Hefur þér tekist að njóta lífsins?

Sem ungum manni fannst mér það skylda mín að njóta lífsins. Þetta var niðurstaða sem leiddi af íhugun um hörmungar síðustu aldar. Það var ekki síst eftir heimsókn í þrælkunarbúðir stríðsáranna sem þessi hugmynd fór að láta á sér kræla. Ef ekki væri hægt að gera sér lífsreynsluna ríkulega hefði ég ekkert svar við öllum þessum skelfingum. En er manni í sjálfsvald sett að stýra lífi sínu þannig? Er ekki nær að segja að lífið skapi manni örlög og maður þurfi að taka því sem að höndum ber? Slíkar spurningar munu alltaf vega salt, það er hlutskipti mannsins. Það er hægt að njóta lífsins á marga vegu og mörg lífsnautnastefnan getur leitt í ógöngur. Ef til vill er tími til kominn að maður spyrji sig: hefur þér tekist þetta?

Ég verð að viðurkenna að það er enn spennandi að vera til. Að fylgjast með börnunum sínum marka sér nýjar brautir og opna gáttir sem áður voru mér huldar. Að njóta þeirra forréttinda að fá að hugsa upphátt með nemendum sem eru að leggja út í lífið, um leið að hjálpa þeim að móta sér lífsskoðanir. Margt áþekkt hefur gert líf mitt auðugt og gerir enn. Fyrir það get ég þakkað. En svarar það spurningunni um lífsnautnina „frjóu“ sem ég leitaði? Líklega er þetta meira í ætt við að taka því sem að höndum ber. Hvað felst í því að njóta lífsins sem ég gerði að siðferðilegri skyldu? Til að svara því er þörf að líta til baka. Eða fram og til baka.

Sem ungur maður lifði ég í stöðugum ákafa og notaði listirnar til að auka mér lífsreynslu. Auðvitað fylgdu því erfiðleikar og sálarháski þar sem vitundin á það til að reka sig á ýmsa veggina eins og hún Guðrún í Gilsbakkaþulu var vöruð við. Eftir því sem árin færast yfir hefur sú orka sem þessi ákafi studdist við dvínað. En það þýðir að nú verður maður að vanda betur til verka hvernig orkan er nýtt. Ef hægt er að tala um einhverja visku sem lífið hefur fært mér þá er það helst í því að beina þeirri orku sem manni er enn gefin og vera meðvitaðri um þá fullnægju sem það færir. Líklega er það allnokkuð. Allavega rek ég mig ekki eins oft á veggina og áður. Þó þarf maður endrum og sinnum að reka sig á þá ef ekki nema til að vita að sálarháskinn getur gert vart við sig.

 

 

 

Ritstjórn júlí 1, 2020 13:40