Mótmæla niðurskurði á Landspítala

Fulltrúar 44 samtaka mótmæla harðlega þeirri lækkun fjárframlaga til reksturs Landspítalans sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. Í ályktun sem þessi samtök sendu frá sér í dag segir:

 Við blasir að það rekstrarfé sem gert er ráð fyrir á fjárlögum mun ekki duga til að Landspítalinn háskólasjúkrahús geti veitt þá þjónustu sem lög kveða á um. Til að Ísland geti talist velferðarríki verður heilbrigðisþjónusta landsins að standast þær kröfur sem gerðar eru til sjúkrahúsa á Norðurlöndum“

Bent er á að aðbúnaður starfsfólks spítalans hafi í sumum tilvikum verið heilsuspillandi og reynst hafi óhjákvæmilegt að sækja viðhaldsfé að hluta í rekstrarfé spítalans sem þrengi enn frekar að starfseminni. Slíkt gangi ekki lengur þar sem sérhæft starfsfólk leiti annað og sérfræðilæknar skili sér ekki heim að loknu námi.

Iðulega hefur nýting legudeilda farið yfir 100% en æskilegt er að þetta hlutfall sé ekki hærra en 80%. Á þessum álagstímum verði æ erfiðara fyrir starfsfólk spítalans að sinna sjúklingum eins og best væri á kosið. Einnig fjölgar þá gangainnlögnum sem óhjákvæmilega eykur smithættu. Þegar slíkar aðstæður verða viðvarandi dregur enn úr möguleikum spítalans til að keppa við önnur lönd um sérhæft starfsfólk. Ekki síst nú á tímum hættulegra farsótta“.

Önnur meginkrafa samtakanna 44, er að Landspítalinn standi undir nafni sem háskólasjúkrahús, ella versni gæði menntunar í heilbrigðisgeiranum. Þá segir í ályktuninni að frá árinu 2000 hafi spítalinn nær árlega verið í spennitreyju við fjárlagagerð. Áhrif hrunsins árið 2008 þekki svo allir. Embætti landlæknis hafi í tvígang birt skýrslur þar sem fram komi afleit staða húsnæðismála, á geðdeild og á lyflækningasviði sem sé stærsta svið spítalans. Ennfremur segir.

Einungis 4% salerna á spítalanum standast byggingareglugerð og enn þurfa 4-6 sjkúklingar víða að liggja saman á stofum og deila salerni. Slík staða eykur enn frekar á sýkingarhættu, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, og er líkt og innlagnir sjúklinga á ganga með öllu óviðunandi“.

Samtökin skora á ríkisstjórn, fjárlaganefnd og Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu til að tryggja að umhverfi sjúklinga og aðstaða starffólks og nema standist bæði lög og þann metnað sem íslensk þjóð vill sína.

Þau samtök sem hér um ræðir, eru nánast öll sjúklingasamtök í landinu, auk Félags eldri borgara í Reykjavík og Öryrkjabandalagsins.

Ritstjórn október 23, 2014 11:54