Við hverfum í borgarrykið

Þórunn talar fyrir fullu húsi á fundi í Háskólabíói fyrir síðustu alþingiskosningar

Þórunn Sveinbjörnsdóttir er skógarbóndi, jafnréttissinni og baráttukona fram í fingurgóma. Hún lét nýlega af formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík og var að hugsa um að fara að taka því „rólega“ en það stóð stutt því hún var beðin um að taka að sér formennsku í Landssambandi eldri borgara.  „Þegar ég stóð frammi fyrir þeirri áskorun fór ég að velta fyrir mér allri þeirri þekkingu sem ég hef aflað mér á málefnum eldra fólks á undanförnum árum og áratugum. Ég var svo lánsöm að afar mínir og ömmur urðu langlíft fólk og í gegnum þau upplifði ég hvernig fólk breytist þegar aldurinn færist yfir og líka hvernig þarfirnar verða aðrar. Ég þekki líka málefni lífeyrissjóða og hjúkrunarheimila út og inn. Ég var í velferðarhópi ASÍ í mörg ár, var formaður Öldrunarráðs í fjögur ár og ég var formaður FEB í fjögur ár. Ég hef mjög gaman af félagsmálum sem er náttúrulega algjör bilun,“ segir Þórunn og brosir en bætir við ögn alvarlegri „þegar ég vó þetta allt saman fannst mér eiginlega synd að nýta ekki alla þessa reynslu svolítið betur.“

Skrápurinn hefur þykknað

Áður en Þórunn fór að vinna fyrir félög eldri borgara var hún formaður Starfsmannafélagsins Sóknar og eftir að Sókn og fleiri félög  sameinuðust við verkamannafélagið Dagsbrún sem fékk nafnið Efling varð Þórunn varaformaður þess félags. Hún sat í miðstjórn ASÍ og í ótal nefndum fyrir sambandið. Auk þess sem hún tók sæti á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn sáluga í nokkra mánuði í lok níunda áratugar síðustu aldar.  Það hefur því oft blásið hressilega um Þórunni og eins og flestir sem standa í eldlínunni hefur hún orðið fyrir gagnrýni. „Skrápurinn hefur þykknað í gegnum árin. Gagnrýnin hefur að vissu leyti breyst með tilkomu samfélagsmiðla. Hún er orðin óvægnari á margan hátt. Þegar fólk er pirrað og reitt  yfir einhverju er það vegna þess að það hefur laskast á lífsleiðinni. Margir eru bitrir og reiðir eftir að hafa misst mikið í hruninu og þessu fólki líður illa. Bræður okkar og systur í samfélaginu eiga oft um sárt að binda og við verðum að sýna því skilning. Ég á minn besta vin, sem er maðurinn minn, sem ég tala mikið við auk þess á ég nokkra nána vini sem ég ræði við þegar óánægjuraddirnar verða of háværar. Mér finnst raunar að ég hafi aldrei orðið fyrir svo harkalegri gagnrýni að ég hafi fundið fyrir því. Ég hef alltaf reynt að gera mitt besta og koma heiðarlega fram og þá er ekki svo auðvelt að knésetja mann. Ef maður er að burðast með skít í pokanum þá er það hvorki gott fyrir mann sjálfan eða þá sem maður er að vinna fyrir. Ég get sagt það beint frá hjartanu að ég hef vanið mig á að vera alltaf eins heiðarleg og mér er nokkur kostur. Það er mitt mottó í lífinu auk þess að gera alltaf eins vel og ég get hverju sinni.“

Í pólitík

Þórunn með Degi B Eggertssyni borgarstjóra.

