Hvað gerir Jón þegar hann hættir að vera smiður?

Árni Guðmundsson segir að það verði að fjölga körlum í tómstundastarfi aldraðra.

Árni Guðmundsson segir að það verði að fjölga körlum í tómstundastarfi aldraðra.

„Margir karlar missa sjálfsmyndina þegar þeir missa starfið. Því tel ég mikilvægt fyrir fólk að skilgreina sig ekki út frá einhverju sem er hægt að taka frá því. Að skilgreina sig út frá vinnu sem er ekki föst í hendi er ekki sjálfsmynd til að byggja á. Því er betra að skilgreina sig út frá áhugamálum eða einhverjum þáttum í fari manns sem maður ræður einhverju um. Ég skilgreini mig til dæmis alltaf í gríni sem Árna Guðmundsson bassaleikara. Það er nokkuð sem enginn tekur frá mér,“ segir Árni. Hann er menntaður félagsmála- og tómstundafræðingur og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Tómstundafræðingar hafa í sífellt meira mæli beint sjónum sínum að málefnum eldra fólks. Enda segir Árni að hækkandi lífaldur og betri heilsa þessa hóps hafi gert það að verkum að þarfir, hvað varðar þjónustu fyrir þennan margbreytilega hóp hafi breyst. Slíkar breytingar hafi í för með sér þörf fyrir fjölþættari þekkingu, breytta nálgun og breytingar á vinnulagi.

Einstaklingsmiðuð ráðgjöf

Árni segir að ef litið sé á félagsmiðstöðvar fyrir heldri borgara þá séu konur mun virkari í starfinu þar en karlar. Svipað ástand hafi verið í félagsmiðstöðvum unglinga fyrir 20 til 30 árum nema þá voru strákarnir virkari en stelpurnar. Þá var markvisst unnið að því að fjölga stúlkum og það tókst. Nú sé kynjahlutfallið nokkuð jafnt. Árni segir að það gildi sömu lögmál þegar kemur að tómstundastarfi eldra fólks og unglinga. Það þurfi fagfólk til starfa , fólk sem kunni að virkja þá sem eru utangátta. Það sé nauðsynlegt að ræða við hvern og einn og finna hans nálgun á því sem hann hefur ánægju og gleði af. Spyrja út í gömul áhugamál. Þar sem lærðir tómstundafulltrúar eru við störf í félagsmiðstöðvunum gangi betur að fá karlana til að taka þátt. Það sé vaxandi skilningur á þessu hjá stjórnendum félagsmiðstöðvanna.

 Konurnar léku á alls oddi en körlunum leiddist

„Í dag eru það einkum konur sem starfa í félagsmiðstöðvunum eldra fólks og þær vinna oftast við það sem þær hafa áhuga á. Ég man eftir því að hafa komið á ónefnt heimili og þar var handavinnutími í gangi. Þar var verið rýja teppi, þar sátu karlarnir hálf umkomulausir á svipinn en voru þarna af því að það var ekkert annað í boði. Maður sá það í augunum á þeim að þeim dauðleiddist. Á meðan léku konurnar á alls oddi og fannst gaman,“ segir Árni og bætir við að ein skýringin á dræmri þátttöku karla sé að sjálfsmynd þeirra sé svo mótuð af þeirri vinnu sem þeir sinntu. Allt í einu hættir þú að vera Jón Jónsson smiður. Þú skilgreinir þig sem sig sem annars flokks þegn af því þú getur ekki unnið lengur.“

Unnu myrkranna á milli

Þetta eru oft menn sem unnu allan sólarhringinn sjö daga vikunnar á meðan konurnar unnu ekki eins mikið, eða réttar sagt öðru vísi og höfðu tíma eða gátu skapað tíma til að eiga áhugamál og héldu áfram að sinna þeim þegar aldurinn færist yfir. Það væri því gott fyrir karlmenn að tileinka sér sjálfmynd út frá áhugamálum. Gömul viðhorf til vinnunnar eru að plaga marga eldri borgara, það er að segja viðhorfið, ef þú ert ekki vinna þá ertu ekki nógu og duglegur. Það er erfitt fyrir fólk að sitja uppi með þetta þegar það fer á eftirlaun. Það þarf að kenna körlum að eiga áhugamál þegar aldurinn færist yfir svo þeir geti notið þriðja æviskeiðsins,“ segir Árni og bætir við „Menn verða að hafa í huga að góðu áhugamáli fylgja gríðarleg lífsgæði.“

Þriðja æviskeiðið sjúkdómavætt

Konur eiga oftar áhugamál en karlar.

Konur eiga oftar áhugamál en karlar.

Hækkandi lífaldur og almennt betri heilsa eldri borgara gerir það að verkum að þarfir, hvað varðar þjónustu fyrir þennan margbreytilega hóp, hafa breyst verulega. „Þriðja æviskeiðið hefur verið sjúkdómavætt. Ellin hefur fyrst og fremst verið viðfangsefni heilbrigðisstétta en því þarf að breyta. Það væri hægt að vinna með unglinga útfrá því að þeir séu veikir en það hefur engum dottið það í hug. Við komum til með halda áfram að sinna líkamlegum þörfum fólks en það þarf að huga betur að því að skipuleggja tómstundastarf fyrir eldra fólk, sem í dag er fullfrískt fram eftir öllum aldri og hefur mismunandi langanir og þarfir,“ segir hann.

Erfið tímamót í lífi margra

„Það væri sniðugt fyrir verkalýðsfélög sem eru með starfslokanámskeið að fara inn á þessa félagslegu þætti sem fylgja starflokum í stað þess að einblína eingöngu á fjárhagslega afkomu fólks þegar það hættir að vinna. Fólk þarf ráðgjöf í þessa veru. Það verður að fylla þriðja æviskeiðið innihaldi. Taka upp gömul áhugamál eða finna sér ný. Margir eru tvístígandi á þessum vegamótum í lífinu,“ segir Árni en sjálfur var hann fyrir nokkrum árum formaður Starfsmannafélags Hafnafjarðarbæjar. „Ég man eftir eldri manni sem kom til mín og var að ræða vaktafyrirkomulag og greiðslur fyrir vaktir og áhyggjur hans af því að hann væri ekki að fá rétt útborgað. Þetta var mál sem var einfalt að leysa. Ég áttaði mig ekki á því að þetta var ekki það sem maðurinn kom til að ræða í raun, hann var að fara á eftirlaun og hafði áhyggjur af því hvað hann ætti að gera í framhaldinu.“

Klóraði mér í kollinum

„Það voru fleiri sem leituðu til mín með svipuð vandamál. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu síðar að þetta sama fólk hafði áhyggjur af því að vera að fara á eftirlaun og hvað tæki við þá. Ég vildi að ég hefði skilið þetta þá, þá hefði ég eytt nokkrum mínútum í að leysa þessi praktísku vandamál og eytt svo tímanum í að ræða áhyggjur fólks af starfslokunum og eftirlaunaárunum. Ég hef oft klórað mér í kollinum yfir að skilja þetta ekki þá,“ segir Árni og heldur áfram og segir „þeir sem hafa ekki ræktað með sér áhugamál eiga oft erfitt með þessi tímamót. Fólk fer inn ákveðið tómarúm. Svo eru aðrir sem láta loksins draumana rætast eiga áhugamál og þriðja æviskeiðið verður gott og gjöfult hjá því fólki,“ segir Árni Guðmundsson að lokum.

Ritstjórn nóvember 16, 2015 10:41