Ný ríkisstjórn ætlar að hækka frítekjumark eftirlaunafólks

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var kynntur í dag. Ný  stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlar að setja heilbrigðismál í forgang.  Þar er stefnt að öryggri og góðri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu. Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna. Þá er stefnt að því að minnka greiðsluþáttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni og ljúka byggingu meðferðarkjarna Landsspítalans við Hringbraut árið 2023. Þá á að bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu í hinum dreifðu byggðum, meðal anars með því að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Áhersla er einnig á að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga.

Mikið var rætt um stöðu eldri borgara fyrir síðustu kosningar og lýstu allir flokkar því yfir að það væri rétt að lágmarkseftirlaun yrðu 300.000 krónur á mánuði.  Margir eldri borgarar hækkuðu í launum um áramót með nýjum lögum um almannatryggingar sem þá tóku gildi, en einhverjir lækkuðu. Margir hafa lýst óánægju með að frítekjumark atvinnutekna var lækkað úr rúmlega 100 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund krónur.  Heilbrigðismálin eru vissulega mikilvæg fyrir marga í þessum hópi, en í nýja stjórnarsáttmálanum eru fimm setningar sem snúa eingöngu að eldri borgurum og elstu kynslóðinni.

Aukinn þungi verður settur í uppbyggingu öldrunarþjónustu, sérstaklega heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Unnið verður að fjölgun rýma í dagþjálfun aldraðra og biðtími styttur.

Og um lífeyrismálin segir eftirfarandi:

Lífeyrisaldur hækki í áföngum. Aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað.

Hér má sjá kosningaloforðin fyrir síðustu kosningar.

 

Ritstjórn janúar 10, 2017 17:41