Kjöt í karríi var oft á boðstólum fyrir nokkrum árum síðan en er orðið frekar fáséð á borðum landsmanna. Samt finnst flestu fólki það afbragðsgott. Við ákváðum að rifja upp gamla takta og bjóða upp á þetta hnossgæti. Uppskriftina fundum við á vefnum lambakjot.is. Hún er ætluð fyrir fjóra og það sem til þarf er:
1 kg súpukjöt, framhryggur eða annað lambakjöt á beini
1 l vatn
2 lárviðarlauf
pipar
salt
4 -5gulrætur
30g smjör
2- 3tsk. karríduft
2.5 msk. hveiti
Kjötið sett í pott. Ef bitarnir eru stórir er e.t.v. best að skipta þeim í minni bita. Köldu vatni hellt yfir og hitað að suðu. Froða fleytt ofan af. Lárviðarlaufi, pipar og salti bætt í pottinn og látið malla við fremur hægan hita í um 25 mínútur. Gulræturnar hreinsaðar, skornar í bita og settar út í. Látið malla í um 25 mínútur í viðbót. Þá er kjötið og gulræturnar tekið upp úr og haldið heitu. Smjörið brætt í öðrum potti. Karríduftinu stráð yfir, hrært og látið krauma í um 1/2 mínútu. Þá er hveitinu stráð yfir og hrært þar til það hefur samlagast smjörinu. Soði hellt saman við smátt og smátt, þar til sósan er hæfilega þykk, og hrært stöðugt á meðan. Látið malla í 5-10 mínútur. Svolitlum rjóma eða mjólk e.t.v. hrært saman við ogbragðbætt með pipar og salti eftir smekk. Kjötið borið fram með gulrótunum (eða soðnum kartöflum), hrísgrjónum og sósu.