Mikið fjör á jólahlaðborðum Hótel Arkar

Gunnar Þorláksson veislustjóri.

Mörgum finnst algerlega ómissandi að fara á jólahlaðborð í aðdraganda jólanna. Okkur finnst stundum eins og þetta sé gamall siður en því fer fjarri það eru ekki nema um 40 ár síðan fyrst var boðið upp á jólahlaðboð á veitingahúsi á Íslandi. Nær öll veitingahús landsins bjóða upp á jólahlaðborð í einhverri mynd. Fjölbreytnin er orðin ærin.  Hótel Örk hefur í nokkur ár boðið upp á jólahlaðborð með dagskrá og veislustjóra.

„Veislustjórinn ákveður í hvaða röð þeir sem sitja við borðin ganga að hlaðborðinu. Hann stjórnar skemmtiatriðum og segir brandara. Ég hef þann háttinn að ég segi almenna brandara sem allir skilja. Þá er fjöldasöngur og fólk tekur vel undir. Eftir borðhaldið er svo dansað. Tangó og tjútt er það sem er vinsælast. Það er mikið fjör og allir skemmsta sér hið besta,“ segir Gunnar Þorláksson sem hefur verið veislustjóri á jólahlaðborðum Hótel Arkar í Hveragerði undanfarin ár.

Wilhelm Wessman hótelráðgjafi sagði í stuttri grein, fyrir um ári síðan, á Lifðu núna frá tilurð jólahlaðborðanna. „Jólahlaðborðin á veitingastöðum er danskur siður sem rekja má til stríðsáranna 1940-1945. Á þeim árum var allur matur skammtaður og  erfitt að fá hráefni til að laga hátíðarrétti. Þá byrjuðu fjölskyldur, vinir eða heilu hverfin í Kaupmannahöfn að taka sig saman og slá í púkk, einn átti síld annar grísalæri sá þriðji reykta grísasíðu osfrv. Síðan var fengið félagsheimili eða veitingahús fyrir fagnaðinn, en gestir keyptu öl og snafsa af veitingamanninum. Eftir stríð héldu veitingamenn í Danmörku þessum sið og buðu upp á julefrokost í desember. Ég kynntist þessum sið fyrst í lok áttunda áratugarins, en þá var nánast útilokað að fá borð á veitingahúsum Kaupmannahafnar allan desembermánuð. Á sama tíma stóðu öll veitingahús í Reykjavík  tóm frá lok nóvember og fram á Þorra. Ég tók þennan sið upp á Hótel Sögu og var fyrsta Jólahlaðborðið haldið í Grillinu 21. desember 1980 og stóð í tvo daga. Árið á eftir byrjaði ég viku fyrir Jól og gekk það vel. Jólahlaðborðið var að dönskum sið. Við buðum meðal annars upp á síldarrétti, graflax, reyktan lax, grísasteik, reykt grísalæri, rifjasteik, heita lifrarkæfu með beikoni og sveppum, grísasultu, ýmis salöt og ljúffenga eftirrétti. Við buðum líka upp á þjóðlega rétti eins og heitt og kalt hangikjöt, steikt lambalæri og sviðasultu,“ sagði Wilhelm.

Hótel Örk hefur í nokkur ár boðið eldri borgurum að kaupa jólahlaðborð á hagkvæmari kjörum en öðrum bjóðast. Eldri borgarar allt frá Kirkjubæjarklaustri í austri og í Borgarfirði í vestri eru boðnir velkomnir á hlaðborðin. Fólk getur keypt jólahlaðborðið eða keypt jólahlaðborð, gistingu og morgunverð. Hér er hægt að fræðast nánar um jólahlaðborðin.

Ritstjórn nóvember 6, 2018 09:13