Bókin Eyjan undir sjónum kom út fyrir 10 árum og segir frá ambáttinni Zarité, sem er kölluð Tété. Hún er barn svartrar móður og hvíts sjómanns á eyjunni Saint-Domingue fædd seint á átjándu öld, en eyjan var þá nýlenda Frakka. Í bernsku er hún ofurseld ótta og ofbeldi en finnur huggun í afrískum trumbutakti og vúdúgöldrum. Auðugur ungur plantekrueigandi, Toulouse Valmorain, kaupir hana handa spænskri eiginkonu sinni sem er sjúklingur – og einnig til eigin nota.
Tété hafði lært að vera eins og skynlaus sauðkind þegar hann vildi hafa afnot af henni, hún gerði sig máttlausa og sýndi enga mótstöðu meðan hugur og sál flugu annað, þannig að húsbóndinn lauk sér skjótt af og sofnaði síðan eins og rotaður selur.
Tété annast veika eiginkonuna og lítinn son þeirra hjóna Maurice. Sína eigin syni og húsbóndans fær hún ekki að ala upp. Hún sér jafnframt um húshaldið á plantekrunni. Hér á eftir fylgir stuttur kafli úr sögunni sem lýsir heimilislífinu á plantekrunni að kvöldlagi.
Hann drap tímann með því að lesa og spila á spil við Téte. Þetta voru einu stundirnar sem hún lét varnirnar síga og lifði sig inní spennu leiksins. Þegar hann kenndi henni fyrst að spila á spil vann hann alltaf en giskaði á að hún tapaði af ásettu ráði af ótta við að reita hann til reiði.“Ég hef ekki neina ánægju af þessu. Reyndu að vinna mig,“ krafðist hann og þá tapaði hann í hvert sinn. Hann velti fyrir sér undrandi hvernig þessi múlattastúlka gæti staðið jafnfætis honum í leik sem snerist um rökvísi, kænsku og fyrirhyggju. Það hafði enginn kennt Tété að reikna en hún henti reiður á spilunum af eðlisávísun á sama hátt og hún henti reiður á heimilisreikningunum. Tilhugsunin um að hún væri eins fær og hann gerði hann áhyggjufullan og ringlaðan.
Húsbóndinn neytti kvöldverðar snemma í borðstofunni, þriggja einfaldra og seðjandi rétta, aðalmáltíðar dagsins sem tveir hljóðlátir þrælar báru fram. Hann drakk nokkur glös af góðu víni, því sama og hann smyglaði til Sanchos mágs síns og var selt á Kúbu á helmingi hærra verði en það kostaði hann á Saint-Domingue. Þegar hann hafði lokið við ábætinn, færði Tété honum konjaksflöskuna og sagði honum frá gangi mála á heimilinu. Unga stúlkan leið áfram berfætt eins og hún svifi í lausu lofti en hann heyrði lágvært hringlið í lyklunum, skrjáfið í pilsunum og hitann frá nærveru hennar áður en hún birtist. „Sestu, ég kæri mig ekki um að þú talir yfir höfðinu á mér,“ sagði hann á hverju kvöldi. Hún beið eftir þessari skipun og settist svo skammt frá honum, sat þráðbein í stólnum með hendur í kjöltu og horfði í gaupnir sér. Í kertaljósinu var reglulegt andlitið og grannur hálsinn eins og skorinn út í tré. Ílöng og hálflukt augun tindruðu í gullnu skininu. Hún svaraði spurningum hans áherslulaust, nema þegar hún sagði frá Maurice, þá varð hún lífleg og hældi öllum hans prakkaraskap eins og afreksverkum. „Það hlaupa allir strákar á eftir hænum, Tété,“ sagði hann spaugsamur en innst inni trúði hann því líka að þau væru að ala upp snilling.
Eyjan undir sjónum er stórbrotin saga, þrælahalds og uppreisna á Saint-Domingue. Hún er spennandi og hlaðin þeirri frásagnargleði sem einkenndi margar fyrstu bækur Allende. Hún fjallar í bókinni um ástir og örlög margra eftirminnilegra persóna, húsbænda og þræla og flótta þessa fólks frá eyjunni. Tété, endar að lokum í New Orleans, eins og fleiri þrælar frá Saint-Domingue. Þetta er bók sem er erfitt að leggja frá sér áður en maður er búinn að lesa hana.