Um sjötugt og enn á toppnum

Breska leikkonan Helen Mirren fer með eitt aðalhlutverkanna í kvikmynd Lasse Hallström, The Hundred-Foot Journey, sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum í Reykjavík, Akureyri og í Reykjanesbæ. Hún fjallar um indverska fjölskyldu sem sest að í fallegu þorpi í Suður-Frakklandi og opnar veitingastað. Þar fara Indverjarnir í samkeppni við franskan Michelin veitingastað sem er rekinn að konunni sem Helen Mirren leikur. Æsast þá leikar.

Helen Mirren ásamt meðleikurum í nýju myndinni þeim Manish Dayal og Om Puri

Helen Mirren ásamt meðleikurum í nýju myndinni þeim Manish Dayal og Om Puri

Foreldrarnir andvígir leiklistinni

Helen Mirren sem á eftir eitt ár í sjötugt er margverðlaunuð leikkona. Hún fæddist í London í júlí árið 1945 og átti rússneskan föður og breska móður. Hún fékk snemma áhuga á leiklist, en foreldrum hennar leist ekkert á dóttirin legði hana fyrir sig og sendu hana í kennaraskóla, svo hún yrði fær um að sjá sér farborða á heiðarlegan hátt!   En leiklistin kallaði og þegar hún var tvítug lék hún Kleópötru í verki sem hét Antony og Kelopatra. Uppúr því fór boltinn að rúlla, hún lék í nokkrum leikritum og fór að vinna í kvikmyndum í kringum 1980. Fljótlega fór hún að vinna til verðlauna fyrir leik sinn.

Sló í gegn í sakamálaþætti

Hún sló í gegn í hlutverki leynilögreglukonunnar Jane Tennisson í sjónvarpsþáttunum Prime Suspect, en tökur á þeim hófust árið 1992. Hún hlaut fimm BAFTA verðlaun og var nokkrum sinnum tilnefnd til Emmy verðlauna fyrir leik sinn í þáttunum. Síðan þá hefur hún unnið til margra verðlauna fyrir leiklist. Meðal mynda sem hún hefur leikið í eru Gosford Park og The Queen, þar sem hún fór með hlutverk Elísabetar Englandsdrottningar. Hún var tilnefnd til Óskarsverlauna fyrir leik sinn í Gosford Park og fékk Óskarsverðlaun fyrir hlutverk Elísabetar í The Queen.

Barnleysi hefur gefið frelsi

Þrátt fyrir að Helen Mirren héti því ung að giftast aldrei, gekk hún í hjónaband árið 1997. Sá lukkulegi var Taylor Hackford, leikstjóri, en þau kynntist við tökur á myndinni White Nights árið 1985. Þau eiga hús bæði í Los Angeles og London. Helen Mirren á tvo stjúpsyni, en þau hjónin eignuðust ekki börn saman. Hún segist ekki trega það, segir að það sé lán fyrir sig að hafa ekki eignast börn. Það hafi gefið henni frelsi. Þótt þau hjónin hafi unnið saman í kvikmynd, finnst henni ekki auðvelt að vinna með eiginmanninum. Hún segir að þau séu bæði fagmenn hvort á sínu sviði og sér finnist æðislegt að hitta manninn sinn „á setti“ og vera bara konan hans. Þegar hjón vinni saman blandist hlutverkin saman. Annað hvort verði það of þægilegt, sem sé ekki gott því það sé ekki sérlega skapandi, eða óþægilegt sem sé heldur ekki gott.

 

Ritstjórn september 17, 2014 18:42