Hvað er betra en bók og sumarfrí. Geta sökkt sér niður í lestur og gleymt öllu umhverfis sig. Bókaklúbbinn Hildi skipa átta átta lestrarhestrar með fjölbreyttan bókasmekk. Lifðu núna fékk þær til að velja bækur fyrir sumarleyfið og eins og sést á listanum kennir þar ýmissa grasa.
Undur Mývatns eftir Unni Jökulsdóttur
Í bókinni er mikill fróðleikur um plöntur og dýr, bæði í og við Mývatn og framsetningin er þannig að það er engin leið að loka bókinni fyrr en að lestri loknum. Það verður önnur og meiri reynsla að koma í Mývatnssveit eftir að hafa lesið þessa bók.
Land föður míns eftir Wibke Bruhns.
Wibke segir hér sögu foreldra sinna sem bæði urðu nasistar, ævi þeirra og örlögum. Afar áhugaverð bók, sem varpar ljósi á sögu og samfélag Þjóðverja á víðsjárverðum tíma.
Dóttir húshjálparinnar eftir Barbara Mutch.
Þetta er sannsöguleg skáldsaga sem gerist í Suður Afríku. Blökkustúlkan Ada elst upp með móður sinni á heimili bankastjóra og konu hans. Frúin í húsinu tekur ástfóstri við hana og undir hennar handleiðslu verður Ada fær píanóleikari og lestrarhestur, sem á eftir að koma sér vel. Þetta er áhrifarík og vel skrifuð bók sem er erfitt að leggja frá sér fyrr en að lestri loknum.
Tvíleikurinn og verðlaunabækurnar Skuggasaga – Arftakinn og Skuggasaga – Undirheimar, eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur
Áhugaverðar bækur fyrir allan aldur og tilvalið að kynslóðirnar ræði saman. Þær eru spennandi og grípandi en vel skrifaðar og fullar af hugmyndaauðgði. Fantasía sem flytur okkur mikilvæg skilaboð. Það er að segja enginn tekur eftir Sögu. Þannig hefur það alltaf verið. Hún sér líka hluti sem enginn annar sér en er löngu búin að læra að þegja yfir því. Eftir að húshjálpin í kjallaranum hverfur sporlaust og í hennar stað birtist skuggalegur óvættur fær Saga loks skýringu á því hvers vegna hún er öðruvísi en aðrir. En það er skýring sem erfitt er að horfast í augu við og um leið upphafið að ótrúlegu ævintýri.
Erasmus. Upphefð og andstreymi eftir Stefán Zveig, í þýðingu Sigurjóns Björnssonar.
„Í fyrsta kafla bókarinn segir: „Af öllum rithöfundum og skapandi hugsuðum Vesturlanda var hann fyrsti meðvitaði baráttumaðurinn fyrir friði, mælskasti og málsnjallasti forsvarsmaður húmanismans, hugsjónarinnar um veldi andans í heiminum.“
Með lífið að veði. Leið norðurkóreskrar stúlku til frelsis eftir Yeonmi Park.
Bókin varpar ljósi á myrkustu kima Norður-Kóreu. Árið 2007 flýði Yeonmi heimaland sitt þá 13 ára gömul. Hún lenti í miklum mannraunum en tókst á endanum að flýja til Suður_Kóreu. Þetta er fræðandi saga ungrar stúlku sem neitaði að gefast upp.
Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali.
Ayan flúði kúgun og harðræði í Sómalíu. Hún komst til Hollands og var kosin á þing en varð að endanum að leita skjóls í Bandaríkjunum undan ofsóknum múslíma. Þó það séu tíu ár frá því þessi bók kom út á hún enn í dag fullt erindi til lesenda.