Nokkrir höfðu lesið Sextíu kíló af sólskini

Ásdís Skúladóttir

Undir hatti félagins U3A Rekjavík, sem er alþjóðlegur félagsskapur, er starfandi Bókmenntahópur. Hann hefur starfað frá allt frá stofnun félagsins og er alltaf jafn vinsæll. Lifðu núna bað Ásdísi Skúladóttur að fá klúbbinn til að skoða nýjustu jólabækurnar og lýsa því hvaða bækur hópnum þættu mest spennandi.  Ásdís setti saman þennan skemmtilega pistil um bókaklúbbinn og jólabækurnar.

 

Bókmenntahópur U3A hittist yfir vetrartímann þriðju hverja viku í Hæðargarði 31. Þá „ber fólk saman bækur sínar“ í orðsins fyllstu merkingu. Mikið er rætt og „diskúterað“ fram  og til baka . Hver og einn skýrir frá því hvað hann er að lesa og síðan er spjallað fram og aftur. Það má segja að þessi hópur sé ekki einhamur því það er gífurlegur fjöldi bóka sem koma til umræðu á fundum og það allar tegundir af bókmenntum. Það kemur líka fyrir að hópurinn fær til sín bókmenntafræðinga og stundum er eitt skáld lesið framar öðru og þegar þeirri yfirferð er lokið af okkar hálfu, þá reynum við að fá viðkomandi skáld  á fund til okkar og ræða við okkur.

Í haust lagði hópurinn megin áherslu á að lesa verk Einars Kárasonar. Vitanlega var fyrst lesin nýjasta bók hans Stormfuglar og var fólk sammála um að þar væri mögnuð bók ferðinni sem eindregið mætti mæla með. Einnig voru lesnar og endurlesnar hans fyrri bækur – ekki versnuðu þær við að lesa þær aftur. Þar má nefna Djöflaeyjuna sem er hrein snilld og síðan var horft á kvikmyndina um sömu sögu. Hún er einnig dásemd undir einstakri leikstjórn Friðriks Þórs. Einar Kárason er mikill og snjall sagnamaður og það fundum við hvað best þegar hann kom í heimsókn á jólafund hópsins ásamt konu sinni Hildi Baldursdóttur bókasafnfræðingi. Hildur var einn af stofnendum Bókmenntahópsins fyrir margt löngu ásamt Matthíasi Johannessen skáldi og rithöfundi.

Hópurinn virðist vera með puttana á púlsinum, því lesið var upp úr ljóðabók Bubba Mortens „Rof“ á síðasta almenna fundi og nú hefur hann hlotið þann heiður að komast á listamannalaun. Nokkrir höfðu lesið „60 kíló af sólskini“ eftir Hallgrím Helgason sér til mikillar ánægju aðrir en sögðu hana „þunga“ í rúmi. Sjómaðurinn í hópnum sagði Útkallsbókin: „Þrekvirki í Djúpinu“ vera eina af bestu ef ekki bestu Útkallsbókina. Einhver hafði lesið „Skúla fógeta“ eftir Þórunni J. Valdimarsdóttur og þótti bókin einsakleg góð enda varla við öðru að búast af hendi Þórunnar.

Það er nú svo að á Íslandi eru bækur því miður lúxusvara og venjulegir eftirlaunamenn rjúka ekki út í búð og kaupa sér þær bækur sem þá langar í. Fólk fer á biðlistana hjá Bókasafninu og vonast auðvitað eftir að fá bækur í jólagjöf. Þar komu til tals bækur eins og „Hið heilaga orð“, eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, „Listamannalaun“ eftir Ólaf Gunnarsson, og síðast en ekki síst „Ungfrú Ísland“ eftir Auði Övu Ólafsdóttur.

Svo má alls ekki gleyma að geta bókarinna „Hinir útvöldu“, sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingi. Það þótti mönnum er lesið höfðu einkar fróðleg og skemmtileg bók enda Gunnar Þór þekktur fyrir að ná gífurlega vel til fólks með frásagnarhætti sínum. Þeir sem áhuga hafa á sagnfræði ættu ekki að láta þá bók fram hjá sér fara. Mikið hefur verið skrifað um jónas frá Hriflu og nú er enn ein bókin komin út þar sem hann kemur allverulega við sögu. Bókin heitir  „Ærumissir“ og er eftir Davíð Loga Sigurðsson. Það var aldrei lognmollan í kringum Jónas. Það er verulega gaman að fletta og skoða bókin „Þjóðhöfðingjar Íslands“ eftir Veru Illugadóttur. Alveg þess virði að eiga þá bók sem gott uppflettirit. Síðan má nefna bókina „Horfið ekki i ljósið“ eftir Þórdísi Gísladóttur en hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín. Konungur og drottning sakamálsögunnar á Íslandi eru auðvitað Yrsa og Arnaldur. Þau klikka ekki. Síðan hafa sprottið upp fjölmargir prinsar og prinsessur við þeirra hlið svo sem Lilja Sigurðardóttir með söguna „Svik“, Ragnar Jónsson, „Þorpið“ Sólveig Pálsdóttir, „Refurinn“ , Guðrún Guðlaugsdóttir með „Erfðaskráin“, það verður því enginn skortur á góðum löggusögum um jólin. Svo eru vitanlega allar ævisögurnar t.d „Henny Hermanns“ skráð af Margréti Blöndal, „Hornauga“ Ásdísar Höllu Bagadóttur, „Hasím“ skráð af Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, „Níu líf„ skráð af Sigmundi Erni. Fleiri bækur mætti svo sannarleg telja upp sem gaman væri að fá í jólagjöf.

Við í bókmenntahóp U3A í Reykjavik vonum að sem flestir eigi sinn yndislestur á jólanótt. Svo má ekki gleyma að lesa Kapítólu. Gleðileg jól!

Ásdís Skúladóttir

 

Ritstjórn desember 20, 2018 09:46