Eins og kom fram hér að framan fór Þórunn að skipta sér af pólitík en hún smitaðist ekki af bakteríunni og sóttist ekki eftir frekari frama í stjórnmálum. „Ég tók sæti á lista Alþýðuflokksins fyrir kosningarnar 1995 og var í fjórða sæti. Ég átti því ekki von á því að setjast á þing, því flokkurinn fékk einn mann kjörinn hér í Reykjavík. En málin æxluðust á aðra lund, Ásta B. Þorsteinsdóttir þingkona flokksins lést og hvorki varamaður hennar eða sá sem var í þriðja sætinu gátu sest á þing. Það var því hringt í mig og ég tók sæti Ástu og sat á þingi í nokkra mánuði árið 1998.  Mér fannst þetta pólitíska vafstur aldrei mjög skemmtilegt. Það er tímafrekt starf og mér fannst ekki mikil skilvirkni í þingstörfunum. Ég held að það hafi svo sem ekki breyst á undanförnum árum. Mér finnst stundum að þegar ég les kosningaloforð flokkanna fyrir kosningar og svo aftur að fjórum árum liðnum til að skoða hvað hafi verið efnt og hvað hafi komist í gegn að það séu svona eitt eða tvö mál af tíu sem komast eitthvað áleiðis. Þá finnst mér ég nú gera meira gagn í því sem ég er að sinna.“ Þórunn segir þó að henni finnist vanta fulltrúa eldra fólks á Alþingi. „Það væri vel þess virði að einhverjir úr okkar hópi gæfu sig í þetta. Það er margt mjög öflugt fólk innan okkar raða sem hefur mikla reynslu á öllum sviðum og gæti talað okkar máli þar.“

Meingölluð lög

Þórunn Sveinbjörnsdóttir var valin formaður Landsambands  eldri borgara í lok síðasta mánaðar. Hún segir verkefnin framundan óþrjótandi. Eitt af því fyrsta sem á að bæta er símaþjónustan hjá sambandinu en margir hafa kvartað yfir henni og það verður lagað á næstu vikum og hún efld og bætt.  „Stóra verkefnið er hinsvegar að fá í gegn breytingar á lögum um almannatryggingar sem samþykkt voru seint á síðasta ári. Í lögunum eru margir meinlegir gallar sem þarf að laga. Það þarf að breyta frítekjumarkinu. Það pirrar fólk alveg óskaplega að vera ofurskattað bara fyrir það eitt að ná ákveðnum aldri. Við mótmælum því harðlega að við séum á síðasta söludegi.  Við munum fá sérfræðinga til að fara ofan í það og fá úr því skorið hvað sé rétt eða rangt ef stjórnvöld leiðrétta þetta ekki. Stjórnvöld hafa lofað að frítekjumarkið hækki í áföngum, úr 25 þúsund krónum í 50 þúsund um næstu áramót og svo í áföngum uns það verður orðið 100 þúsund krónur.  En fólk vill að þetta gangi miklu hraðar fyrir sig.“

Þórunn var sæmd fálkaorðunni árið 2015. Hér er hún á Bessastöðum ásamt eiginmanni og syni

Atvinnumálin eru Þórunni hugleikin. Hún segir að á meðan hún var formaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík hafi verið farið í átak sem gekk út á að finna fyrirtæki sem vildu ráða eldra fólk til starfa. Töluvert mörg fyrirtæki gáfu sig fram og nokkur réðu fólk í hlutastörf. „Við vildum eyða þeirri mýtu að við séum ekki velkomin á vinnumarkaði. Margir hafa heilsu og löngun til að vinna lengur en til 67 ára aldurs eða 70 ára. Það eru ekki allir sem vilja vera í fullri vinnu, margir vilja minnka við sig trappa sig niður og það þarf að gera fólki það mögulegt. Ég velti því oft fyrir mér afhverju þessar hömlur séu á eldra fólki. Nær allar þjóðir í nágrenni við okkur hafa afnumið þessar aldursreglur á vinnumarkaði. Það hrörnar enginn á einni nóttu við það eitt að eiga afmælisdag.“  Þórunn segir mörg önnur mál á borði Landssambandsins. Hún nefnir neytendamálin og segir að þar þurfi vitundarvakningu.  „Við höfum verið svikin um að verð á matvöru hafi lækkað í kjölfar styrkingar gengisins. Það er er ekki fyrr en með tilkomu Costco sem við sjáum vöruverð hreyfast í búðunum.“

