Páll Benediktsson fyrrverandi fréttamaður RÚV

Bók fyrir hundafólk og ekki hundafólk

Páll Benediktsson fyrrum fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu sagði allt geðveikt gott að frétta af sér, þegar Lifðu núna hafði samband við hann til að forvitnast um hvað hann væri að gera þessa dagana. Hann starfar sem ráðgjafi og rithöfundur og er einmitt nýbúinn að fá í hendur bók sem hann var að gefa út. „Margir myndu segja að þetta væri hundabók“, segir hann og hlær. Hann segist hafa fengið hvolp fyrir ári og bókin fjalli um hann. Hún heitir Kópur – Mjási, Birna og ég. „Þarna fjalla ég um aðstæður okkar með Kóp fyrsta árið, ég spjalla við hann um menn og málefni og við förum vítt og breitt. Við ræðum um samfélagsmál, fréttir og dægurmál, kvenréttindi, húsnæðisbasl, enska boltann og bara hitt og þetta. Það er líka sagt frá uppvexti hans og námskeiðunum sem hann fer á.  Ég uppfræði hann í okkar samtölum og svo hefur hann líka skoðanir á hlutunum. Ég lít á þetta sem samfélagsrýni og ádeilu, en sumir líta ugglaust bara á þetta sem hundabók.  Bókin er bæði fyrir hundafólk og þá sem ekki eru hundafólk“, segir Páll hress í bragði.

Páll starfaði lengi sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu, en færði sig svo um set, vann í stuttan tíma hjá fasteignafélaginu Landic Property, en tók við starfi fjölmiðlafulltrúa hjá Slitanefnd Landsbankans eftir hrun og starfaði við það í næstum áratug.  Fyrir tveimur árum gaf hann svo út fyrstu bókina sína, Loftklukkuna, en í henni segir hann sögur forfeðra sinna og mæðra. Móðurafi hans var kallaður Palli pól, en hann var lögreglumaður nr. 2 í Reykjavík, uppúr aldamótunum 1900. Hann skrifaði dagbækur og sektaði til dæmis mann um 2 krónur fyrir að keyra yfir Tjarnarbrúna. Föðurafi Páls, Árni Benediktsson varð kveikjan að skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Höll minninganna og í bókinni er farið yfir ævi hans.

Störfin fyrir slitastjórn Landsbankans eftir hrun voru unnin á tímum mikillar ólgu í samfélaginu en Páll segir að vinnan þar hafi verið gríðarlega lærdómsrík og gefandi. „Því miður var lítill skilningur í samfélaginu á því risavaxna verkefni sem við fengumst við, en árangurinn var ótrúlega góður og heimtur margfalt meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona, þjóðfélaginu öllu til góðs. Ég er sannfærður um að þegar tímar líða verði starfið metið að verðleikum, sem það sannarlega á skilið“.

„Ég var hjá Ríkisútvarpinu í tæpan aldarfjórðung. Fimm ár hjá útvarpinu og 18 ár hjá Sjónvarpinu“, heldur Páll áfram. Hann segist einskis sakna úr fréttamennskunni. „Nei ekki að ræða það. Þetta var orðið svolítið þreytt þegar ég hætti, eilíf peningavandræði og þegar ég tók fimmhundraðasta viðtalið við Kristján Ragnarsson og vissi betur en hann hverju hann myndi svara, þá fannst mér þetta orðið gott“, segir hann. Aðspurður hvað sé það skemmtilegasta sem hann hafi gert á starfsævinni segir hann: „Það verður að segjast að störfin hjá Sjónvarpinu voru ótrúlega fjölbreytt. Maður kynntist mörgum og fór víða, bæði heima og heiman. Verkefnin voru lífleg og margs konar. Ég vann til dæmis í þáttagerð á köflum, milli þess sem ég var í fréttunum, en þegar ég var farinn að endurtaka mig, var tímabært að breyta til“.

Páll er ánægður með þróun samfélagsmiðla, sem honum finnst breikka möguleika fólks til að tjá sig. „Mér finnst hins vegar einhæfni í hefðbundnum fréttamiðlum.  Það vantar fjölbreytnina. Sem gömlum Ríkisútvarpsmanni finnst mér mikil þörf á að efla RÚV eins og kostur er, bæði til að tryggja hlutleysi fjölmiðlanna í landinu og eins til að gera því kleift að efla alvöru fréttaskýringar“.

 

Ritstjórn ágúst 1, 2018 10:32