Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar
Vonskuveður geisar fyrir austan og á afskekktum bæ uppi á heiði undirbúa ábúendur jólin. Seint á Þorláksmessukvöld er barið að dyrum og úti stendur maður á miðjum aldri sem segist hafa villst frá félögum sínum. Honum er boðið inn og matur fram reiddur. Ekki er annað í stöðunni en að bjóða manninum gistingu enda ekkert símasamband og rafmagnið farið sem var algengt á þessum tíma. Þegar maðurinn fer að segja sögu sína efast konan um sannleiksgildi hennar og um nóttina heyrir hún hann fara á stjá eins og að hann sé að leita að einhverju. Um morguninn sannfærir hún mann sinn um það að komumaður sé ekki allur þar sem hann er séður. Andrúmsloftið verður æ meira þrúgandi og að lokum ákveður húsbóndinn að læsa manninn inni enda ljóst að hann hafði ekki sagt þeim satt um ferðir sínar. Húsmóðirin býður komu dóttur sinnar sem býr skammt frá og skilur ekkert í því hvað hefur tafið hana enda komið fram yfir hádegi á aðfangadag. Að lokum ákveður hún í skelfingu sinni að fara út í hríðina og ganga yfir að húsi hennar enda bæði hrædd um dóttur sína og eins að aðkomumanninum takist að brjótast út úr herberginu.
Þessa sömu daga hefur lögreglukonan Hulda miklar áhyggjur af líðan dóttur sinnar sem lokar sig orðið inni í herbergi sínu og vill ekki undirbúa jólin né fara með foreldrunum í bæinn á Þorláksmessu sem hefur verið árviss viðburður. Vanlíðan dótturinnar nær hámarki á aðfangadag. Þá hefur Huldu og hennar teymi ekkert miðað við rannsókn á hvarfi ungrar konu sem hefur verið saknað í nokkra mánuði.
Þetta er frábær bók fyrir unnendur spennusagna og örugglega ein besta bók Ragnars.
Formáli:
Febrúar 1988
Hulda Hermannsdóttir opnaði augun. Þessi helvítis höfgi sem lá yfir henni neitaði að hverfa. Hana langaði mest til þess að sofa allan daginn. Meira að segja hér í þessum harða og óþægilega skrifborðsstól. Til allrar hamingju var hún með eigin skrifstofu hjá rannsóknarlögreglunni og gat lokað að sér og starað út í tómið og lygnt aftur augunum til skiptis. Skjalabunkarnir hlóðust upp fyrir framan hana og hún hafði ekki tekið eitt einasta mál föstum tökum eftir að hún kom aftur úr leyfinu fyrir tveimur vikum. Þessi hegðun hafði auðvitað ekki farið fram hjá Snorra yfirmanni hennar. Ekki að öllu leyti að minnsta kosti en hann mátti eiga það að hann sýndi henni skilning og umburðarlyndi. Hún varð hins vegar að fara aftur í vinnuna, hún gat ekki eytt meiri tíma innilokuð á heimilinu með Jóni. Jafnvel stórkostleg náttúrufegurðin á Álftanesi í kringum einbýlishúsið þeirra hafði engin áhrif á hana lengur. Hún heyrði ekki lengur sjávarniðinn. Sá ekki stjörnurnar á himninum eða norðurljósin jafnvel þegar þau blöstu við henni og þau Jón töluðust varla við. Hún var hætt að eiga frumkvæði að samskiptum þeirra á milli en svaraði honum þegar hann spurði að einhverju og skammdegið bætti auðvitað gráu ofan á svart. Þetta var kaldasti tími ársins, dimmasti tími ársins, hver dagur öðrum verri og í þokkabót var þessi bölvaði febrúar mánuður sérlega snjóþungur.