Dansað í gegnum lífið

Þau byrjuðu snemma að dansa og fóru að dansa saman í Kennaraskólanum á sjötta áratugnum. Þau hafa dansað saman síðan og eru enn að, rúmri hálfri öld síðar. Þetta eru hjónin og kennararnir Jón Freyr Þórarinsson og Matthildur Guðmundsdóttir. Þau tóku þriðjudagskvöldin alltaf frá fyrir dansinn og gera enn, því þau sækja danstíma á þriðjudagskvöldum hjá Jóhanni Erni Ólafssyni danskennara. „Við teljum að þetta hafi verið gott fyrir hjónabandið“ sagði Jón Freyr þegar blaðamaður Lifðu núna leit inn til þeirra hjóna á dögunum. „Þó við værum örþreytt vildum við ekki sleppa dansinum“, sagði Matthildur, „og vorum alltaf minna þreytt þegar við komum tilbaka“.

Dönsuðu vikivaka í frímínútum

Jón Freyr var sendur til Rigmor Hansen í dans, þegar hann var sex ára. Átta ára dansaði hann á skólaskemmtun í Laugarnesskóla, þar sem hann átti eftir að verða skólastjóri mörgum árum síðar. Áfram hélt hann í dansinum í Laugarnesskólanum hjá Guðrúnu Nilsen kennara þar. Matthildur sem er frá Látrum í Aðalvík, kynntist dansinum 7 ára í barnaskólanum, þar sem kennarinn lét börnin dansa í frímínútum ef veðrið var leiðinlegt. Hann kenndi þeim vikivaka. Þau kynntust svo í dansinum í Kennaraskólanum og voru í mörg ár á kafi í starfi Þjóðdansafélagsins.

Heldur uppi merki afa og ömmu

Dansinn gengur greinilega í erfðir, því þau eiga rúmlega tvítugan dótturson Freyþór Össurarson sem heldur uppi merki afa síns og ömmu í dansinum. Hann dansar í Bretlandi þar sem hann býr. Dansfélagi hans er bresk stúlka og þau eru Bretlandsmeistarar í tíu dansa keppni. Jón Freyr og Matthildur eru á leiðinni til Blackpool í næsta mánuði til að horfa á hann keppa. Þegar hann keppti í fyrra í Hollandi, leigðu þau sér bíl með GPS tæki og óku til Assen, þar sem keppnin fór fram. Þau hafa hvatt hann í dansinum og á meðan hann var hér heima, saumaði Matthildur handa honum búninga. „Hann dansar enn í skyrtu frá ömmu sinni“, segir Jón Freyr.

Kjólarnir hentuðu í að sýna dans

Jón Freyr og Matthildur kepptu sjálf í dansi á árum áður og urðu Íslandsmeistarar í dansi fimmtugra og eldri í tvígang. Unnu bæði í „ballroom“ dansi og „latin“. Eftir að þau hættu að keppa í dansi, fóru þau að sýna dans ásamt vinafólki og þegar mest var voru pörin átta sem sýndu. „Við komum okkur upp kjólum til að keppa í og síðan var upplagt að nota þá áfram til að sýna dans“ segir Matthildur. Þau hjónin hafa ekki látið deigan síga í dansinum og stunda líka líkamsrækt þrisvar í viku í World Class. „ Það er mikilvægt fyrir heilsuna að dansa“, segir Jón Freyr,“ eins og raunar öll hreyfing“.

Skemmtileg vinna

Jón Freyr var kennari og skólastjóri í Laugarnesskóla og Matthildur kenndi einnig þar, en líka í Ísaksskóla þar sem hún var í 19 ár. Þau voru lengi með danskennslu fyrir 12 ára börn í Laugarnesskólanum. Matthildur starfaði síðan sem kennsluráðgjafi hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, þar til hún lét af störfum. Þetta voru skemmtileg störf, en þau ákváðu samt að hætta fastri vinnu, þegar þau voru 65 og 66 ára til að geta haft meiri tíma til að ferðast um heiminn og sinna fjölmörgum áhugamálum.

Dans skólabarna og eldri borgara

Þau hjón hafa ótal áhugamál, taka þátt í félagsstörfum og hafa einnig ferðast mikið eftir að þau fóru á eftirlaun. Þau hafa farið til Víetnam, Kína, Rússlands og siglt með skemmtiferðaskipum, meðal annars um Miðjarðarhafið, en draumastaðurinnn er á Látrum í Aðalvík, þar sem þau eiga sumarbústað. Þar eru þau stóran hluta sumarsins. Matthildur safnar fróðleik um sögu staðarins og Jón Freyr tekur ljósmyndir. Á veturna sjá þau um dans hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík. „Við byrjuðum á að skipuleggja dans fyrir grunnskólabörnin og endum á að skipuleggja dans fyrir eldri borgara“, segir Matthildur.

Vilja ekki hætta í dansinum

Þegar við vorum hætt að vinna, fannst okkur mikilvægt að gera eitthvað skemmtilegt saman og sáum síðdegisdans auglýstan hjá Félagi eldri borgara“, segir Jón Freyr. Þar með var teningunum kastað og þau hafa skipulagt bæði danskennslu og dansskemmtanir hjá félaginu. Það eru 60 manns í danskennslu á mánudögum, en þar kennir Lizý Steinsdóttir. „Hún er svo frábær að fólk vill helst ekki hætta hjá henni“, segir Matthildur. Annan hvorn fimmtudag er síðdegisdans í Stangarhyl 4 þar sem aðsetur Félags eldri borgara í Reykjavík er. Tónlistin er leikin af hljómdiskum og Matthildur og Jón Freyr sjá um fjörið. Á sunnudagskvöldum eru svo haldin böll, þar sem hljómsveit spilar fyrir dansi. Þangað fara þau stundum og þar koma yfirleitt milli 80 og 100 manns. Dansinn heldur áfram að gegna stóru hlutverki í lífi þeirra Jóns Freys og Matthildar, sem hafa dansað saman frá því þau voru kornungir námsmenn í Kennaraskólanum.  Hérna fyrir neðan eru svipmyndir úr lífi þeirra, bæði úr dansinum, frá Látrum í Aðalvík og frá ferðalögum þeirra á síðari árum.

 

Ritstjórn október 18, 2014 10:14