Tíu Íslendingar verða sextugir á hverjum degi

Um 10 þúsund manns í Bandaríkjunum verða sextugir dag hvern og fólk sem er orðið rúmlega fimmtugt og eldra þar í landi telur um 78 milljónir. Hér á landi eru þeir sem eru fimmtíu og fimm ára og eldri 78 þúsund. Um 3.700 eru sextugir á þessu ári, þannig að lauslega áætlað verða tíu Íslendingar sextugir á hverjum degi.

Búum okkur vel undir eldgos

Þessar tölur um aldursdreifinguna í  Bandaríkjunum komu fram á málþinginu sem haldið var í Reykjavík um þriðja æviskeiðið fyrr í vikunni. Bandaríski fyrirlesarinn Julie Schniewind gerði þær að umtalsefni. Hún hafði í ferð sinni hingað til lands farið að Þorvaldseyri til að kynna sér eldgosið í Eyjafjallajökli og viðbúnaðinn við gosinu. Henni fannst til fyrirmyndar hvað Íslendingar væru vel undirbúnir þegar kæmi að eldgosum. En erum við jafnvel undirbúin þegar kemur að flóðbylgju eldra fólks í landinu á næstu áratugum?

Fjölmargt sem þarf að hugsa um

Samtök atvinnulífsins gáfu út skýrslu árið 2007 sem hét Ísland 2050 – eldri þjóð, ný viðfangsefni, og þar er komið inná fjölmörg atriði sem huga þarf að í tengslum við þetta. Bæði almennt í ríkisfjármálum og svo í velferðar- og heilbrigðismálum. Þá þurfi að stuðla að því að fæðingartíðni haldist há, að atvinnuþáttaka einkum eldri starfsmanna aukist og afköst einnig. Sveigjanleiki á vinnumarkaði þurfi að verða meiri og taka þurfi vel á móti innflytjendum og stuðla að því að þeir aðlagist samfélaginu.

 

Ritstjórn september 25, 2014 13:34