Fá „spóaleggi“ með aldrinum

Mikið hefur verið fjallað um rannsóknir Janusar Guðlaugssonar, lektors við Menntavísindasvið HÍ, áhrif fjölþættrar þjálfunar á heilsu eldra fólks. Rannsóknirnar sýna fram á að markviss þjálfun með áherslu á þol- og styrktarþjálfun bætir heilsu eldra fólks og eykur hreyfigetu umtalsvert. Þannig getur þessi aldurshópur notið lífsins lengur en ella og búið lengur heima. Sjá grein Lifðu núna um þessar rannsóknir hér.

Vöðvarýrnun og spóaleggir

Janus telur sérstaklega mikilvægt að auka vöðvastyrk hjá eldra fólki, til að vinna gegn vöðvarýrnun sem eykst jaft og þétt eftir 60 ára aldur. Eftir sjötugt er vöðvarýrnunin orðin 3-5% af vöðvamassanum á hverju ári. Fólk missir þá styrk í fótum og getur fengið „spóaleggi“. Það má áætla að eldri Íslendingar hreyfi sig að meðaltali í um 15 mínútur á dag ef tekið er mið af niðurstöðum rannsókna, sem Janus segir að sé of lítið. Hann segir að þeir þurfi að hreyfa sig að lágmarki í hálftíma á dag. Styrktaræfingar þarf eldra fólk að stunda minnst tvisvar í viku til að auka vöðvastyrk og koma í veg fyrir vöðvarýrnun.

Tilgangurinn að auka styrkinn

Rannsóknir Janusar sýndu að vöðvastyrkur jókst hjá þeim sem tóku þátt í rannsókn hans. Þátttakendur voru látnir æfa eftir ákveðnu æfingarfyrirkomulagi. Hreyfijafnvægi og almenn hreyfigeta jukust einnig. Janus segir að tilgangur æfinganna sé ekki að fólk grennist, heldur umbreyti sinni líkamssamsetningu og bæti þannig styrkinn á kostnað fitunnar. „Sveitarfélögin þurfa að breyta áherslum og úrræðum fyrir eldri borgara og skapa umgjörð fyrir þá til að stunda fjölþætta heilsurækt“, segir Janus.

 

Ritstjórn júlí 14, 2015 11:00