Erna Hauksdóttir var framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í fimmtán ár. Áður var hún framkvæmdastjóri Samtaka veitinga- og gistihúsa þar sem hún hóf störf um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Það eru því margir sem minnast Ernu sem ferðamálafrömuðar og talsmanns sinna samtaka í fjölmiðlum. Á því tímabili sem hún var í forystusveit urðu gríðarlegar breytingar á öllum sviðum sem varða ferðaþjónustu hér á landi. Uppgangurinn var með ólíkindum. Ferðamönnum fjölgaði gríðarlega á tímabilinu, sem dæmi má taka að þegar hún tók við keflinu hjá Samtökum ferðaþjónustunnar komu um 200 þúsund ferðamenn til landsins en árið sem hún hætti nálguðust þeir eina milljón.
Það var í lok árs 2013 sem Ernu fannst komið gott af stjórn ferðamála og ákvað finna sér annan farveg í lífinu. „Ég hætti fyrir fjórum árum. Þetta var óskaplega gaman í mjög langan tíma. En allt hefur sinn tíma og allt í einu fannst mér komið nóg. Ég hætti heldur fyrr en ég hefði þurft því mig langaði að snúa mér að einhverju allt öðru,“ segir hún. Eftir að Erna lét af störfum lét hún gamlan draum rætast og fór í íslenskunám við Háskóla Íslands. „Ég var í tvo vetur í íslenskunni og tók alla þá áfanga sem mig langaði til. Markmiðið var ekki að útskrifast sem íslenskufræðingur heldur læra það sem mig langaði. Ég tók jöfnum höndum málfræði og bókmenntaáfanga og fannst þetta mjög skemmtilegt. Þegar maður er komin á minn aldur er gott að prófa á sér hausinn. Maður hefur gott af því að taka próf og komast að því að maður er fullfær um að gera það sem hugurinn stendur til.“
Erna er viðskiptafræðingur að mennt og segir að háskólanám hafi breyst gríðarlega mikið frá því hún var ung stúlka í viðskiptafræðinni. „Þá var ein tölva í háskólanum og hún tók heilt herbergi. Núna er allt „online“ og mikið af því efni sem maður þarf að nota finnur maður á netinu.“ Erna segir að tíminn í Háskólanum hafi verið einkar ánægjulegur og samnemendur hennar og kennarar hafi tekið vel á móti henni.“Mér finnst mjög gaman að umgangast ungt fólk,“ segir hún. Erna situr ekki auðum höndum í dag. Hún situr í nefndum og ráðum. Til að mynda situr hún í Háskólaráði og er í stjórn Rotarýklúbbsins síns. Eiginmaður hennar er Júlíus Hafstein og hann er líka hættur að vinna. „Maður er komin á þann aldur að maður gerir bara það sem manni sýnist. Maður vill njóta lífsins. Við Júlíus höfum gaman að ferðast og ferðumst mikið saman. Svo eigum við sjö barnabörn sem koma mikið til okkar. Eftir að flensan fór að ganga í vetur má eiginlega segja að við höfum rekið barnaspítala því börnin koma um leið og þau veikjast og eru hjá okkur á meðan foreldrarnir sinna sínu.“