Kærð fyrir hjúskparbrot og í tygjum við prins

 

Lengi var talið að ekki væri til mynd af Vilhelminu Lever en þessi fannst nýlega á Þjóðminjasafninu.

Lengi var talið að ekki væri til mynd af Vilhelminu Lever en þessi fannst nýlega á Þjóðminjasafninu.

Madame Vilhelmina Lever er fyrsta konan til að taka þátt í opinberum kosningum hér á landi árið 1863, 19 árum áður en takmarkaður hópur kvenna fékk kosningarétt til sveitastjórna hér. Akureyri öðlaðist kaupstaðarréttindi 1862. Ári síðar var kosið til bæjarstjórnar samkvæmt nýrri reglugerð, sem var þýdd og staðfærð úr dönsku. Samkvæmt henni höfðu kosningarétt allir fullmyndugir menn, (alle fuldmyndige Mænd), sem ekki voru hjú og höfðu verð búsettir í bænum síðasta árið og borguðu að minnsta kosti tvo ríkisdali í bæjargjöld. Vilhelmina féll undir þessi ákvæði en sumir telja að dönskukunnáttan hafi brugðist kjörstjórninni á Akureyri og því hafi Vilhelmina fengið að kjósa, menn hafi einfaldlega túlkað það svo að orðið Mænd í dönsku næði yfir bæði konur og karla.

Heiðruð með styttu

Bæjarstjórn Akureyrar hélt fund 16.júní síðast liðinn og þar var samþykkt samhljóða að keypt yrði listaverk til heiðurs Vilhelminu, þar sem hún var fyrst kvenna hér á landi til að kjósa. Listaverkið verður gjöf til bæjarbúa í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna til Alþingis árið 2015. Bæjarstjórn lagði til að bæjarstjóra yrði falið að leita til listakonu til að vinna verkið.

Kærð fyrir hjúskaparbrot

Vilhelmina var fædd 1. mars 1802. Hún var dóttir Hans Vilhelms Lever kaupmanns á Akureyri, sem kenndi Akureyringum kartöflurækt og fyrri konu hans Þuríðar Sigfúsdóttur. Gísli Jónsson (1925-2001) menntaskólakennari á Akureyri skrifaði grein um Vilhelminu í blaðið Íslending árið 1981 undir fyrirsögninni „Hún hafði gott hjarta“  Þar segir að Vilhelmina hafi gifst tvítug að aldri, Þórði Daníelssyni frá Skipalóni. „…en sá hafði framazt erlendis, lært garðyrkju og smíðar. Fluttust þau að Lóni og höfðu búshald tilkomumikið og kostnaðarsamt. Næsta ár flytjast þau til Akureyrar og tekur þá að togna á hjónabandinu en Vilhelmína var sögð „fríð sýnum og fagurlega áfót komin og vitur og blíð í viðmóti,“  segir í grein Gísla.  Árið 1825 kærir Þórður konu sína fyrir ítrekuð hjúskaparbrot og skilja þau skömmu síðar.

Orðuð við prins

Nokkru síðar eignaðist Vilhelmina son og  er orðuð við danskan prins. Árið 1833 kom til Akureyrar Friðrik danaprins, síðar Friðrik konungur 7.  „…sem hingað var sendur í hálfgildings útlegð fyrir bága hegðun heima fyrir. Var hann þá orðaður við Vilhelminu og hefur þá með meiru runnið á nafnið, því hann átti aðra Vilhelminu heima í Kaupmannahöfn. Eftir brotthvarf prinsins þarf að hyggja að alvöru lífsins. Fráskilin kona með óskilgetið barn á ekki allra kosta völ.  En Vilhelmina er hugdjörf og vill standa á eigin fótum,“ segir í grein Gísla. Hún hóf eigin atvinnurekstur, ól son sinn upp ein og kom honum til mennta.

Í eigin rekstri

Vilhelmina keypti lóð á Akureyri 1834 og byggði lítið hús og hóf þar verslun 1835. Hún var kölluð „borgarinna“ eða „höndlunarborgarinna.“ Árið 1846 seldi hún Þorsteini Daníelssyni verslunarhús sín og flutti út í Krossanes. Hún kom þó aftur til bæjarins 1852 og rak verslun og veitingasölu. Árið 1861 opnaði hún veitingasölu á Oddeyri og rak hana um árabil, var hún þá gjarnan kölluð „Vertshús-Mína“.

Andstreymi síðustu árin

Vilhelmina var fylgin sér og lét ekki hlut sinn. Hún kaus aftur til bæjarstjórnar á Akureyri árið 1866.  Hún andaðist 19. júní  1879, 77 ára að aldri. Síðustu árin voru henni andsnúin.  „…hún hafði lengi verið blind og veik og legið árum saman í rúminu. Kona þessi var einkar vel gáfuð og í mörgu tilfelli fágæt afbragðskona, og allt til þess, að hún varð blind og veik og lagðist í rúmið, framkvæmdar og starfssöm, veglynd og fús til hjálpar og velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra, að svo miklu leyti sem efni hennar framast leyfðu,“ sagði í blaðinu Norðanfara og í Norðlingi sagði:  Hún var einhver hin framkvæmdasamasta og duglegasta kona sinnar tíðar og hafði gott hjarta.

Ritstjórn júní 19, 2015 08:00