Tíu mest lesnu greinar ársins á Lifðu núna

Lesendum Lifðu núna fjölgar ár frá ári og árið 2020 var þar engin undantekning. Það kom nokkuð á óvart þegar mest lesnu greinarnar á vefnum á þessu ári voru skoðaðar að grein með fyrirsögninni, Hversu oft eigum við að fara í bað? var mest lesna greinin á árinu. En viðtöl við fólk sem er komið yfir miðjan aldur vekja einnig mikla athygli. Fólk sem komið er á þann aldur hefur frá mörgu að segja. En hér er listinn yfir mest lesnu greinarnar.

  1. Hversu oft eigum við að fara í bað?

Það kemur í ljós í þessari þýddu grein að sérfræðingar hafa ekki endilega sömu skoðun á baðferðum og við sjálf.

„Þegar kemur að því að bæta heilsuna, er hins vegar hreint ekki víst að dagleg sturta skipti miklu máli, segir Dr. Robert Shmerling, við læknadeild Harvard háskóla. „Satt að segja getur það jafnvel verið slæmt fyrir heilsuna að fara í sturtu á hverjum degi,“ segir hann.

Það eyðir rakanum úr húðinni að þvo sér og skrúbba á hverjum degi, hún getur orðið þurr og menn geta fundið fyrir kláða  segir í greininni. Þetta eigi sérstaklega við um eldra fólk, en húðin verði þynnri með aldrinum, tapi raka og verði viðkvæmari. Bakteríur eigi greiðari aðgang í gegnum þurra og sprungna húð og geti valdið sýkingum og ofnæmisviðbrögðum“.

  1. Var auglýst í Morgunblaðinu

Úrsúla E. Sonnenfeld

Þetta viðtal vakti mikla athygli enda er saga Úrsúlu E Sonnenfeld afar óvenjuleg. Foreldrar hennar voru bæði þýsk. Faðir hennar var gyðingur og tannlæknir sem flutti til Íslands skömmu fyrir heimstyrjöldina seinni.  En móðir hennar hafði lært ljósmyndun í Danmörku og  fékk síðar tilboð um vinnu hjá Lofti  Guðmundssyni ljósmyndara í Reykjavík.

„Árið 1943 sáu þau auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem kona, sem lá á fæðingadeild Landspítalans auglýsti eftir foreldrum fyrir ófætt barn sitt. Þau ákváðu að sækjast eftir þessu barni en þarna var móðir mín orðin 44 ára gömul en faðir minn 34 ára. Þau fóru frá Siglufirði til Reykjavíkur til að sækja mig en þá stóðu þau frami fyrir því að á sama tíma hafði fæðst lítill drengur á spítalanum sem vantaði líka heimili. Faðir minn vildi taka okkur bæði en móðir mín treysti sér ekki til að taka að sér tvö ung börn orðin þetta fullorðin. Af þessu vissi ég ekki fyrr en löngu seinna. Ég hélt að þau væru bara mamma mín og pabbi en sannleikurinn átti eftir að koma í ljós“.

  1. María Guðmundsdóttir fyrirsæta og ljósmyndari (Hvar eru þau nú?)

María Guðmundsdóttir.

Nafn Maríu Guðmundsdóttur var lengi sveipað töfraljóma, en hún bjó og starfaði lengi erlendis. Lesendur Lifðu núna höfðu því töluverðan áhuga á hvað hún væri að gera núna og greinin um hana var því mikið lesin. María er nú orðin 78 ára gömul og nýtur líðandi stundar í ríkum mæli eftir erilsama ævi.

“Ég vakna á morgnana, svona bara þegar ég er útsofin,” segir María og brosir. “Það getur verið allt frá sex til níu, þá les ég fréttir í rólegheitum og nýt þess að vera til. Þegar ég er spurð hvað ég sé að gera þessa dagana segist ég vera að “ganga frá”. Ég  tók mig til fyrir allnokkru og safnaði saman  myndum og úrklippum sem eru til af mér í gegnum tíðina. Og þar sem ég er barnlaus þótti mér ekki góð tilfinning að hugsa til þess að eftir minn dag yrði þessu öllu hent,” segir María og hlær svolítið feimnislega. “Mér þótti upplagt að ég myndi dunda mér við að koma skipulagi á þetta allt saman nú þegar ég hef tíma,” segir hún“.

