Líta má á afa og ömmur sem öryggisnet fyrir fjölskyldur sínar. Stundirnar sem þau verja til barnagæslu og annars konar aðstoðar við afkomendur sína eru mikilvægar fyrir fjölskyldurnar og samfélagið allt. Þetta er niðurstaða spurningakönnunar um framlag eldri borgara til samfélagsins sem gerð var í sumar.
Fólk var spurt um ýmiss atriði svo sem heilsufar sem 79 prósent mat gott eða mjög gott.
Fólk var spurt um aðstoð við afkomendur með vinnuframlagi og kváðust tæplega 42% þeirra hafa veitt slíka aðstoð eftir að 67 ára aldri var náð. Karlar höfðu frekar sinnt slíku en konur. Heldur dró úr aðstoð við afkomendur og aðra eftir því sem þátttakendur voru eldri.
Margt fleira áhugavert kemur fram í könnuninni til dæmis var spurt um fjárhagsstuðning fólks við afkomendur sína. Tæplega 59% höfðu lánað eða gefið peninga og var það algengara meðal karla en kvenna. Um 40% höfðu keypt fatnað, húsbúnað, heimilistæki og aðrar nauðsynjar fyrir afkomendur sína og um 30% styrkt þá með framlagi til tómstundastarfs eða námskeiða. Alls höfðu 15% lánað veð í húsnæði sínu.
Ein af spurningunum sem lagðar voru fyrir þátttakendur varðaði húsaskjól, það er hvort þeir hefðu hýst afkomendur sína eða aðra í lengri eða skemmri tíma. Ríflega 45% höfðu hýst fólk um skemmri tíma og 17% um lengri tíma.
Meðalaldur þátttakendar var 74,4 ár og svipaður fjöldi karla og kvenna tók þátt í könnuninni. Þátttakendur voru 1200 á aldrinum 67-85 ára og svöruðu 59 prósent þeirra. Gallup sá um framkvæmdina og var gagna aflað með því að hringja í fólk. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar var Ingibjörg H. Harðardóttir lektor við HÍ en með henni vann að rannsókninni Amalía Björnsdóttir prófessor við sama skóla.