Fáðu tilboð í tryggingarnar árlega

Tryggingar á húsnæði, innbúi, bíl og fleiri eignum eru býsna stór póstur hjá mörgum.  Það er engu líkara en að þessi útgjöld aukist með aldrinum.  Félag eldri borgara hélt nýlega fund um tryggingamálin þar sem Smári Ríkarðsson vátryggingamiðlari  leiðbeindi fólki í gegnum tryggingafrumskóginn.  Kynningin hét, Eru tryggingar fyrir fólk?

Mikilvægt að kynna sér innihaldið

Smári sagði að allir þyrftu tryggingar, en fáir gæfu sér tíma til að skoða þær.  Það væri mikilvægt að vita hverjir skilmálar „smáa letrið“ trygginganna sem við erum með, væru. Heimilis- eða fjölskyldutryggingar væru til dæmis mismunandi.  Þar væri hægt að kaupa pakka með ákveðnum tryggingum inní, og það væri til dæmis ekki þörf fyrir sömu tryggingar þegar menn væru með uppkomin börn og á meðan börnin voru yngri.

Svarar kostnaði að líftryggja sig á efri árum?

Líftryggingar falla almennt niður þegar fólk verður sjötugt. „Það tekur því ekki fyrir rúmlega fimmtuga manneskju að fá sér líftryggingu nema sérstakir hagsmunir kalli á það“, sagði Smári.  Þá er einnig spurningarmerki við að taka sjúkdómatryggingar eftir sextugt iðgjaldsins vegna. Þar fyrir utan eru þær almennt ekki í boði eftir þann aldur nema nokkuð dýrar.  „Hafi maður slíka tryggingu þarf að meta hvort hagsmunirnir á móti iðgjaldi séu í takt“, segir hann.

Að fá tilboð í tryggingarnar árlega

Smári benti á vefsíðuna www.tryggja.is en þar er hægt að slá inn hvaða tryggingar menn eru með og skjalið fer síðan til fjögurra tryggingafélaga sem koma með tilboð í tryggingarnar þínar.  Þau eru VÍS, Sjóvá, TM og Vörður. Smári mælir með því að menn geri þetta árlega, til að tryggja sér besta verð á tryggingunum hverju sinni.  En það þarf einnig að skoða hvaða skilmálar felast í tryggingunum sem tilboðin gera ráð fyrir, því það er mikilvægt að samanburðurinn sé raunhæfur eða  „að menn séu að bera saman epli og epli“. Smári segir að taki menn 30-60 mínútur á ári í þessa vinnu, sé það besta tímakaup sem þeir geti fengið.

Greiða iðgjöldin fyrirfram

Eitt af því sem hægt er að gera til að lækka tryggingaiðgjöldin, er að greiða þau fyrirfram fyrir árið, í stað þess að dreifa þeim niður á mánuði.  Þá er hægt að skipta greiðslum þannig að iðgjaldsár hverrar vátryggingar sé ekki á sama gjalddaga og borga eina tryggingu í janúar, aðra í mars og svo framvegis. Síðan má ekki gleyma að upplýsa tryggingafélagið ef breytingar verða á högum manna, til dæmis ef þeir flytja. Það er til að tryggja að allt sé innan skilmála.

 

Ritstjórn október 31, 2014 16:10