Erfitt að breyta nokkru á meðan ASÍ og SA styðja skerðingarnar

„Það er neikvætt fyrir lífeyrissjóðina hvað skerðingarnar í almannatryggingakerfinu eru miklar“ segir Þorbjörn Guðmundsson sem lét af formennsku í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða síðast liðið vor, en hann er stjórnarmaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Þorbjörn Guðmundsson

Lífeyrissjóðirnir töldu skerðingarhlutfallið of hátt

Þorbjörn hefur áður tjáð sig um að skerðingarnar séu of miklar í almannatryggingakerfinu og þær skapi neikvætt viðhorf hjá almenningi gangvart lífeyrissjóðunum. Í  umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarpið til almannatrygginga sem varð að lögum um áramótin 2016-2017, kom afstaða lífeyrissjóðanna skýrt fram. Þeir töldu skerðingarhlutfallið í kerfinu of hátt. Alþingi tók ekki tillit til þessara athugasemda lífeyrissjóðanna, enda studdu bæði ASÍ og SA að skerðingarnar yrðu  í 45% og þessi samtök eru samningsaðili við ríkið þegar kemur að lífeyriskerfinu. Það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hækkaði skerðingarnar eftir hrunið úr 38,8% í 45%. Það var ætlunin að þær lækkuðu aftur í lok árs  2013, en þá stóð yfir endurskoðun almannatryggingalaganna. Nefndin sem endurskoðaði lögin lagði hins vegar til að ellilífeyrir yrði hækkaður og að skerðingarhlutfallið hækkaði aftur í 45%.  Frítekjumark vegna atvinnutekna var hins vegar lækkað í þeirri viðleitni að einfalda almannatryggingakerfið, en hækkað aftur í byrjun árs 2018.

Blasti við að kerfið gengur ekki upp

„Flestir fóru betur út úr þessari lagabreytingu, en ekki þeir sem höfðu haft atvinnutekjur“, segir Þorbjörn. Hann segir að þó að þessi einskiptisaðgerð, þegar lífeyririnn var hækkaður, hafi nýst mönnum vel, þá hafi það blasað við að kerfið gengi aldrei upp með svona miklum skerðingum. Þær hafi verið rökstuddar með því að stór hluti fólks væri með svo mikil almenn réttindi í lífeyrissjóðunum að það ætti að geta framfleytt sér að mestu af lífeyrissjóðstekjunum. „Mér finnst að þarna hafi menn farið frammúr sér. Það er ekki komið að því  hjá langstærstum hluta þeirra sem eru með lífeyri frá lífeyrissjóðunum, að þetta gangi upp. Það gerir það kannski eftir 10-15 ár. Skerðingarnar eru alltof miklar miðað við hversu lítil réttindin eru ennþá í lífeyrissjóðunum. Það er ekki hægt að bjóða fólki uppá það í dag að lifa við aðstæður sem verða ekki að veruleika fyrr en eftir 10-15 ár“, segir hann.

Vill Landssamband eldri borgara taka kjaramálin yfir?

Þorbjörn bendir á að samtök eldri borgara geti átt samstarf við Landssamtök lífeyrissjóða hvað þetta varðar. Þau vinni að því að dregið verði úr skerðingunum þó þau beri ekki ábyrgð á þeim og það sé brýnt að koma í gang ferli til að breyta þessu. „Við hjá lífeyrissjóðunum höfum ekki fundið dæmi um jafn miklar skerðingar og á Íslandi“, segir hann og bætir við að það verði gríðarlega erfitt að breyta þessu ef ASÍ og SA séu á móti því.  Hann telur að Félög eldri borgara og Landssamtök þeirra þurfi að leggja það niður fyrir sér hvort þau vilji taka kjaramál eldra fólks yfir til sín. Vilji þau það, þurfi þau að móta sínar kröfur og hamra á þeim. Eða vilja félögin gera þetta í samvinnu við verkalýðshreyfinguna? „Það þarf að hugsa þetta og ræða og kalla þá til samstarfs sem geta haft áhrif“, segir hann.

Skoða að fara með málið til Mannréttindadómstólsins

Það er ekki vafi á því í huga Þorbjörns að samspil lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins vinnur gegn lífeyrissjóðunum. En til að breyta þessu þyrfti að leggja meira fé inní almannatryggingakerfið til einhverra ára og það er ekki gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að framlög til kerfisins verði aukin á næstu árum umfram það sem fellur til vegna fjölgunar eldri borgara.  Wilhelm Wessman sagði í pistli hér á síðunni fyrr í vikunni að það ætti að höfða mál til að fá skerðingunum hnekkt. „Það er ein leið, en það tapa flestir svona málum gegn ríkinu nema í þeim tilfellum þegar ákvaðanir ríkisins byggja ekki á lögum. Ég myndi fyrirfram ekki hafa mikla trú á að svona mál gæti unnist, en það myndi vekja athygli á málefninu.  Það sem við ættum að skoða, er hvort þessar gríðalega miklu tekjutengingar takmarki ekki svo mikið aflahæfi eftirlaunafólks að það stangist á við stjórnarskrána. Það er áhugavert að láta reyna á skerðingar á aflahæfi og fara dómstólaleiðina, og hugsanlega fara með það fyrir Mannréttindadómastól Evrópu“ , segir Þorbjörn.  „Þessar miklu tekjutengingar eru óásættanlegar“.

 

Ritstjórn júlí 19, 2018 11:59