Ódýrar óperusýningar frá Metropolitan í Kringlubíói

SAM bíóin hafa um átta ára skeið boðið uppá óperubíó yfir veturinn í Kringlubíói. Þar eru sýndar 10-12 óperur á vetri.  Þær eru frá Metrópólitan óperunni og miðinn kostar ekki nema 2.900 krónur. Þetta eru ótrúlega góðar sýningar, að mati fulltrúa Lifðu núna.  Með því að horfa á óperuna á tjaldi er hún nær, en ef setið væri í óperunni sjálfri í New York. Í hléinu er svo skyggnst á bak við tjöldin í óperunni og talað við söngvara og aðra aðstandendur sýningarinnar og það sýnt í bíóinu.  Á morgun, laugardaginn 22.október verður óperan Don Giovanni eftir Mozart sýnd í Kringlubíói.

Simon Keenlyside

Simon Keenlyside

Vel sóttar sýningar

Hörður Valgarðsson hjá SAM bíóunum segir að yfirleitt sé hver ópera sýnd tvisvar, þó frá því hafi verið gerð einstaka undantekning.   Á laugardögum er bein útsending frá Metropolitan, en á miðvikudagskvöldum er sýningin endurtekin.  Hann segir hægt að kaupa sér passa á allar sýningar vetrarins í einu og þá kosti 2.500 krónur á sýninguna. „Þessar sýningar hafa alltaf verið vel sóttar, það er ákveðinn hópur sem hefur gaman af þeim“, segir Hörður.

Taka nokkrar klukkustundir

Óperurnar sem byrja yfirleitt á milli klukkan fimm og sex síðdegis, eru oft langar. Taka 3-4 klukkustundir í flutningi. „Óperan um Tristan og Isold var óvenju löng, rúmar fimm klukkustundir með tveimur hléum“, segir Hörður. Hann segir að stundum fari fólk á Kringlukrána og fái sér að borða á undan sýningu.  Óperan Don Giovanni sem verður sýnd á morgun, tekur 3 klukkustundir og 22 mínútur í flutningi og er með einu hléi.

Frábærir söngvarar

Hibla Gerzmava

Hibla Gerzmava

Það er breski söngvarinn Simon Keenlyside sem fer með hlutverk Don Giovannis í sýningunni. Hann á að baki langar söngferil sem hófst með því að hann söng í Brúðkaupi Fígarós í Hamborgaróperunni. Síðan hefur hann sungið í fjölda ópera og fengið margskonar viðurkenningar fyrir söng sinn.

Hlutverk Donnu Önnu syngur rússneska söngkonan  Hibla Gerzmava. Hún hefur einkum látið að sér kveða á þessari öld og söng í fyrsta skipti í Metropolitan óperunni árið 2010, í óperunni Ævintýri Hoffmans.  Þá söng hún við kveðjuathöfnina á vetrarólympíuleikunum í Sochi .

Malin Byström

Malin Byström

Malin Byström er rúmlega fertug sænsk sópransöngkona og hún fer með hlutverk Donnu Elviru í sýningunni. Hún hefur sungið mörg aðalhlutverk í óperum víða um heim. Hún stundaði nám í Óperuháskólanum í Stokkhólmi og hefur verið líkt við söngdívuna Kiri Te Kanawa.

 

Ritstjórn október 21, 2016 11:45