Ástríða Gauta og Hildigunnar

James Bond?… Nei, Gauti Grétarsson. Svona er hægt að líta út á miðjum aldri ef maður hugsar um skrokkinn. (Mynd tekin 2017)

Það hefði verið viðbúið að Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari og Hildigunnur Hilmarsdóttir íþróttakennari kynntust í íþróttum en svo var ekki. Það var nú samt ekki á barnum. Þau eru bæði komin á miðjan aldur, hann fæddur ‘60 og hún ’62 og þau reka Sjúkraþjálfun Reykjavíkur sem Gauti stofnaði 1988 ásamt þremur félögum. Hún var handboltaþjálfari hjá Gróttu í 24 ár þangað til hún fór að vinna sem leikfimiþjálfari í Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. Þau Gauti og Hildigunnur eiga þrjú börn og barnabörnin eru orðin fimm. Þau búa bæði að því að hafa komið frá heimilum þar sem stunduð var bæði mikil útivera og hreyfing. Móðir Hildigunnar var íþróttakennari sem var sjálf í handbolta, körfubolta og frjálsum íþróttum. Fósturfaðir hennar var í landsliðinu í körfubolta og síðar landsliðsþjálfari. Hildigunnur ólst því upp við alls konar íþróttir og hún hætti ekki í keppnisíþróttum fyrr en hún var orðin 34 ára gömul, þá búin að eignast þrjú börn. Þetta segir hún að hafi verið óvenjulegt því stelpur hafi undantekningalítið hætt þegar þær eignuðust fyrsta barn. Nú hafi þetta breyst mikið sem betur fer.

Ólst upp í víðáttunni á Nestinu

Gauti ólst upp á Seltjarnarnesi þar sem var stutt í náttúruna. “Ég fór snemma með mömmu í fjöruna og upp í holtið og ég vissi seinna að hún notaði náttúruna til að kenna mér. Sjórinn og öldurnar, fjaran og útsýnið á fjöllin var endalaus uppspretta fræðslu. Ég lærði því snemma að það var ekki nóg að fara bara út að ganga og hlaupa heldur þurfum við að upplifa umhverfið. Ég predika núna endalaust mikilvægi þess að krakkar upplifi umhverfi sitt,” segir Gauti og ákafinn og ástríðan fyrir málefninu er áþreifanleg. Hann fór fljótlega að bera út blöðin sem barn og segir að það hafi verið geysilega fín þjálfun því hann hafi alltaf verið að keppast um að vera sem fljótastur hringinn sem hann þurfti að fara á hverjum degi. Gauti fór síðar að æfa handbolta en nú er golfið tekið við og hann er núna kominn í öldungalandsliðið í golfi.

Gauti og Hildigunnur á golfvellinum.Hann fann hana í sundi

Gauti hafði sótt um í sumarlöggunni og í tengslum við það var farið með nýliðana í sund til að prófa þá. Hildigunnur segist hafa varið löngum stundum í Laugardalslauginni í próftímanum á vorin. Í minningunni segir hún nefnilega að það hafi alltaf verið sól og blíða þegar námsmenn þurftu að sitja inni yfir skólabókum. Hún  tók bækurnar þess vegna bara með á sundlaugarbakkann í sólbaðið. “Þar var Gauti við æfingar með lögreglunni og hann kom auga á mig. Þar hittumst við í fyrsta sinn en það eina sem ég mundi þegar ég sagði stelpunum frá þessum strák var að hann væri með ótrúlega falleg blá augu,” segir Hildigunnur og hlær.

Leikfimihópurinn AGGF eldist á skemmtilegan hátt 

Ári eftir að Gauti stofnaði stöðina stofnaði hann leikfimihóp sem fékk nafnið Afrekshópur Gauta Grétarssonar fimleikastjóra eða AGGF. Í þessum hópi eru nokkrir sem hafa verið nánast öll árin með Gauta og eftir því er tekið í hversu góðu formi þessir menn eru. Og nú er líka starfræktur kvennahópur sem nýtur geysilegra vinsælda og hefur verið starfræktur í 8 ár. Farið er í ferðir, haldnar árshátíðir og tímamótum fagnað. Leikfimihóparnir fara í fjallgöngur saman og svo hittist einn hópur á laugardögum til að æfa sig í golfi og annar hittist við Vesturbæjarlaug og fer í göngutúr eða hjólar. Markmið Gauta og Hildigunnar er að fá fólk til að breyta um lífsstíl um leið og það kemur í leikfimi tvisvar í viku. Þannig náist besti árangurinn. Þar fyrir utan er boðið upp á styrktar, liðleika – og tækniæfingar fyrir golfara, hlaupara, fótboltamenn og krakka í öllum íþróttum.

