Verðum að hlýða Víði

Nú gengur allt út á kórónuvírussmit og allir eru með hugann við nærumhverfi sitt. Okkur datt í hug að fá fréttir af ástandinu í sveitinni og fyrir svörum varð Drífa Björk Jónsdóttir. Hún býr á Ormsstöðum í Grímsnesi og vinnur á garðyrkjustöðinni Ártanga. Hún er garðyrkjufræðingur að mennt en áður en hún fór í garðyrkjuskólann hér á landi hafði hún starfað sem kerfisfræðingur í rúm 20 ár og menntaði sig til þeirra starfa í Danmörku. “Þegar ég áttaði mig á að ég gat ekki beðið eftir að komast út í garð eftir skrifstofuvinnuna ákvað ég að söðla um og mennta mig í garðyrkjufræðum,” segir Drífa. “Mér hugnaðist betur að vinna með lifandi hluti en dauða.” Drífa segir samt að öll menntun nýtist og kerfisfræðin komi sér ágætlega þar sem hún sjái m.a. um skráningar á Ártanga og um að koma framleiðslunni inn í gagnagrunn. Hún flutti í sveitina 2010 og er því búin að vera þar í 10 ár. Systir hennar, Karen Jónsdóttir, býr á Ormsstöðum og Drífa segist snemma hafa sótt í sveitina til stóru systur svo það var ekki skrýtið að hún skyldi endað þar.

Í sveitinni þar sem Drífa býr er fólk meira og minna að vinna við matvælaframleiðslu svo hún segir að flestir séu þess vegna í sjálfskipaðri sóttkví. Hún veit ekki til þess að neinn hafi smitast af veirunni en fólk sé mjög varkárt og samtaka. Ef einn þurfi að fara í búð lætur hann vita og fær pantanir frá öðrum sem losna þá við að fara sjálfir. “Okkar vinna verður ekki unnin í fjarvinnu,” segir Drífa og hlær. “Við verðum að að geta mætt alla daga. Nú er vorið á næsta leyti svo það er nóg að gera heima við. Nú hafa hótelin minnkað pantanir svo um munar og fermingarnar féllu niður svo þá seljast blómin ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir. Við verðum bara að vona að fólk vilji fegra heimilin með blómum og elda meira heima. Þessu fárviðri mun linna og þangað til verðum við bara að halda sjó og hlýða Víði og reyna að smitast ekki. Svo verðum við bara viðbúin þegar allt fer af stað aftur.”

Drífa segir að hún og vinir hennar hafi átt pantaða miða á tónleika og kósýhelgi í bænum. “Svona fagnaðir fara nú í bið og við hlökkum bara til að upplifa allt þetta skemmtilega þegar við getum farið um aftur. Þetta er ekkert mál fyrir okkur fullorðna fólkið sem er ekki með lítil börn en þetta ástand er mikið álag fyrir þá sem eru með börn í skóla. En ef við hjálpumst öll að gengur stormurinn yfir fyrr en varir,“ segir Drífa og kvartar ekki.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 31, 2020 08:05