Hvað á að gera við allar bækurnar?

Einar Sigurmundsson blaðamaður skrifar

Íslendingar eru bókaþjóð og samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árin 1999 – 2010 eru um fimm bækur gefnar út á hverja eitt þúsund íbúa. Sambærilegar tölur fyrir önnur Norðurlönd eru tvær til tvær og hálf bók á hverja eitt þúsund íbúa. Árið 2011 voru gefnar út á Íslandi 1.501 bók og ef tekin eru saman tíu ár, frá 2001 til 2011 er fjöldi bókartitla 16.868.

Árið 2013 var velta innlendrar bókaútgáfu á bilinu 4,5 til 4,7 milljarðar og er það svipað og árin á undan. Það er því óhætt að segja að mikið sé af bókum í umferð á Íslandi.

Oft er það þannig að þegar árin færast yfir, fer fólk að hugsa um að minnka við sig húsnæði. Fólk sem hefur búið í allstórum húsum ákveður að selja og fá sér minni íbúð ef til vill í fjölbýli þar sem aðrir sjá um viðhald á húseign, að hirða garðinn og svo framvegis. Þá þarf einnig að minnka við sig búslóðina og ef fólk hefur safnað bókum í mörg ár, þá vaknar spurningin: Hvað á að gera við bækurnar sem ekki komast fyrir í nýju íbúðinni? Fólki er yfirleitt ekki sama um bækur og má helst ekki til þess hugsa að henda þurfi bókum, en hvað er þá til ráða?

Fornbókabúðir

Freistandi væri að koma svona bókasöfnum í sölu en þá er ekki mörgum bóksölum til að dreifa. Árið 1967 voru í Reykjavík ellefu fornbókabúðir, en í dag er þar aðeins ein búð, sem verslar með notaðar bækur og er það Bókin á Klapparstíg. Auk þess má nefna að í Kolaportinu eru seldar notaðar bækur. Á Akureyri er starfrækt Fornbókabúðin Fróði og á Selfossi selur Sunnlenska bókakaffið notaðar bækur, svo eitthvað sé til talið. Svo eru til bókamarkaðir á netinu þar sem reynt er að selja bækur en það krefst töluverðrar vinnu og yfirlegu.

Ákaflega erfitt er að koma svona bókasöfnum í verð, en í stuttu samtali við Ara Gísla Bragason fornbókasala hjá Bókinni segist hann kaupa notaðar bækur en þá þarf að senda honum lista yfir þær bækur sem fólk vill losa sig við og mun þá starfsmaður fara yfir og velja úr ef eitthvað þykir fýsilegt. Hann sagði einnig að bækur frá 1910 og þaðan af yngri væru ekki góð söluvara því yfirleitt væru þær til í mjög mörgum eintökum.

Að gefa bækur

Mörgum finnst skárra að gefa bækurnar sínar heldur en að henda þeim. Borgarbókasfan Reykjavíkur tekur ekki við bókasöfnum. Þar er örsjaldan tekið á móti bókum sem að verða þá að vera nýlegar. Í Góða hirðinum er hinsvegar tekið á móti bókagjöfum. Fara skal þá með bækurnar í gám sem merktur er Góða hirðinum, en þannig gám er að finna á öllum endurvinnslustöðvum Sorpu. Bækurnar eru svo seldar og andvirðið rennur til góðgerðarmála. Svipaða sögu er að segja af félagasamtökunum Samhjálp, þar er tekið við gömlum bókum, en ekki heilu söfnunum, þar sem samtökin hafa ekki ótakmarkað geymslupláss.

 

 

Ritstjórn október 31, 2014 11:32