  1. Barnaleg og glöð er lífeyrismálin erfið

Brynja Nordquist er líka kona sem lesendur Lifðu núna voru forvitnir um, á árinu sem er að líða, en hún er komin á eftirlaun.  Hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu.

Í miðju viðtalinu fór Brynja að tala við „Google home“ sem var eitthvað að trufla hana. Hún sagðist reyndar líka vera með „Siri” og spyrji hana um hvað sem er. Það sé bæði svo skemmtilegt og mjög nytsamlegt að kunna þetta. „Ég sé að ég er duglegri en margir á mínum aldri að nýta mér tölvur og símaforrit og finn til með konum sem eru einar og hafa ekki haft tækifæri til að efla þessa kunnáttu sína. Hræðsla við nýja tækni er eitt af því sem hamlar eldra fólki hvað mest. Ég er til dæmis að horfa á tengdaföður minn, sem er orðinn 85 ára, og sé hvað það gefur honum mikið að nýta sér tölvur og þá ekki síst Facebook. Þannig getur hann til dæmis verið í meiri samskiptum við börn og barnabörn en annars væri“.

  1. Símtalið breytti lífi beggja.

Margrét og Ársæll

Margrét Pálsdóttir íslenskufræðingur? og Ársæll Másson eru mikið í tónlist. Þau  þekktust sem unglingar og vissu alltaf hvort af öðru. Það var svo á efri árum sem þau tóku upp samband aftur.

„Ég fékk allt í einu símtal frá honum, en þá var ég búin að vera skilin í mörg ár. Ég var komin heim frá Þýskalandi og var búin að fara á einhver stefnumót með mönnum sem mér leist ekkert á. Hringir ekki síminn, bara Sæli á hinum endanum“, segir Margrét Pálsdóttir kennari, málfræðingur og tónlistarkona.

„Ég var þá skilinn og einhleypir vinir mínir voru að draga mig útá lífið. Ég nennti þessu ekki, fór bara heim“, rifjar Ársæll Másson stærðfræðingur og heimspekingur upp. „Svo datt mér í hug að það gæti verið gaman að vita hvað Gréta væri að gera, kíkti í símaskrána og sá ekki betur en að enginn karlmaður væri skráður á sama heimilisfang og hún.“

  1. Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs. (Hvar eru þau nú?)

Aðalheiður Héðinsdóttir.

Fyrir þrjátíu árum voru ung hjón  Eiríkur Hilmarsson og Aðalheiður Héðinsdóttir með bönin sín í Wisconsin í Bandaríkjunum, þar sem Eiríkur var í doktorsnámi.

„Aðalheiður er leikskólakennari að mennt en hafði ekki atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og var því mest í að njóta tímans með börnunum þeirra þremur. En þegar þau höfðu verið í Wisconsin í tvö ár ákváðu þau að framlengja dvölina í önnur þrjú því þeim líkaði sérlega vel þarna og þá fór Aðalheiður að vinna hjá manni sem rak kaffibrennslu og sá kenndi henni að brenna kaffi. “Þegar kom að því að flytja heim vissi ég að mig langaði að stofna kaffibrennslu,” segir Aðalheiður og þá var ekki aftur snúið.

  1. Fór ung á eftirlaun.

Viðtal við Jónu Ólöfu Emilsdóttur kennara sem ákvað að fara snemma á eftirlaun. En hún er langt í frá hætt að sinna áhugaverðum verkefnum.

Jónína íhugaði ýmsa möguleika þegar hún ákvað að hætta að vinna. Hún hafði um nokkurt skeið velt jógafræðum fyrir sér og var orðin forvitin um hvað það væri sem svo margir jafnaldrar hennar sæktu í um þessar mundir. “Eru þetta trúarbrögð eða tískufyrirbrigði,” spurði ég sjálfa mig. “Til að komast að því ákvað ég að fara í jógakennaranám. Og eftir pælingar komst ég að því að grunnurinn að jógafræðunum væri meðvitund miklu frekar en núvitund sem mér finnst vera tískuhlutinn af jóganu. Jógað kennir að maður verði að greina hvað það er sem skiptir máli í lífinu og hvað ekki og svarið er “kærleikurinn”. Þegar ég var búin að átta mig á því fann ég ákveðna hugarró í jógafræðunum sem er svo eftirsóknarverð. Kærleikurinn er grunnurinn í öllum trúarbrögðum ef út í það er farið.

