Hillir undir breytingar á almannatryggingakerfinu

Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn Sæmundsson, formaður nefndar um heildarendurskoðun almannatrygginga á von á að nefndin ljúki vinnu sinni í næstu viku. „Ég á von á að nefndin haldi lokafund í næstu viku ef ekkert óvænt kemur uppá,“ segir Þorsteinn. Í framhaldinu á svo að skila skýrslu. Nú er liðið á þriðja ár frá því nefndin var skipuð en hlutverk hennar er að gera tillögur um breytingar á almannatryggingarkerfinu. Pétur heitinn Blöndal fór fyrir nefndinni en eftir fráfall hans á síðasta ári tók Þorsteinn við formennsku. Meðal tillagna nefndarinnar er að ellilífeyristökualdur verði gerður sveigjanlegur í áföngum frá 65 ára aldri og upp í áttrætt. Þá er stefnt að því að einfalda allt kerfið og gera það notendavænna og skilvirkara. Í þriðja lagi má svo nefna að tekið verði upp starfsgetumat í stað örorkumats.

Vantrúaður á samkomulag

Helgi Hjörvar

Helgi Hjörvar

Þorsteinn segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig skýrslan verði kynnt það komi í ljós síðar.  Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar minntist á skýrsluna á Alþingi í vikunni og var skeptískur á að samkomulag myndi takast. „Nú er unnið að endurskoðun almannatrygginga í heild sinni og það er miður að þar er ekki útlit fyrir að samkomulag takist í þeirri nefnd fremur en svo mörgum öðrum. Ég tel hins vegar að þar sé gott tækifæri til að ná samstöðu um breytingar á ellilífeyri sem leitt gætu til nokkurra kjarabóta, einkum fyrir þá sem eiga nokkur réttindi úr lífeyrissjóði en þó ekki veruleg. Ég hvet þingmenn allra flokka til að leggja lið sitt slíkum breytingum en líka að reyna að tryggja að einnig náist sambærilegar kjarabætur fyrir öryrkja í landinu og samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands um slíkar aðgerðir,“ sagði Helgi Hjörvar.

 

Ritstjórn janúar 28, 2016 12:25