Gauti og Hildigunnur 1984 í Bandaríkjunum að borða hamborgara.

Reynum að vekja fólk til umhugsunar

Þau Gauti og Hildigunnur fóru til Bandaríkjanna á námskeið 1984 sem hét “Fitness for life” sem var einmitt námskeið í þeim anda sem þau segjast vinna eftir. “Við höfum alltaf lagt ríka áherslu á að fólk breyti um lífsstíl því flestir eru þrælar vanans,” segir Gauti. “Það er ekki nóg að koma bara í leikfimi til okkar tvisvar í viku heldur er nauðsynlegt að fólk skoði heilsuna sína heildstætt og taki þátt í því  á hverjum degi að hreyfa sig á fjölbreyttan hátt. Lengi hefur verið talað um forvarnir í heilbrigðiskerfinu en það eru oft orðin tóm því ekki eru settir nægilega miklir fjármunir í þennan málaflokk. Margir vilja fara til læknis til að fá skyndilausnir en í dag vitum við að meira þarf til. Setur í slæmum stöðum við tölvur og snjallsíma hafa víðtæk áhrif á heilsuna og verkjalyf laga ekki orsökina frekar en leki er lagaður með vatnsfötu. Starf okkar sjúkraþjálfara er fólgið í því að vekja fólk til umhugsunar um þessi atriði. Við getum auðvitað hjálpað fólki til að árangur náist en fólk þarf að sitja minna og bæta setstöðurnar bæði í vinnu og heima,” segir Gauti og leggur áherslu á orð sín.

Ekki er verra að hafa þjálfara með í för hvert sem maður fer.

Alzheimersverjur

Hildigunnur segir að til þess að halda líkamanum í góðu standi sé nauðsynlegt að gera fjölbreyttar æfingar og nefnir sérstaklega jafnvægis- og samhæfingaræfingar. “Það er svo ótrúlegt hvað fólk sem telur sig vera í góðu formi á erfitt með að framkvæma æfingar sem líta sakleysislega út í fyrstu. Þess vegna erum við stöðugt að finna upp nýjar og krefjandi æfingar eftir því sem fólki fer fram í tímunum. Ég kalla þessar æfingar alzheimersverjur alveg eins og nauðsynlegt er fyrir fullorðið fólk að ráða krossgátur eða gera sudokuæfingar.

Aldursbil þeirra sem sækja til þeirra 

“Viðskiptamenn okkar eru á aldrinum tveggja mánaða upp í 95 ára,” segir Hildigunnur. “Vinkona dóttur okkar eignaðist barn sem grét mikið fyrstu mánuðina og svaf lítið. Dóttir okkar ráðlagði henni að tala við Gauta sem komst að því að barnið hefði líklega lent í togáverka í fæðingunni sem orsakaði spennu í kringum herðablað og upp í hálsinn og það væri líklega ástæðan fyrir grátinum. Gauti meðhöndlaði barnið nokkrum sinnum og árangurinn var sá að barnið fór að sofa. Á stöðinni eru tveir sjúkraþjálfarar sem hafa sérhæft sig í vandamálum sem geta komið upp hjá börnum.

Umbunin er svo mikil

“Það er sannarlega hamingja í því fólgin að geta hjálpað fólki á rétta braut heilsufarslega,” segja þau Gauti og Hildigunnur. “Að horfa á fólk koma inn haltrandi og bogið af sársauka og sjá það ganga út teinrétt án þess að vera deyft með lyfjum er ólýsanleg tilfinning, Þá vitum við að okkur hefur tekist að fá fólk til að skilja að ábyrgðin er hjá því sjálfu og sigurinn er þeim sjálfum að þakka.”

Ritstjórn september 27, 2019 07:18