  1. Gleði og hamingja og ekkert vesen!

Jakob og Guðmundur, sálufélagar til 35 ára.

Jakob Jakobsson og Guðmundur Guðjónsson reka og eiga einn skemmtilegasta veitingastað landsins, Matkrána í Hveragerði. Þeir hafa reyndar oftast verið kenndir við Jómfrúna, danska smurbrauðsstaðinn  í Reykjavík, en þann stað seldu þeir fyrir fimm árum. Þeim fannst spennandi að geta hætt að vinna um sextugt.

,,Við vorum í raun ekkert vissir um hvað við vildum gera á þeim tímapunkti og byrjuðum á því að taka okkur langt frí þar sem við nutum þess að ferðast vítt og breitt um heiminn. Þegar við vorum búnir að fá nóg af því settumst við niður og spáðum í lífið og tilveruna og þá sérstaklega í framtíðina. Við vorum ekki orðnir 60 ára og vorum til í að gera ýmislegt. Við áttum húsnæði hér í Hveragerði sem var í útleigu en þegar leigusamningurinn rann út stóðum við á krossgötum og við veltum því fyrir okkur að leigja húsnæðið áfram, breyta því í smærri einingar eða jafnvel selja það. Eins vorum við að spá í að stofna veislueldhús í Reykjavík. Eftir miklar vangaveltur stóð valið endanlega á milli þess að opna veislueldhús í bænum eða að opna veitingahús í Hveragerði. Þann 1. febrúar 2019 ákváðum við svo að opna Matkránna og þann 1. júní var staðurinn formlega opnaður.“

  1. Áður var það leikfimin en nú er það heilaleikfimin

Þóra Hallgrímsson

Þetta viðtal við Þóru Hallgrímsson var tekið skömmu áður en hún lést, níræð að aldri. Í viðtalinu minnti hún fólk á að reyna af fremsta megni að njóta hvers tímabils og sjá ljósu hliðarnar. Lífið bjóði uppá mismunandi aðstæður á mismunandi tímum

“Stundum hef ég hikað og hugsað með mér: „Ah, þetta er nú aðeins of mikið og hvað er nú ætlast til að ég læri af þessu? En þegar frá líður hefur yfirleitt komið í ljós að ég hef getað sagt við sjálfa mig: Já, það var sannarlega gott að ég upplifði þetta þótt það hafi verið erfitt á meðan á því stóð.” Niðurstaðan er því sú að Þóra lærði eitthvað af öllu því sem hefur hent hana um ævina. “Maður sér það bara ekki á meðan hlutirnir eru að gerast en öll él birtir upp um síðir. En  um leið og ég segi það veit ég að auðvitað komast ekki allir farsællega út úr lífinu. Það eru til aðstæður sem við ráðum ekki við. En vonandi erum við svo lánsöm hér á Íslandi að geta hjálpað þeim sem þurfa á því að halda. Ég hef sjálf verið heppin.”

  1. Erfiðustu verkefni lífsins

Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur segir meðal annars frá baráttu sinni við krabbamein í þessu viðtali, en hann greindist með lungnakrabba, sama sjúkdóm og konan hans Guðrún Ögmundsdóttir fyrrum þingkona Kvennalistans var að glíma við.

Tveim vikum síðar var Guðrún dáin. Þegar ég greindist var henni að byrja að hraka. Það tók mjög á,” segir Gísli. En einhvern veginn komst hann í gegnum þetta. Kannski með því að fresta eigin veikindum ef svo má segja og bægja þeim frá. Hann reyndi að vera sem mest hjá Gunnu og svaf á líknardeildinni nóttina sem hún dó en segir að margt sé eins og í móðu frá þessum tíma, það sé talið algengt í sambandi við sorg. “Ingibjörg dóttir mín var til dæmis að ræða við mig um daginn um símtalið þegar ég kynnti þeim andlátið. Það símtal mundi hún betur en ég, hún mundi öll smáatriðin,” segir hann.

 

 

Ritstjórn desember 31, 2020 08:09