Blaðamaður Lifðu núna hefur alla ævi notað vöffluuppskrift frá Helgu Sigurðar sem er hreint ótrúlega góð og var fengin hjá tengdamömmu á sínum tíma. Það sem gerir útslagið er að eggjarauður og hvítur eru skildar að í uppskriftinni og þannig verða vöfflurnar léttari í sér, auk þess sem þær eru mjög bragðgóðar. Dröfn Vilhjálmsdóttir sem er með matarbloggið Eldhússögur gerir þetta líka en myndin hér að ofan er fengin að láni hjá henni. Hún segir að sér þyki vöfflurnar meira „fluffy“ þannig.
Uppskrift Helgu sem skrifaði fjölda matreiðslubóka á síðustu öld hljóðar þannig:
2 egg
1 msk sykur
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
Kardimommur
3-4 dl. mjólk eða rjómabland
80 gr. smjörlíki
Fita til að steikja úr.
Aðferðinni lýsir Helga svo þannig:
Eggjarauður og sykur þeytt saman. Hveiti, lyftidufti og kardimommum sáldrað í, og samhlíða er mjólk og rjóma hrært út í og bræddu smjörinu. Að endingu er stífþeyttum eggjahvítum blandað í. Vöfflujárnið er hitað og smurt með smjörinu sem haft er í grisju. Deigið látið í miðju járnsins. Því lokað. Snúið við og bakað þar til vafflan er gulbrún báðum megin. Staflað í bunka. Bornar fram með sykri, sýrópi eða aldinmauki og við betra tækifæri þeyttum rjóma.
Þess má geta að blaðamaður Lifðu núna notar ævinlega léttmjólk í vöfflurnar, smjör í stað smjörlíkis og kardimommudropa, ekki duft. Að sjálfsögðu eru nútíma vöfflujárn líka þannig að það þarf ekki að snúa vöfflunum við í þeim. Dröfn hjá Eldhússögum notar súrmjólk í vöfflurnar og það væri ekki úr vegi að prófa það við tækifæri. En galdurinn er að skilja að eggjarauðurnar og hvíturnar.