Skyldueftirlaunaaldur brot á réttindum fólks

Jan Marie Fritz er prófessor við háskólann í Cincinnati í Bandaríkjunum og gestaprófessor við háskólann í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, en fagið sem hún er sérfhæfð í nefnist klínísk félagsfræði. Hún varði nýliðnu hausti hér á Íslandi við rannsóknir á styrk frá Fulbright-stofnuninni (nánar tiltekið sem „Fulbright-National Science Foundation Arctic Scholar“). Rannsóknir hennar áttu að snúa að janfréttisáætlunum o.fl., en þegar hún komst að því að á Íslandi eru í gildi reglur um skyldueftirlaunaaldur hellti hún sér út í rannsókn á því efni. Það er innileg sannfæring hennar að það að skylda fólk til að hætta að vinna þegar það nær tilteknum aldri sé brot á mannréttindum. Aldursmismunun („ageism“ á ensku).

Jan M. Fritz

Í samtali við blaðamann Lifðu núna segist Fritz hafa orðið mjög hissa þegar hún varð þess fyrst vör að víða væri fólk skyldað til að fara á eftirlaun á ákveðnum aldri. Hún þekkti ekki slíkt heiman frá sér, frá Bandaríkjunum. Eingöngu að slíkar reglur giltu af ýmsum ástæðum, oftast vegna öryggis, um ákveðnar starfsgreinar, svo sem atvinnuflugmenn. Hún hefði því verið mjög forvitin að fá að vita hvaða rök lægju að baki reglum sem þvinguðu fólk til að hætta að vinna á tilteknum tímapunkti, án tillits til þess hvort það langaði til að vinna lengur, hefði heilsu til þess eða annarra atriða. Eftir því sem hún kynnti sér málið betur hefði hún orðið sannfærðari um að slíkar reglur væru hreinlega dæmi um aldursmismunun. Ef fólk hefði heilsu, getu og vilja til að vinna lengur þá ætti fólk að hafa rétt til þess.

Allur gangur á

Fritz situr í stjórn alþjóðasamtaka félagsfræðinga. Í apríl á þessu ári samþykktu samtökin, að hennar frumkvæði, stefnuyfirlýsingu gegn skyldueftirlaunaaldri.

„Ég hélt þetta yrði auðsótt þar sem félagsfræðingar fást við mannréttindi og félagsleg réttindi í starfi sínu, en rak mig á það að ég þurfti að hafa heilmikið fyrir því að sannfæra hvern og einn hinna fulltrúanna í stjórninni um að þetta væri rétt skref að stíga,“ segir Fritz. Hún hafi í kjölfarið komist að því að það er allur gangur á því hvaða reglur gilda um þetta í löndum heims. En hún rak sig líka á það að það er erfitt að nálgast upplýsingar um það hvaða reglur gilda í hvaða landi. „Það er ekki til neinn yfirlitslisti um þetta. Sums staðar er skyldueftirlaunaaldur fyrir alla opinbera starfsmenn, sums staðar bara í tilteknum starfsgreinum, sums staðar er hann ólíkur eftir kyni, og þannig mætti áfram telja,“ segir hún.

Fritz kom til Íslands fyrst og fremst í þeim erindagjörðum að fræðast nánar um viss félagsleg framfaramál hérlendis, aðallega sem sneru að jafnréttisáætlunum. Fljótlega eftir komuna hingað hafi hún uppgötvað að Ísland er meðal þeirra ríkja þar sem í gildi eru reglur um skyldueftirlaunaaldur. „Mér fannst ég verða að rannsaka þetta frekar,“ segir hún. Sér hafi þótt þetta skjóta skökku við. Ísland sé í efsta sæti á alþjóðalistum yfir jafnrétti kynjanna, launajafnrétti, meira að segja hamingju. En haldi í gildi reglum sem feli í sér aldursmismunun.

Safnaði reynslusögum Íslendinga

Fritz leitaði til Landssambands eldri borgara og Mannréttindaskrifstofu Íslands og lét það spyrjast að hún vildi hitta fólk sem hefði eigin reynslusögur að segja af því að hafa orðið að hætta að vinna vegna þessara reglna. „Það gekk ótrúlega vel,“ segir hún. Á mjög skömmum tíma hafi hún náð að safna mörgum góðum reynslusögum Íslendinga sem voru skikkaðir til að fara á eftirlaun vegna aldurs. Þar á meðal sé 77 ára fyrrverandi háskólaprófessor, sem er þess fullviss að „kostirnir við að halda starfinu (fram yfir almennan eftirlaunaaldur) séu mun meiri en ókostirnir“. Heimila eigi fólki að halda áfram að vinna ef það vilji og hafi heilsu til. Hann segist bjartsýnn á að skyldueftirlaunaaldur muni verða afnuminn hér á landi – þótt það kunni að taka tíma að ná þeim áfanga.

