Er það frekja að vilja lifa á eftirlaununum?

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar

Það heyrist í umræðunni að eftirlaunafólk á Íslandi hafi fengið gríðarlegar hækkanir á undanförnum árum.  Kaupmáttur eldra fólks hafi aukist meira en annarra. Það er gefið í skyn að eldra fólk sé búið að fá slíkar kjarabætur að nú sé mál að linni. Það hefur meira að segja heyrst, þó ekki opinberlega, að eldra fólk kunni ekki að meta það sem það fær og sé með frekju.

Þetta minnir mig á umræður sem ég hef hlustað á um tölfræði og prósentuhækkanir. Það er til dæmis mikil hækkun ef bílastæðagjöld hækka úr 300 krónum í 600 krónur, það er 100% hækkun. En munar mikið um hana í buddunni hjá venjulegu fólki? Ef einhver á þrjú epli og fær tvö til viðbótar þá er það ríflega 66 % hækkun.  Ef annar sem á 10 epli fær hins vegar tvö epli til viðbótar þá er það einungis 20 % hækkun. En hvor hefur í raun fengið meira? Og eru þetta sanngjörn skipti?  Þannig virkar prósentureikningur og það má, með því að velja tiltekna tímapunkta, finna út að framlög ríkisins til ellilífeyris hafi aukist gríðarlega.

Við afgreiðslu fjárlaga er rætt um þá fjármuni sem renna þar til eldra fólks og upphæðirnar hafa hækkað á síðustu árum. Það er vissulega rétt, margir fengu býsna góða hækkun þegar nýju almannatryggingalögin tóku gildi fyrir tveimur árum þó ekki hafi þær gilt aftur í tímann eins og nú virðist orðið alsiða, einkum hjá þeim sem hæst hafa launin og fá mestar kauphækkanir. Þegar rætt var um alla þá milljarða sem greiðslur almannatrygginga til eldra fólks hefðu hækkað um þegar lögunum var breytt, var hins vegar hvergi á það minnst að mikil fjölgun er að eiga sér stað í hópi eldri borgara í landinu og heldur ekki hitt, að ríkið fær þessar fjárveitingar sínar að hluta tilbaka, því eldra fólk greiðir beina og óbeina skatta eins og aðrir í landinu.

Sú háværa krafa var uppi, þegar nýju almannatryggingalögin voru samþykkt að lægstu eftirlaun, sem eru kölluð ellilífeyrir, fylgdu lágmarkslaunum í landinu og yrðu 300 þúsund krónur á mánuði. Það var brugðist við þeirri kröfu með því að hækka heimilisuppbót hjá þeim sem eru einir, þannig að þeir fengju ekki lægri upphæð en 300.000 krónur. Sá galli fylgdi hins vegar gjöf Njarðar að þarna var einungis um að ræða hluta þeirra sem fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Aðrir sátu eftir með 240 þúsund krónur á mánuði. Samt er því iðulega haldið fram í umræðunni að allir eldri borgarar fái nú 300.000 krónur á mánuði, sem er ekki rétt.

Ekki eru allir á eitt sáttir um hvernig ber að reikna tekjur eldra fólksins í landinu. Það væri til að æra óstöðugan að kafa ofan í allar þær reiknikúnstir.  Að mati Landssambands eldri borgra, lifa um 30% hópsins á launum undir fátæktarmörkum. Þarna er stuðst við algengt viðmið í alþjóðlegum samanburði. Fyrst eru fengin meðaltalslaun í landinu sem eru rúmlega 700 þúsund krónur á mánuði hér á landi. Síðan er miðgildi þessara launa fundið, en það er um 600 þúsund krónur. Þeir sem hafa einungis um 50% af því teljast undir fátæktarmörkum. Landssambandið telur einnig að um 80% þeirra sem fá tekjur frá TR lifi á launum sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins, eða undir rúmlega 330 þúsund krónum á mánuði.

Þetta eru ekki boðleg kjör, hvað svo sem líður öllum prósentuhækkunum á launum eldri borgara. En sem betur fer er nokkur hópur eldra fólks sem hefur það gott og fær þar af leiðandi ekki tekjur frá TR.  Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því fólki, en það er lágmarkskrafa að lægstu eftirlaun fylgi lágmarkslaunum í landinu.  Þau eru núna 300.000 krónur og verkalýðshreyfingin hefur krafist þess að þau verði hækkuð  í rúmlega 400.000 krónur. Það er nefnilega fólk í  landinu, sem telur það eðlilega kröfu að geta lifað af laununum sínum. Er einhver óssammála því?  Þeir virðast vera allnokkrir sem þykir það beinlínis ósvífið að reisa slíka kröfu, en hafa látið sér í léttu rúmi liggja að stjórnmálamenn og ríkisforstjórar hafi fengið ríflegar kauphækkanir og það jafnvel nokkra mánuði aftur í tímann. Eftirákauphækkanir í svona miklum mæli, eru eftir því sem ég best veit, nýlunda í íslenskum kjarasamningum.  Meðan þessu fer fram, er ekki við því að búast að stjórnmálamenn á Alþingi og í ríkisstjórn nái eyrum láglaunafólks, með kröfu um að þeir lægst launuðu stefni ekki stöðugleikanum í þjóðfélaginu í voða.  Sjálfir hófu þeir „höfrungahlaup“ sem ekki sér fyrir endann á.

 

Erna Indriðadóttir er varaformaður Félags eldri borgara í Reykjavík og er í varastjórn Landssambands eldri borgara

Erna Indriðadóttir desember 10, 2018 07:12