Heimabíó um helgina

Hér segir frá fjórum kvikmyndum á VOD-inu sem Lifðu núna mælir með með. En úrval kvikmynda á VOD-inu er gríðarlegt og þar gildir auðvitað gamla máltækið „Leitið og þér munuð finna“.

Sage Femme

Myndin fjallar um ljósmóður, sem er mjög fær í sínu fagi. Hún er á krossgötum því það stendur til að loka fæðingardeildinni þar sem hún starfar. Dag einn fær hún óvænt upphringingu frá fyrrverandi ástkonu föður síns, en hann hafði verið frægur sundkappi.  Óvænt atburðarrás fer í gang í annars fábreyttu lífi ljósmóðurinnar og hún þarf að gera upp við sig ýmis áleitin mál. Aðalhlutverkin ljósmóðurina og ástkonuna, leika þær  Catherine Frot og Catherine Deneuve. Það gera þær mjög vel og það er skemmtilegt að sjá Catherine Deneuve hér í óborganlegu hlutverki ástkonunnar. Leikstjóri myndarinnar sem var frumsýnd í Þýskalandi fyrir ári, er Martin Provost.

Daniel og vinkona hans Kate

I Daniel Blake

Ekkjumaðurinn Daníel Blake fær hjartaáfall og missir vinnuna. Þótt læknir hafi ráðlagt honum að fara ekki að vinna, neyðist hann til að gera það. Vinnumálastofnunin sendir hann nefnilega í starfsmat og  niðurstaðan er að hann sé vinnufær og eigi ekki rétt á bótum. Þó hann vilji áfrýja ákvörðuninni, sem var tekin án samráðs við lækninn, gerir vankunnátta hans í tölvumálum að verkum að hann á verulega erfitt með það. Á göngu sinni um ranghala breska velferðarkerfisins, kynnist hann Katie, ungri einstæðri móður og þeim verður vel til vina. Afar merkileg mynd um það hvernig hlutirnir geta farið úrskeiðis í lífinu. Leikstjórinn heitir Ken Loach, en Dave Jones fer með hlutverk Daniels og vinkonu hans einstæðu móðurina leikur Hayley Squires.

Aðalsöguhetjurnar í kvikmyndinni Hidden Figures

Hidden figures

Þessi mynd leynir á sér, en er ótrúlega góð og eftirminnileg. Þarna segir frá þremur blökkukonum sem starfa að útreikningum fyrir bandarísku geimferðastofnunina NASA. Þetta var auðvitað í stórum dráttum hvítur karlavinnustaður. Við fylgjumst með konunum þremur, en ein þeirra Katherine Goble var undrabarn í stærðfræði og helsti sérfræðingur stofnuninnar í útreikningum fyrir ferðir geimfara út í geim og heim aftur.  Saga um baráttu, bæði blökkufólks í Bandaríkjunum og kvenna.  Líf kvennanna þriggja blandast a sjálfsögðu inní söguna, en myndin er mjög vel gerð. Leikstjórinn heitir Theodore Melfi og myndin var frumsýnd í desember árið 2016.

Sully

Þessi mynd er búin að vera nokkuð lengi á VOD-inu, en þeir sem hafa ekki séð hana ennþá, ættu ekki að láta hana framhjá sér fara. Hún er mjög spennandi og Tom Hanks klikkar ekki í hlutverki flugstjórans Chesley Sullenberger eða „Sully“ sem neyðist til að nauðlenda flugvél sinni í Hudson River stuttu eftir flugtak á La Guardia flugvellinum í New York.  Myndin er byggð á sannsögulegum atburði. Hún var gerð árið 2016, en Clint Eastwood leikstýrði henni.

Ritstjórn mars 16, 2018 09:29