Líkamsrækt lífsstíll en ekki átak

Bára Magnúsdóttir hjá Dansrækt JSB, sagði í morgun að konur hefði verið duglegar að mæta í leikfimi núna í upphafi fyrstu vinnuviku ársins.   En hjarðhegðun Íslendinga væri þannig, að þegar verslanir væru opnar til klukkan 10 á kvöldin rétt fyrir jól, þyrftu allir að fara og versla og um áramót ætluðu allir að byrja í líkamsrækt. „Við reynum að vera ekki að ýta undir þetta“ segir Bára. „Ræktin er einfaldlega hluti af lífinu og það þarf ekki að gíra sig upp og æfa á annan í jólum til að sýna hvað maður er duglegur“.

Hljómar eins og plat

Hún segir mikilvægt að hafa sjálfsöryggi og stjórna sinni líkamsrækt sjálfur. Það hafi lítið uppá sig að vera að taka þátt í alls kyns keppni, að hjóla, synda eða eitthvað annað sem stöðugt sé verið að hvetja fólk til að vera með í. Það verður þannig að fólk fer að þenja sig til að gera eitthvað sem allir eru að gera. „Þetta er það leiðinlega við líkamsræktina, auglýsingamennskan“ segir hún,“ því það þarf alltaf að vera að finna upp eitthvað nýtt og nýtt. Þetta hljómar eins og plat og er það líka oftast nær“.

Líkamsræktin hluti af lífinu

„Eins og slagorðið „Í kjólinn fyir jólin, það fer mjög í taugarnar á mér, segir Bára. Menn eigi að losa sig við aukakílóin sama á hvaða árstíma það sé. „Það má ekki nota þessi auglýsingatrix sem upptakt að líkamsræktinni“,segir Bára „Hún á einfaldlega að vera hluti af því sem fólk gerir í hollustu og lífsstíl.  Menn þurfa að passa sig að vera ekki með stöðugar afskanir.  Það er vont veður, eða, mér líður ekki nógu vel.  Menn eiga einfaldlega að temja sér þennan lífsstíl“.

 

Ritstjórn janúar 9, 2015 10:29