Góður undirbúningur sparar fé og fyrirhöfn

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk  Valsdóttir fasteignasali hjá Húsaskjóli segir mikilvægt fyrir fólk í íbúðaleit að gera sér grein fyrir þörfum sínum og forgangsraða samkvæmt þeim. „Stundum kemur til mín fólk, sem veit ekkert að hverju það er að leita. Það fer í opnu húsin í 1-2 ár en finnur aldrei réttu eignina af því að það hefur ekki lagt niður fyrir sér hvernig húsnæði það vill kaupa“, segir hún „Það skiptir öllu máli að vita að hverju menn eru að leita, uppá tímann og orkuna sem fer í að finna réttu eiginina. Tímanum er vel varið í að eyða einni viku í að rökræða við makann, eða  börnin ef þau eru að aðstoða þig, um það sem skiptir máli í íbúðakaupunum.  Það fer rosaleg orka í að skipta um húsnæði og því eldri sem menn eru, því skemmri tíma vilja þeir eyða í leit að draumaeigninni“.

Þeir sem ekki vilja viðhald skoði ekki eldra húsnæði

„Það er líka gott að setja málin strax í ferli, ef þú þarft lán farðu þá í greiðslumat sem fyrst.  Til að byrja með þarf að finna út hversu stóra íbúð fólk vill kaupa. Ef þú þarft þrjú svefnherbergi, eitt gestaherbergi og annað  fyrir skrifstofu heima, þá þarftu ekki að skoða tveggja herbergja íbúðir, þú skoðar bara fjögurra herbergja íbúðir. Ef þú vilt ekki húsnæði sem þarf viðhald, en vilt lyftu, þá skoðar þú ekki eldra húsnæði án lyftu. Ef þú vilt bílskýli, þá er hægt að útiloka húsnæði þar sem slíkt er ekki að finna og svo framvegis. Þannig þarf fólk að ákveða, hvað það vill og hvað það vill ekki. Þetta eru frumatriðin. Næst þarf að velta fyrir sér í hvaða sveitarfélagi fólk vill búa. Þurfa barnabörnin að geta komið gangandi til þín? Fólk sem er í sumarbústað á sumrin, vill ef til vill búa í stórri blokk. Þá eru áhyggjurnar minni af því að brotist verði inn á meðan það er í burtu“, segir Ásdís og ljóst að það er að mörgu að hyggja þegar menn ætla til dæmis að minnka við sig.

Eyða of miklum tíma og peningum

„Stundum eru hjón ekki búin að ræða nægilega vel saman um íbúðakaupin,“ segir Ásdís  „en gefa sér að makinn vilji það sama og þau sjálf. Konan vill kannski yfirbyggðar svalir, en karlinn ekki, hann vill geta grillað úti á svölunum. Þetta er fólk jafnvel ekki  búið að ræða og ver því tíma og peningum í óþarfa.  Börnin koma iðulega með eldri foreldrum og þá  skiptir máli að allir séu upplýstir um þarfirnar og hvernig eign foreldrarnir vilja kaupa. Það sparar ergelsi bæði hjá maka og börnum sem ætla að finna réttu íbúðina fyrir pabba og mömmu“.

Gerið lista yfir þarfirnar

Ásdís hvetur fólk til að taka viku í að gera lista og fara yfir hann saman. „Komið með hann til fasteignasalans og þá er fljótlegt að finna út hvað hentar. Menn sjá svo ef til vill að þeir vilja færri svefnherbergi og stærri stofu. Það er dýrt spaug að kaupa ranga íbúð, því þegar fólk flytur þarf að mála og breyta og hugsanlega kaupa nýjan sófa í íbúðina, af því að sá gamli passar ekki inn í stofuna. Það geta fokið í þetta nokkrar milljónir. En þetta er nákvæmlega eins og með allt sem þú gerir. Þú þarft að gera þér grein fyrir hvað þú þarft, rétt eins og þú ferð út í búð með innkaupalista eða bakar köku eftir uppskrift. Stundum undirbýr fólk sig minna fyrir að kaupa íbúð, en að baka köku“, segir hún.

Þarfagreining

Hér á eftir eru leiðbeiningar um hvernig gera má lista yfir þarfirnar sem fólk hefur við kaup á íbúð, en Ásdís segir mikilvægt að gera greinarmun á þörfum og löngunum. Er það hverfið, stærðin eða jafnvel tegund eignar sem skiptir mestu máli?  Tökum eldri hjón sem vilja selja stóra sérhæð með bílskúr í eldra húsi í Kópavogi, minnka við sig og fá stæði í bílageymslu. Listinn gæti litið svona út.

  • Kópavogur.
  • Tvö rúmgóð svefnherbergi.
  • Lyfta
  • Stæði í bílageymslu
  • Baðker og sturta
  • Verð 65 milljónir króna.
  • Svalir með síðdegissól.

Ásdís segir að hjá Húsaskjóli sé mælt með því að fólk verji góðum tíma í að hugsa um hvað skipti mestu máli við kaupin á draumaeigninni. „Það getur sparað fólki gífurlegam tíma og utalsverða fjármuni, við að finna réttu eignina“, áréttar hún að lokum.

 

Mætti setja inn tengiliðaupplýsingar um mig?

Ritstjórn apríl 28, 2020 08:13