Sjóðurinn hefur verið misnotaður

Svo eru það heilbrigðismálin. „Ég var nýlega að hlusta á erindi um Framkvæmdasjóð aldraðra og hvernig hann hefur verið misnotaður á undanförnum árum. Við munum sækja fast að stjórnvöldum um að þessari misnotkun linni. Það stendur í lögunum að það eigi að nota sjóðinn til uppbyggingar hjúkrunarheimila en peningarnir hafa farið í eitthvað allt annað. Á fólk að sætta sig við að greiða sérstakan nefskatt og svo veit það ekkert hvert peningarnir fara. Þetta sama fólk er kannski með fárveika foreldra í sinni umsjá og þarf að vera með vaktaskipti til að sinna þeim því biðtíminn til komast inn á hjúkrunarheimili er allt of langur. Það verður að hraða uppbyggingu hjúkrunarheimila og á sama tíma þarf að efla heimaþjónustu. Þar er líka víða pottur brotinn. Við þurfum að spýta í lófana og láta þetta ganga hraðar.“  Þórunn segir að það þurfi líka að styrkja stoðirnar og fá sjálfboðaliða til starfa sem heimsóknarvini fyrir eldra fólk sem sé eitt heima. „Ég met það gríðarlega mikils að við styðjum hvert annað.  Fólk á landsbyggðinni er duglegra að hnippa hvert í annað. Það bankar uppá hjá þeim sem eru einir til að spyrja hvort ekki sé allt í lagi. Við bönkum aldrei uppá hjá nágrönnum okkar hér á höfuðborgarsvæðinu til að spyrja þá sömu spurninga. Við hverfum í borgarrykið hér fyrir sunnan.“

Nýjar baráttuaðferðir

Þórunn með Aðalheiði Bjarnferðsdóttur formanni Starfsmannafélagsins Sóknar, en Þórunn sem er lengst til hægri á myndinni tók við formennsku í félaginu af Aðalheiði

Þegar Þórunn var formaður í FEB var efnt til vitundarvakningar um hve hreyfing er mikilvæg fyrir eldra fólk. „Það eru margar rannsóknir sem sýna að það er hægt að lengja og viðhalda góðu lífi með réttri hreyfingu. Margir sem fara að hreyfa sig geta minnkað við sig lyf og fólk verður hraustara. Vöðvarýrnun minnkar til muna og fólk getur byggt upp vöðvastyrk að nýju sem er mikilvægt til að eiga góð efri ár. Heilsa og vinna haldast oft í hendur ef fólk fer að sitja í sófanum aðgerðarlaust, fer heilsan. Við þurfum að sporna gegn þessu.“  Og Þórunn segist hafa fullan hug á að halda áfram með heilsueflingu fyrir eldra fólk.Mörgum finnst sem hægt gangi í réttindabaráttunni og stjórnmálamenn hafi ekki mikinn hug á að bæta kjör eldra fólks svo nokkru nemi. Þórunn segir að það þurfi að breyta baráttuaðferðum í takt við nýja tíma. Hún segist nota samfélagsmiðla til að hafa samband við pólitíkusa og það virki oft ágætlega því  hún komist nokkuð hratt í viðtöl. „Systursamtök okkar í Bandaríkjunum AARP senda gjarnan fjölpóst á þingmenn og ráðamenn ef það er eitthvað sem þeim finnst þeir verða að fara að gera; eitthvað sem er í andstöðu við þeirra hagsmuni. Við höfum velt þessu fyrir okkur og raunar beitt þessari aðferð til dæmis þegar það átti að fara að brjóta á okkur út af 69. grein almannatrygginganna. Þá dreifðum við póstföngum félags- og fjármálaráðherra og báðum fólk um að senda þeim póst. Við þurfum að vera vakandi í að finna nýjar baráttuaðferðir í breyttu samfélagi. Auk þess að vera dugleg að hitta stjórnmálamenn og koma okkar málum á framfæri við þá.“

 

Lifðu núna tók viðtal við Þórunni fyrir nokkrum misserum og það er hægt að lesa hér. Þar segir hún meðal annars frá uppvexti sínum og því sem hefur mótað hana sem baráttukonu.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 9, 2017 12:29