Sennilega upplifa margar konur það með árunum, að þeim líður ekki jafn vel og áður í hælaháu skónum sínum. Flottu hælaskórnir bíða kannski mánuðum saman inni í skáp og fá lítið að spóka sig úti með eiganda sínum. Engu að síður er bæði flott og sparilegt að vera á háum hælum. Við fengum tvær konur til að ræða við okkur um háa hæla og hversu lengi fram eftir aldri konur geta gengið á háum hælum. Önnur þeirra er Guðbjörg Þorsteinsdóttir fótaaðgerðafræðingur en hin Ragnheiður Hrafnkelsdóttir meðeigandi skóbúðarinnar Bossanova í Kringlunni og Smáralind, en hún hefur selt Íslendingum skó í um 30 ár.
Fer alltaf á hæla
„Fullorðið fólk getur ekki verið mikið á hælum, en það er mismunandi, sumir geta verið á hælum til áttræðs, en það er kannski ekki mikið um það. Svo eru sumir sem geta aldrei verið á hælum og hafa kannski aldrei getað það. En flestir eru á einhverjum hælum. Sumar konur hafa gengið á háum hælum alla tíð og geta varla hætt því, eru orðnar vanar þessu. Ég veit um nokkrar konur sem verða alltaf að vera á háum hælum og hafa verið það síðan þær voru ungar “, segir Guðbjörg. Sjálf er hún 76 ára og gengur enn á háum hælum. „Ef ég er að fara eitthvað fer ég alltaf á hæla“, segir hún, „kannski 10-12 sentimetra“. Hún segir að fylltir hælar séu stöðugri. En ef konur séu slæmar í baki sé kannski ekki ráðlegt að vera á háum hælum. „Annars er til svo mikið af hælum og sumir eru breiðir og fínir“.
Skórnir þurfa að vera vel hannaðir
„Það er mjög mismunandi hversu lengi konur geta gengið á háum hælum“, segir Ragnheiður. En það er grundvallaratriði að skórnir séu góðir, vel hannaðir og fótvænir. Ef jafnvægisskynið er hins vegar eitthvað farið að gefa sig er ekki ráðlegt að ganga á háum hælum“, segir hún, en bætir við að ef skórnir séu góðir með hæfilega háum hælum, sé hægt að ganga á hælum býsna lengi. Hún segir ekki hægt að gefa neina eina uppskrift af því hvað séu góðir skór, en sum fyrirtæki vandi sig mikið og framleiði bæði fallega og þægilega skó. En það þurfi hver að fylgja sínu fótlagi og flestir fætur breikki með aldrinum. „Það eru nokkur fyrirtæki sem við verslum við sem hafa sérstaklega á stefnuskrá sinni að hanna þægilega skó. Við höfum sóst eftir skóm frá þessum fyrirtækjum þar sem við skynjum mikilvægi þess að hafa vandaða og fótvæna skó á boðstólum, en að sjálfsögðu leggjum við jafnframt áherslu á flotta hönnun og tísku. Þetta þarf einfaldlega að fara saman“. Ragnheiður bendir á að tískan hafi mikil og víðtæk áhrif á alla hönnun, jafnvel fyrirtæki sem framleiða svokallaða heilsuskó og sjúkraskó leggi sig að einhverju leyti eftir nýjum tískustraumum. Hún tekur þó fram að slíkir skór séu ekki til sölu í Bossanova verslununum.
Bæði þægilegir og hælaháir?
Ragnheiður segir mikilvægt að hælarnir á hælaháum skóm hafi góðan gangflöt og séu ekki of mjóir. Nú sé tískan til dæmis þannig að hælar séu oft breiðir og því tiltölulega gott að ganga á þeim. Tískan fari upp og niður og stundum sé í tísku að vera með fyllta hæla, en það hafi verið meira í sumarskóm að undanförnu, en minna í spariskóm. Hún hefur efasemdir um að það finnist skór sem séu mjög þægilegir og mjög hælaháir. „En ef sólinn er þykkur og fylltur, þá vegur það uppá móti háa hælnum og hallinn í skónum verður ekki jafn mikill“.
Þarf að segja tábergspúða í skóna
„Ef hallinn á fætinum verður of mikill, frá tá og upp í hæl, verður óeðlilega mikið álag á fótinn og margir fá tábergssig“, segir Ragnheiður. Hennar niðurstaða er samt sem áður sú, að ef menn séu með vel hannaða skó sem gott jafnvægi er í, sé allt í lagi að vera á hælum þó árunum hafi fjölgað. En það sé aldrei gott að hafa of mikinn halla í skónum. Guðbjörg sem er fótaaðgerðafræðingur að mennt hefur hins vegar ráð við tábergssiginu. Það sé hægt að kaupa tábergspúða og setja inn í skóna, en hún mælir með því að konur fái leiðbeiningar hjá fótaðagerðafræðingum áður en þær fjárfesta í slíkum púðum.