Endurskoðun lífeyriskerfisins gengur hægt

Árni Stefán Jónsson

Árni Stefán Jónsson

„Starfshópurinn er kominn með drög að skýrslu. Það verður hins vegar ekki skrifað undir neitt samkomulag fyrr en búið er að ganga frá launamálum opinberra starfsmanna,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, stéttarfélags í almannaþágu. Lítið hefur þokast í starfi hópsins síðustu mánuði.

Nefnd skipuð fyrir fimm árum

Það var árið 2010 sem fjármálaráðherra skipaði starfshóp sem á að hafa það hlutverk með höndum að setja fram til tillögur um hvernig hægt sé að samþætta lífeyriskerfi landsmanna, svo allir lífeyrisþegar sitji við sama borð. Í dag njóta opinberir starfsmenn betri lífeyrisréttinda en þeir sem eru á almenna markaðnum. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar stéttarfélaga og stjórnvalda. Skýrsla um „Nægjanleika lífeyrissparnaðar“ kom út í febrúar þar kemur fram að að þriðjungur launamanna nær ekki markmiðum um 56 prósent lífeyrishlutfall af ævitekjum og í skýrslunni

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

kemur líka fram að karlar njóta nærri fjórðungi hærra lífeyris en konur. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sagði á Alþingi eftir að skýrslan kom út að þetta væri grafalvarlegt mál. Hún spurði Bjarna Benediktsson fjármálráðherra að hvað liði endurskoðun á lífeyriskerfinu og hvort hann teldi ásættanlegt að kynbundinn launamunur ykist á lífeyrisaldri.

Tekið langan tíma

Bjarni sagði að vinna við endurskoðun á lífeyriskerfinu sem staðið hafi yfir í fjármálaráðuneytinu, gangi fyrst og fremst út á það að finna leiðir til að jafna mun milli kerfanna, þannig að réttindaávinnsla í opinbera geiranum verði áþekk því sem gerist á almenna markaðinum. „Til þess þarf að taka á nokkrum undirliggjandi vandamálum, í fyrsta lagi hinum ófjármagnaða hluta skuldbindinga ríkisins. Í öðru lagi þurfum við að fara í þá meiri háttar kerfisbreytingu að hætta með jafna lífeyrisréttindaávinnslu og færa okkur yfir í aldurstengda ávinnslu. Það þarf að taka á bakábyrgð ríkisins á opinberu sjóðunum. Þau félög sem ríkið hefur átt í samtali við vilja jafnframt að samhliða svona breytingum verði farið ofan í saumana á því hvernig kjörin

Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson

almennt eru hjá opinberum starfsmönnum borið saman við almenna markaðinn ef lífeyrisréttindin eiga að verða jöfn. Þessi vinna hefur tekið afar langan tíma. Það sem liggur þó fyrir, óháð niðurstöðu þeirrar vinnu, er að við getum ekki beðið mikið lengur með að grípa til aðgerða vegna ófjármagnaðra skuldbindinga. Við höfum verið að ýta því á undan okkur á haustin undanfarin ár að taka á þeim vanda,“ sagði Bjarni. Frá því þessi orð féllu í febrúar á þingi hefur samkvæmt því sem Lifðu núna hefur fregnað lítið þokast í vinnu nefndarinnar.

 

Ritstjórn september 4, 2015 12:29