Annar viðmælandi hennar var framhaldsskólakennari. Hann hafði alls ekki viljað hætta þegar hann fékk tilkynningu um að hann yrði að hætta störfum þegar hann yrði sjötugur. Hann lét því reyna á alla möguleika til að halda starfinu lengur. Hann fékk lögfræðing verkalýðsfélags síns til að kanna möguleikana á að fá uppsagnarbréfið (vegna aldurs) ógilt. Möguleikinn á að fara í dómsmál er til skoðunar, en vænta má að það yrði fordæmisgefandi. Það myndi líka vafalaust taka langan tíma að fá endanlega niðurstöðu í það. Til skoðunar er því líka að innleiða í tilraunaskyni ferli sem léti kennara sem komast á aldur undirgangast starfsgetumat, vilji þeir halda starfinu fram yfir almennan eftirlaunaaldur. Standist þeir það hafi þeir kost á að vinna lengur.

Reyndar vinnur viðkomandi enn við skólann, þrátt fyrir að bréfið hafi ekki verið afturkallað. Þegar staða hans var auglýst sótti hann um hana og var metinn hæfastur fjögurra umsækjenda, burtséð frá aldri. Og fékk ráðningu til bráðabirgða áfram.

Fritz nefnir líka þriðja dæmið. Þar sé um að ræða lækni sem hafi eftir að eftirlaunaaldri var náð að vísu fengið að halda starfinu, en á mun lakari kjörum en áður. Mál læknisins sé nú líka til meðferðar í dómskerfinu og kunni einnig að verða fordæmisgefandi.

Afnumið í Danmörku og Hollandi

Fritz vekur athygli á því að nýlega hafi skyldueftirlaunaaldur verið afnuminn í Danmörku. Í Hollandi hafi það líka nýlega verið gert hjá opinberum starfsmönnum. Ísland hafi því nærtæk dæmi til að fylgja.

Lifðu núna kannaði málið frekar og komst að því að í Danmörku gekk í ársbyrjun 2016 í gildi lagabreyting, sem bannaði að í ráðningarsamningum væri kveðið á um skyldueftirlaunaaldur. Í Hollandi var hann afnuminn fyrir opinbera starfsmenn árið 2008 (hér má lesa nánar um það).

Fritz vekur líka athygli á því að algengt sé að fólk sem skikkað er á eftirlaun hugsi með sér að með því að víkja úr starfi sé það að rýma fyrir yngra fólki. Rannsóknir sýni þó að sú sé alls ekki alltaf raunin. Þar að auki sé það allt annað mál en spurningin um rétt eldra fólks til að halda starfi sínu. Það sé spurning um félagsleg réttindi einstaklingsins. Sú spurning snúist um getu, ekki aldur.

Ísland geti verið fyrirmynd

Fritz bætir við að meðal ástæðnanna fyrir því að hún hafi farið út í að rannsaka stöðu þessara mála á Íslandi væri að miðla upplýsingunum til stefnumótenda. Athygli hennar var vakin á því að á Alþingi hefðu á síðustu misserum verið lagðar fram tillögur um breytingar á þessum málum (er það vísað til Aðgerðaáætlunar gegn öldrunarfordómum, sem Ólafur Þór Gunnarsson (VG) var fyrsti flutningsmaður að). En í báðum tilvikum hefðu tillögurnar „sofnað í nefnd“.

Fritz skrifaði af þessu tilefni ekki bara þeim átta þingmönnum sem voru meðflutningsmenn nefndra tillagna, heldur skrifaði hún öllum nýkjörnu þingmönnunum sextíuogþremur bréf, með hvatningu um að vinna þessu réttindamáli framgöngu. Þegar viðtalið var tekið hafði hún ekki heyrt til baka frá nema örfáum, en hún sýndi því skilning enda þingið nýkomið saman og önnum kafið yfir fjárlögunum. En hún hygðist fylgja málinu eftir. Enda hefði hún þá trú að Ísland gæti orðið öðrum löndum fyrirmynd í þessu efni. Í nýjum alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa 43 landa hefði íslenska kerfið fengið hæstu einkunnina. Á alþjóðavettvangi væri Ísland þekkt fyrir framsækni í félagslegum réttlætismálum – dæmi: jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra. Ísland hefði því allt til að bera til að geta verið öðrum fordæmi hvað varðar afnám aldursmisréttis, en skyldueftirlaunaaldur sé ein birtingarmynd þess.

Fritz vill taka fram að áhugasömum sé frjálst að skrifa henni (jan.fritz@uc.edu) og biðja um að fá afrit af ritgerðinni með niðurstöðum rannsóknar sinnar. Ritgerðin á reyndar að birtast sem kafli í ritinu Globalisation, Ideology and Social Justice Discourses í ritstjórn Joseph Zajda og Yvonne Vissing hjá Springer-forlaginu í Sviss á næsta ári.

Fyrir áhugasama má reyndar líka benda á að Fritz var í klukkustundar löngu „Samtali við samfélagið“ um þetta mál og fleira í hlaðvarpi Kjarnans 6. desember sl.

 

Ritstjórn desember 15, 2021 07:01