Samkvæmt tölum Hafstofu Íslands voru háskólanemendur sem eru orðnir 55 ára og eldri, 194 árið 2002. Tíu árum síðar eða árið 2012 voru þeir orðnir 435, sem er ríflega tvöföldun. Þetta eru tölur fyrir allt háskólastigið en í Háskóla Íslands hefur nemendum á þessum aldri fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2008-2009. Það ár voru þeir 394, en voru orðnir 455 veturinn 2013-2014. Það vekur athygli að konur eru í miklum meirihluta í þessum nemendahópi, eða um tvöfalt fleiri er karlarnir.
Margir fóru í skóla eftir hrun
Jón Atli Benediktsson aðstoðarrektor vísinda og kennslu í Háskóla Íslands segir erfitt að segja nákvæmlega til um hvers vegna eldri háskólanemum hafi fjölgað, en fjölgun nemenda í Háskólanum hafi orðið umtalsverð eftir hrunið. Þá leituðu margir sem misstu vinnuna í háskólanám. Fjölgun nemenda í aldurshópnum 55 ára og eldri, á árunum 2011 – 2012 hafi verið í samræmi við almenna fjölgun nemenda í skólanum, eða um 20%.
Jákvætt að fá fólk með reynslu í skólann
Jón Atli segir að margir í þessum aldurshópi hafi bætt meistaraprófi við grunnnám sem þeir voru búnir að taka áður. En hvaða þýðingu telur hann námið hafa fyrir þennan aldurshóp?
„Það hefur einkum þá þýðingu að fólkið bætir nýrri þekkingu við þá reynslu sem það hefur. Eins og ég greindi frá eru margir eldri nemar að taka meistaraprófi í sinni grein og sú nýja þekking nýtist síðan atvinnulífinu með beinum hætti. Fyrir háskólann er jákvætt að fá fólk í nám sem hefur reynslu bæði úr atvinnulífinu og samfélaginu almennt. Þessi þróun er í samræmi við það sem við sjáum í öðrum vestrænum ríkjum“.
Símenntun sífellt mikilvægari
Jón Atli segir að því miður hafi skólinn ekki gögn til að greina hvort þessi aldurshópur velji aðrar námsgreinar en nemendahópurinn almennt. Hann virðist þó dreifast svipað á fræðasvið skólans og aðrir aldurshópar. Jón Atli fer varlega í að spá mikilli fjölgun nemenda á efri árum í skólanum, segir að tölurnar hafi verið nokkuð stöðugar í HÍ síðustu árin. „Á hinn bóginn má benda á að símenntun verður sífellt mikilvægari í nútíma samfélagi“, segir hann. „Því er líklegt að fólk úr atvinnulífinu sem býr að mikilli reynslu vilji taka einstök námskeið við háskóla samhliða vinnu. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands býður t.a.m. upp á mikið úrval slíkra námskeiða sem fagfólk úr öllum stéttum nýtir sér.“