Hvar er partý?

Sjálfsagt hafa flestir sem orðnir eru miðaldra og eldri spurt í lok dansleikjar eða annarar skemmtunar: Hvar er partý? Í 27. tölublaði Vikunnar sem gefið var út sumarið 1965 er fjallað um partýmenninguna á Íslandi og það örlar á svolítilli hneykslun í skrifunum.

„Margir halda að partý séu nýtízkuleg fyrirbrigði hér á landi; að þau hafi verið lítill sem enginn liður í skemmtanalífinu fram á þessa öld. En þetta er alrangt. Íslendingar hafa aldalanga reynslu fyrir partíum og nægir að minna á Jörvagleðina frægu. Og glæsilegt partý var í Hruna þegar kirkjan sökk. En þetta nútímaform á partýum sem einkum eru haldin í heimahúsum hefur líklega orðið til hér á landi samhliða hernáminu og þeim margvíslegu þjóðfélagsbreytingum, sem þá áttu sér stað. Það er vitaskuld ekki hægt að skemmta sér til fulls á skemmtistöðum; hvorttveggja er, að þar er skemmtunin úti áður en nóttin er hálfnuð og svo hitt, að partý í heimahúsum skapa ýmiss skilyrði, sem ekki eru fyrir hendi á opinberum stöðum. Þegar danshúsin loka eru jafnan mýmörg partý í uppsiglingu og sumir eru höfðingjar og bjóða meðan húsrúm leyfir og hvort þeir þekkja fólk eða ekki. Þeir sem hafa áhuga ganga á milli manna og spyrja Hvar er partý – og venjulega gengur ekki erfiðlega að bjarga því sem eftir er af nóttinni. Það er eru haldin „bless-partý“ og það eru haldin töffa-partý. Það eru haldin intellectúel partý, þar sem allir eru óskaplega gáfaðir og það eru haldin ga-ga partý, þar sem allt er kolbrjálað. Svo eru venjuleg fylliríispartý, þar sem kvenfólk er ekki haft með. Og allskonar afbrigði af þessu eða allt saman. Það heyrir til hlutarins eðli, að íbúð gestgjafans sé eins og rúst á eftir og nokkrar kvartanir berist frá skapstyggum nágrönnum, sem ekki fengu svefnfrið. Vel lukkað partý stendur fram á morgun og að minnsta kosti þangað til öll vínföng eru búin. Ef þau klárast vonum fyrr, má fá flugvél með flösku eins og þeir gera í partýum á vertíðinni í Vestmannaeyjum. Sökum þess að við erum enn í flokki vanþróuðu landanna, þá vantar tilfinnanlega ýmis partý-afbrigði sem þykja sjálfsögð hjá menningarþjóðum.“   Nokkrar af þeim myndum sem birtust með partýgrein Vikunnar.  Greinilega frekar skammarlegt að vera í partýi því það er límdur borði fyrir augun á öllum þátttakendum.

 

Ritstjórn maí 12, 2015 14:41