Leikstjóri í hálfa öld

Sveinn Einarsson leikstjóri hefur ekki setið auðum höndum eftir að hann komst á eftirlaunaaldur. Síðan þá hafa fjórar bækur komið út eftir hann og hann hefur sett upp á annan tug sviðsverka. „Ef maður hefur einhvern tíma verið leikstjóri losnar maður aldrei við bakteríuna“ segir hann. „Ég hef á síðustu árum verið í minni verkefnum og það má segja að ég sníði mér stakk eftir vexti, eða aldri“ segir hann og hlær. Hann segist vera svo heppinn að sjá ekki út úr augum fyrir verkefnum.

Búinn að leikstýra í hálfa öld

Baldursbrá verður frumsýnd í Hörpu 29.ágúst

Baldursbrá verður frumsýnd í Hörpu 29.ágúst

Sveinn er núna að setja upp ævintýraóperuna Baldursbrá sem verður frumsýnd í Hörpu 29 ágúst. Tónlistin er eftir Gunnstein Ólafsson en textinn eftir Böðvar Guðmundsson. Sveinn stjórnaði síðast stórum óperuuppfærslum árið 2008, þegar hann setti óperurnar Cavalleria Rusticana og I Pagliacci á svið fyrir Íslensku óperuna. „Ég geri ráð fyrir að Baldursbrá verði síðasta stóra sýningin mín“ segir hann og bætir við að hann hafi verið að rifja það upp, að í haust verði 50 ár liðin síðan hann byrjaði leikstjórnarferilinn. „Fyrsta verkefnið mitt í leikhúsinu var að setja upp „Sjóleiðina til Bagdad“ eftir Jökul Jakobsson en Jón Nordal samdi tónlistina við verkið“, segir hann.

Ástmaður óperunnar

„Ég stenst ekki óperuna, ég segi það alveg eins og er. Ég er ástmaður óperunnar og veikari fyrir henni en öðrum verkefnum. Ég hef alltaf verið áhugamaður um íslenska frumsköpun og er stoltur af að hafa tekið þátt í slíkum verkefnum. Þetta er fjórða frumóperuuppfærslan sem ég tek þátt í. Fyrst var það Silkitromman eftir Atla Heimi, síðan Fredkulla sem er elsta ópera Noregs, þá Grettir eftir Þorkel Sigurbjörnsson og núna þessi“ segir Sveinn.

Ísland er Baldursbrá

Baldursbrá minni mynd„Ég er mjög hrifinn af þessu verki. Texti Böðvars Guðmundssonar er skemmtilegur eins og hans er von og vísa og tónlistin eftir Gunnstein er lifandi, aðgengileg og iðandi bæði af gamansemi og dramatík. Svo finnst mér efnið ekki síst eiga erindi við okkur, en þetta er er ævintýri eða dæmisaga. Mér finnst ég vera Baldursbrá, mér finnst þú vera Baldursbrá, mér finnst Ísland vera Baldursbrá. Í verkinu hefur Baldursbrá verið tæld til að trúa því að það sé betra líf hinum megin við lækinn. Hún uppgötvar svo að það er best að vera á eigin rótum“ segir Sveinn um verkið.

Ekki setja fólk útaf sakramenntinu þó það eldist

Hann hefur fengið með sér ýmsa reynslubolta úr leikhúsinu til að setja óperuna á svið. Sigurjón Jóhannsson sér um leikmyndina, Messíana Tómasdóttir er með gervin og Ingibjörg Björnsdóttir með hreyfingarnar. Páll Ragnarsson sem áður var í Þjóðleikhúsinu sér um ljósin. Sveinn segist fylgja þeirri stefnu að reynsla skipti máli. „ Það þarf ekki alltaf að setja fólk útaf sakramenntinu þó það eldist. Þvert á móti á að nýta þekkingu þess og reynslu“.

Höfðar til allra aldursflokka

Baldursbrá er fjölskyldusýning. Fjöldi barna tekur þátt í henni og ungir söngvarar fara með fjögur hlutverk. Sveinn telur að verkið eigi alveg erindi við nútímabörn sem eru vön tölvum og sjónvarpi. Það muni fá greind börn til að hugsa og sé gríðarlega skemmtilegt. Baldursbrá hefur í tvígang verið flutt opinberlega sem tónverk „Og ég gat ekki betur séð en að það höfðaði til allra aldursflokka. Nú líkamnast verkið á sviði og ég sé ekki betur en þetta ætli að virka vel, ég er með svo góða áhöfn“ segir Sveinn að lokum. Sýningarnar á Baldursbrá verða einungis fjórar, þannig að þeir sem vilja sjá óperuna þurfa að hafa hraðar hendur til að útvega sér miða.

 

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 25, 2015 12:06