Héldu sér í formi með magabelti og aðhaldsbuxum

Hollustubarinn í Dansrækt Báru blasir við þegar komið er inn í ræktina. Það er af sem áður var þegar það þótti allt í lagi að fá sér kaffibolla eftir ræktina, enda eru hátt í  50 ár síðan. Bára Magnúsdóttir dansari, rekur staðinn. Bára lærði jazzballett í London og mamma hennar fékk oft spurningar um þetta tiltæki dótturinnar. „Hvaða vitleysa er þetta? Hvað er hún að gera þarna út í London og hvernig ætlar hún eiginlega að sjá fyrir sér?“

Kenndu „venjulegu fólki“

„Það var mín sérviska að vilja búa til skóla“, segir Bára, þegar Liðu núna nær tali af henni, en ég vildi ekki leigja sal í skátaheimilinu eða í íþróttahúsi. „Mér fannst það ekkki „arty“ eða hvetjandi umhverfi fyrir sköpun. Það var ekki hægt að vera með jazzballett skóla nema milli 5 og 8 á daginn. Ef ég ætlaði að leigja sal, hvernig átti ég þá að nýta hann?“ segir hún. Hún segist hafa séð að atvinnulausir dansarar í London unnu fyrir sér með því að kenna „venjulegu fólki“. Þeir leigðu sér stúdíó og slagorðið var „Move like a dancer“ og tóku fólk í tíma til að gera léttar æfingar og stíga dansspor. Hún bendir á að Jane Fonda hafi upphaflega verið dansari.

Fengu flott mitti og flott læri

Bára byrjaði á á leigja sér húsnæði í gamla Alþýðuhúsinu en fór fljótlega uppí Suðurver þar sem hún var með líkamsræktartíma fyrir konur, samhliða skólanum. Þetta var í kringum 1970. Hún var með einn tíma áður en skólinn hófst og annan eftir að honum lauk. Það spurðist út að það væri hægt að fá flott mitti og flott læri með því að vera í líkamsræktinni hjá Báru og skemmst er frá því að segja að það varð alger sprenging í aðsókninni.

Notuðu magabelti og aðhaldsbuxur

„Þetta varð félagsmiðstöð fyrir konur“, rifjar Bára upp, en á þessum tíma voru margar konur heimavinnandi. „Karlarnir voru í Lions og fleiri félögum, en þarna fengu konurnar vettvang til að hittast og tala saman“. En þess voru dæmi að konur væru feimnar við að segja frá því að þær væru hjá Báru, enda var þetta á þeim tíma þegar flestar konur létu sér nægja að halda sér í formi með því að nota magabelti og aðhaldsbuxur. Það var ákveðið skref að fara til Báru. Hver þorði að fara út og vera ekki í aðhaldi?

Viðurkennd listabraut

Jazzballettskóli Báru var í Suðurveri í nær 30 ár, en hefur nú verið í rúm aldarfjórðung ár í Lágmúla. Þar hefur draumur hennar um listdansskóla ræst, því hún rekur nú litsdansbraut með 130 nemendum, sem er viðurkennd af menntamálaráðuneytinu og gefur 51 einingu til stúdentsprófs.

Dyravörður með kaskeiti

Bára fæddist á Akranesi, dóttir hjónanna Magnúsar Ingimarssonar og Elínar Ólafsdóttur. Hún var skilnaðarbarn, flutti með móður sinni til Reykjavíkur en þráði pabba sinn mjög heitt. Hún setti hann alltaf í samband við sjóinn, vegna þess að þegar hún flutti frá Akranesi var farið sjóleiðina. Lengi eftir það veifaði hún alltaf pabba sínum þegar hún sá sjó. Afi hennar var Ólafur Ólafsson veitingamaður, en hann rak veitingastaði og skemmtistaðinn Röðul, sem byrjaði á Laugaveginum. „Þar var glæsilegt“, segir Bára,“ dyravörður með kaskeiti“ . Erlendir skemmtikraftar komu frá útlöndum til að skemmta á Röðli og menn eins og Raggi Bjarna og Haukur Mortens hófu feril sinn þar.

Sætar stelpur og næturklúbbar?

Bára vildi vinna á danssviðinu, en þegar hún kom heim frá námi var dansinn ekki viðurkenndur sem listgrein. Það voru mikil viðbrigði því í London þótti fullkomlega eðlilegt að vera dansari. Leiklist, tónlist og bókmenntir voru viðurkenndar listgreinar hér heima, en dansinn sem hún lærði í London þótti bara „fótaspark“. „ Að ætla sér að verða dansari var, eins og að vera ónytjungur eða slæpingi“ segir Bára. „Menn sáu fyrir sér sætar stelpur og næturklúbba, það var jafnvel hringt og spurt hvort hægt væri að fá „go go girls“. Bára samdi dans sem hét Sígaunastúlkan Viðbrögðin voru aðallega þau hvað hún hefði verið í víðu pilsi og ógeðslega sæt.       „ Manni sárnaði“ segir Bára. „ hvernig átti maður að halda virðingunni og vinna í þessari grein?“.

Fólk ræður hvenær það verður gamalt

Hjá dansrækt JSB eru konur á öllum aldri, er einn hópur er þar enn sem hefur fylgt Báru nánast frá upphafi. Elsta konan í hópnum er níræð. „Þær eru búnar að gera þetta alla ævina og halda bara áfram“ segir Bára, en kennararnir viti hvað þeir eru að gera og viti hvaða hraði hentar og hvaða æfingar. Þær héldu nýlega hóf fyrir allan hópinn í Iðnó og hittust á barnum, þar sem sú níræða sagðist ekki ætla að fá sér í glas, því hún væri á bíl og á leið til Afríku næsta morgun. Þetta þykir Báru eðlilegt og er algerlega mótfallinn því að fólk sé sett í ákveðin hólf, eftir aldri. „Hvaða aldri? spyr hún. Í hennar huga eru einungis tveir hópar börn og fullorðnir. „Fólk ræður hvenær það verður gamalt“, segir hún.

Viðtalið við Báru er úr safni Lifðu núna og kemur hér endurbirt.

Ritstjórn september 22, 2023 07:00