu kjörtímabili.

Við þurfum að efla uppbyggingu á þjónustu við aldraða sem hafa lagt mikið til þess góða árangurs sem íslenskt samfélag hefur náð á liðnum áratugum. Við þurfum að efla þjónustu við kynslóðina sem lagði grunninn að því sem við tökum í dag sem sjálfsögðum hlut, samgöngu-, mennta- og heilbrigðiskerfi, svo eitthvað sé nefnt.

Við þurfum að gera gangskör að uppbyggingu hjúkrunarheimila. Slík fjárfesting mun að endingu ekki eingöngu gagnast öldruðum, heldur einnig minnka álag á sjúkrastofnanir og greiða götu annarra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu á Íslandi að halda. Góð heilbrigðisþjónusta og jafnt aðgengi allra landsmanna er leiðarljós þessarar ríkisstjórnar.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði:

Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217.000 kr. á mánuði. Lægstu laun á Íslandi standa enn í 280.000 kr. Þau duga ekki til framfærslu. Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20.000 kr. því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. „Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sagði:

Stöðu aldraða þarf að bæta áfram og nýta þá vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Þau sem ruddu brautina fyrir okkur sem yngri erum eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Við Framsóknarmenn viljum að þeim sé gert auðveldara að taka virkan þátt í samfélaginu með því að taka strax upp sveigjanleg starfslok og hækka frítekjumörk.

Logi Einarsson.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði:

Þá er ömurlegt að vilji almennings um uppbyggingu á opinberu heilbrigðiskerfi skuli fullkomlega hunsaður. Sú aukning sem þó er boðuð mun lenda í vasa einkaaðila og grafa enn frekar undan opinbera heilbrigðiskerfinu.

Hæstv. forsætisráðherra talar um mikilvægi öldrunarþjónustu. Veit hann virkilega ekki að hún er vanfjármögnuð um marga milljarða? Sá kostnaður er m.a. borinn uppi af nokkrum sveitarfélögum sem þurfa að borga hallann með útsvarstekjum sem ætlaðar voru í aðra þjónustu. Það rýrir samkeppnishæfni þeirra og er óboðlegt.

Hæstv. forsætisráðherra bítur þó líklega höfuðið af skömminni þegar hann fullyrðir í ræðunni að það skipti engu máli að skattbyrði hækki mest á lægstu launin, almenn velsæld hafi nefnilega aukist svo mikið. Skítt með það þótt bilið milli þeirra hæst- og lægstlaunuðu breikki. Það væri kannski ágætishugmynd að hæstv. forsætisráðherra bankaði upp á hjá nokkrum þúsundum barna sem búa við fátækt, fólki sem hrekst um á ótryggum íbúðamarkaði, öryrkjum sem lifa margir á hungurlús eða öldruðum sem búa við krappa stöðu. Hann gæti kannski hjálpað þeim að finna, og tína upp, brauðmolana sem falla af veisluborðinu.

Lilja Alfreðsdóttir.

Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins sagði:

Góðir landsmenn. Síðasta ríkisstjórn jók greiðslur til eldri borgara um 24 milljarða frá árinu 2016–2017. Hins vegar var ákveðinn hópur eldri borgara fyrir verulegum skerðingum þegar frítekjumarkið var lækkað, sem þýddi í mörgum tilfellum umtalsverða lækkun á ráðstöfunartekjum. Þetta er einmitt fólkið sem er enn á vinnumarkaðnum og langar að vinna áfram. Þessi hópur upplifir ekki aðeins verri kjör heldur að búið sé að setja ákveðnar skorður á hann, að skilaboð samfélagsins séu að eldri borgarar eigi að yfirgefa vinnumarkaðinn.

Þetta tel ég kolröng skilaboð. Því lífaldur þjóðarinnar fer ört hækkandi. Ég segi: Það þarf að hækka frítekjumarkið aftur. Það þarf að gera það mun hraðar en nú er gert ráð fyrir.

Eldri borgarar eiga inni hjá okkur að við bregðumst hratt og örugglega við. Við í Framsóknarflokknum erum svo sannarlega tilbúin til að vinna að leiðum svo að það geti orðið að veruleika. Það vill nú þannig til, og beini ég þessu til ríkisstjórnarinnar, að þessi hópur eldri borgara hefur enga þolinmæði til að bíða eftir frekari aðgerðum.

 

Ritstjórn september 14, 2017 11:12