Þarf ekki að bera veislurnar utaná sér um ókomna tíð

„Ég hef borðað alltof lítið, ég hef eyðilagt brennsluna“, er setning sem Bára Magnúsdóttir hjá JSB segist stundum heyra. Þessu vísar hún alveg á bug. Ef við fitnum er það af því að við borðum of mikið en ekki of lítið“,segir hún og segir að það sé auðvelt að borða minna. „Meðalmanneskja þarf 2400 hitaeiningar á dag og ef við borðum minna en það verðum við svangar. Þess vegna skiptir ekki öllu máli hvort við borðum aðeins minna, eða hvort við minnkum matinn hressilega og léttumst, við verðum ekkert svengri fyrir það“, segir hún við konurnar sem sækja námskeið hjá henni til að losa sig við aukakílóin. Það sé jafnvel nóg að fá sér vatnssopa sé maður svangur. „Líkaminn á nóg, hann getur þá bara tekið af hægra lærinu“, segir hún og skellir sér á lær. Hún talar líka um sjö daga regluna. Þá skiptir máli hversu margar hitaeiningar þú innibyrðir sjö daga í röð. Ekki í einn og einn dag, heldur sjö daga. „Oft þegar maður er farinn að standa í stað, án þess að það sé meiningin, er gott að grípa til sjö daga reglunnar til að koma sér í gang aftur. Það ef nefnilega svo stutt bilið milli þess að standa í stað og að léttast“.

  • Ef þú ert undir 14 þúsund hitaeiningum í 7 daga í röð eru mestar líkur á að þú léttist.
  • Ef þú ferð í 16 þúsund hitaeiningar á sjö dögum, eru mestar líkur á að þú standir í stað.
  • Ef þú ferð í 17-20 þúsund hitaeiningar á dag, eru mestar líkur á að þú þyngist.

„Allir sem við þekkjum eru ofaldir“,segir Bára „líkaminn hefur svo mikla aðlögunarhæfni“. En hún segir að menn eigi að miða fæðuinntökuna við eina viku í einu, eða sjö daga. Ef menn borða of mikið einn dag vikunnar, er hægt að borða minna næsta dag og jafna þetta út, þannig að hitaeiningarnar fari ekki yfir 14000 á 7 dögum. „Þannig kemst maður í gegnum allar veislur lífsins án þess að bera þær utaná sér um ókomna tíð“, segir Bára.

Ritstjórn febrúar 1, 2016 10:55